14. október 2020

Efnahagskreppur hafa í gegnum tíðina lagst af mismiklum þunga á íbúa jarðar eftir atvinnu, kyngervi eða því hvaða þjóðfélagshópi fólk tilheyrir og sömu sögu má segja um efnahagskreppuna sem óhjákvæmilega hefur fylgt í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Í fyrstu bylgju faraldursins var talið að á heimsvísu sé dánartíðni af völdum faraldursins hærri hjá körlum en konum en þegar kemur að félagslegum og efnahagslegum áhrifum kreppunnar sem á eftir fylgir þá hallar frekar á konur.

Atvinnuleysi virðist koma verr niður á konum en körlum og tilkynningum um heimilisofbeldi gegn konum hefur fjölgað gífurlega á síðustu mánuðum. 

Það er margt sem getur orsakað þessi ólíku áhrif en hér verður athyglinni beint að því hvers vegna konur virðast að mörgu leyti vera berskjaldaðri fyrir áhrifum COVID-19 kreppunnar en karlar. Konur eru þó ekki einsleitur hópur og áhrifin því háð skörun þátta líkt og félags- og efnahagslegri stöðu, þjóðerni og atvinnu.  

Konur hafa að jafnaði minna svigrúm til að takast á og bregðast við efnahagslegum áföllum og þær eru viðkvæmari fyrir atvinnu- og tekjumissi en karlar. Slíkt er meðal annars hægt að skýra með því að konur þéna að jafnaði minna en karlar í störfum sínum, eiga minni sparnað, búa við lakara starfsöryggi og þátttaka þeirra á vinnumarkaði er oftar í formi tímabundinna ráðninga eða hlutastarfa. Í þeirri efnahagskreppu sem hér er til umfjöllunar hafa uppsagnir víða komið hart niður á þeim sem starfa í þjónustugeiranum, svo sem störfum í verslunum og í ferðaþjónustu þar sem konur eru oft í meirihluta. 

Í löndum öðrum en Vesturlöndum bætast svo við þættir sem margfalda áhrifin sem talin eru upp hér að ofan. Svæðisbundnar hindranir útiloka konur frá efnahags- og stjórnmálalegu valdi og félagslegum úrræðum. Réttur kvenna til ákvarðanatöku innan heimilis og utan hefur þannig verið takmarkaður sem og aðgengi að fjármagni. Þetta veldur því að í Afríku sunnan Sahara, Suður-Asíu og Rómönsku Ameríku er þátttaka kvenna í óformlega hagkerfinu meiri en karla.

Óformlega hagkerfið vísar til fjölbreyttrar óskráðrar atvinnustarfsemi sem skattlagning, stjórn eða vernd ríkisvaldins nær ekki yfir. Slík störf fela yfirleitt í sér litla sem enga vernd gegn uppsögnum, launað veikindaleyfi stendur sjaldnast til boða og aðgangur að félagslegum úrræðum er takmarkaður. Störf kvenna í slíkri stöðu eru yfirleitt háð almenningsrýmum og félagslegum samskiptum, sérstaklega í þéttbýli. Konum er því nær ómögulegt að sinna störfum sínum þar sem útgöngubann og aðrar takmarkanir eru í gildi til þess að hefta útbreiðslu faraldursins.

Þegar störfum sem standa konum til boða fækkar getur það leitt til enn verri kjara, aðstæðna og ótryggari starfa.

Í Líberíu í Vestur-Afríku, sem nú gengur í gegnum annan faraldur á innan við áratug, eru konur eru yfirgnæfandi meirihluti markaðssölufólks. Þegar ebólu faraldurinn geisaði kom atvinnuleysi verr niður á markaðssölukonum en körlum og í kjölfarið tók það konur lengri tíma að komast aftur inná vinnumarkaðinn að nýju. 


Atvinnugreinar neðar í aðfangakeðjunni hafa einnig orðið fyrir miklum áhrifum og þar gætir kynjaðra áhrifa. Þetta á við um útflutningsgreinar líkt og fata- og textíliðnaðinn, sem verður fyrir truflunum bæði af framboðshliðinni og eftirspurnarhliðinni. Fataverslunum á Vesturlöndum hefur víða verið lokað tímabundið, margir tískurisar lokað fyrir pantanir og verksmiðjum hefur víða verið lokað vegna viðbragða við faraldrinum. Konur eru meirihluti starfsfólks í slíkum verksmiðjum en rúmlega 80 prósent starfsfólks textíliðnaðarins í Bangladesh eru konur.

Stór hluti þessara kvenna hefur nú verið sendur heim án launa sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir hóp kvenna sem þegar er mjög viðkvæmur.  

Álagið í heilbrigðis- og umönnurnarstörfum hefur aukist gríðarlega í kjölfar faraldursins, þar sem konur hafa verið í lykilhlutverki. Konur eru tveir þriðju af heilbrigðisstarfsfólki á heimsvísu og meirihluti starfsfólks á dvalarheimilum og í annari langtímaumönnun ásamt því að vera í miklum meirihluta í láglaunahópi heilbrigðisstarfsfólks. Konur mæta þó einnig aukinni byrði vegna ólaunaðrar umönnunarvinnu heimafyrir.

Með ólaunaðri vinnu kvenna og stúlkna er vísað til skyldna heima fyrir, svo sem umönnunar barna, matreiðslu og umsjár veikra og aldraðra fjölskyldumeðlima. Þetta eru skyldur sem falla í meira mæli á konur um allan heim og eru bæði afsprengi og drifkraftur ójafnréttis kynjanna. Með lokunum skóla og auknum fjölda smitaðra vex þörfin fyrir umönnun. Í löndum þar sem innviðir heilbrigðisþjónustu og félagslegra úrræða eru takmarkaðir eykst þörfin fyrir þessi umönnunarhlutverk kvenna í faraldri sem þessum. 

Umfjöllunin hér að framan nær aðeins utan um brot af þeim kynjuðu áhrifum sem COVID-19 faraldurinn og efnahagskreppan hafa haft og koma til með að hafa. Ekkert af því sem rakið er hér að framan er tilviljunum háð. Þetta er vandi sem á rætur sínar að rekja til þeirra leiða sem „valdar“ hafa verið til þróunar víða um heim, stefnur sem forgangsraða framleiðni og hagvexti framyfir velferð íbúa ― oft vegna áhrifa og þrýsting frá alþjóðafjármálastofnunum.

Faraldurinn og kreppan hafa afhjúpað skort á félagslegum úrræðum og öryggisnetum sem standa konum og jaðarsettum hópum til boða og snúið kapítalísku verðmætamati á haus þar sem störf sem áður voru ósýnileg eru nú talin ómissandi. Þetta vita afrískir femínistar, fræðikonur og -menn sem gripið hafa tækifærið og gagnrýnt beitingu ákveðinna efnahagslíkana til stefnumótunar í álfunni og það hvernig kynjabreytur hafi í áratugi verið hundsaðar sem leitt hefur meðal annars til þeirra afleiðinga sem reifaðar hafa verið hér að ofan.

COVID-19 og þær margþættu afleiðingar sem faraldrinum fylgja hafa að mörgu leyti sýnt og sannað það sem femínistar hafa lengi bent á, að vöxtur hagkerfisins er niðurgreiddur af vinnuframlagi kvenna sem oft er ósýnilegt og illa- eða ólaunað. 

Faraldurinn og kreppan sem fylgir hafa varpað ljósi á mikilvægi öryggisnets velferðarkerfisins og fjárfestingar í opinberum innviðum til að skapa hagvöxt án aðgreiningar. Umfram allt þarf að viðurkenna, draga úr, endurúthluta og endurmeta ólaunaða umönnunarvinnu kvenna sem enn leggur grunn að efnahagskerfum víða um heim.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Drag í Reykjavík

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Af kynjuðum áhrifum hamfarahlýnunar: Áhrif á konur í hnattrænu suðri

næsta grein
Flæði listagallerí: Leitumst eftir samstarfi við samfélagið


Lesa meira um...

Berskjöldun kvenna í kreppu: COVID-19 í femínísku ljósi