Langar þig að lesa góðar bækur og ræða ásamt góðum hópi fólks? Ræða ójafnrétti og jafnrétti, fjölbreytileika og söguna? Rýna í fortíð og framtíð? Vertu með!

Við fáum fjölbreytt fólk úr íslensku samfélagi til að velja bækur, fjalla um þær og stýra umræðum ásamt ykkur. Saman kryfjum við þær til mergjar.Miðað er við bókaklúbb 20. hvers mánaðar, með fyrirvara um breytingar. Umræður verða ýmist á íslensku eða á ensku.
Skráðu þig hér!

Síðasta sumar fengum við símtal, þar sem okkur var tjáð að við ættum ekki hugverkaréttinn á að nota nafnið Flóra fyrir okkar starfsemi. Við höfðum ekki heyrt um tilvist hugverkastofu áður, og skildum ekki hvað málið snerist um. Allt teymið sem stendur að baki þessarar starfsemi var blautt á bak við eyrun, en við sögðumst myndu leggjast yfir málið og vera í sambandi. Við tók tímabil þar sem við ráðfærðum okkur við allskonar einstaklinga, kynntum okkur hugverkarétt, starfsemi hugverkastofu og leituðum leiða til að mega áfram halda nafninu okkar sem við höfum lagt mikla vinnu í að samfélagið þekki. Í ljós kemur að við eigum alls ekki rétt á að nota nafnið Flóra fyrir okkar starfsemi og engin leið í kringum það. Það leit út fyrir að við þyrftum að finna okkur annað nafn eða breyta starfsemi okkar. Við máttum ekki vera með útgáfustarfsemi, menningarstarfsemi, skrifstofu, smásölu, auglýsingasölu, tímarit eða nokkuð annað sem felst í okkar starfsemi.

Eftir mjög miklar vangaveltur sáum við að eina leiðin var í gegn, eins og Robert Frost sagði um árið „the only way out is through”. Við unnum okkur í gegnum vandann, greindum hann, skilgreindum okkur betur og fundum nafn sem gæti lýst starfsemi okkar á jafn góðan hátt og Flóra gerir - eða betur. Starfsemi okkar, áherslur og markmið eru óbreytt. Við erum ennþá vettvangur fyrir jaðarsettar raddir samfélagsins, berjumst fyrir samfélagslegu jafnrétti, höldum femínískri umræðu á lofti, sérhæfum okkur í jafnréttisumræðunni og birtum hugvekjur, samfélagsrýni og fjölbreytta umfjöllun um ýmis álitamál samfélagsins. Við komum frá þessari vinnu skýrari og skilgreindari. Við ætlum að halda áfram birta greinar, skreyttar af stórskotaliði myndskreytara, bókaklúbburinn verður á sínum stað og hlaðvörpin einnig. Við ætlum að gefa út okkar fyrstu bók á næsta ári og halda okkar fyrstu ráðstefnu.

Hið nýja nafn er Vía og vísar í leiðangur, leiðina sem við erum að feta í átt að jafnara, fjölbreyttara, upplýstara og umburðarlyndara samfélagi. Vía er leiðin, komdu með!