Sænska leiðin skoruð á hólm í Strassborg

28. apríl 2021

Höfundur:
Hildur Hjörvar
@hhjorvar
linkedin.com/hildurhjorvar
   

Margt hefur verið skrifað og sagt að undanförnu um kynlífsvinnu; hvaða sess hún skipi, eða eigi að skipa, í samfélaginu og hvernig sé best að haga regluverki um hana til að vernda þau sem hana stunda. Ein nálgun sem beitt hefur verið er hin svokallaða ‚sænska leið‘, en í henni felst að kaup á kynlífsvinnu, milliganga um hana og hvers kyns hagnýting á kynlífsvinnu annarra eru gerð refsiverð, en sala hennar ekki.

Meðmælendur sænsku leiðarinnar halda því fram að með þessu sé refsingum beitt gegn þeim sem fara með völdin á kynlífsmarkaði – og að kaup og sala á slíkri þjónustu sé í eðli sínu vafasöm, hún viðhaldi kynjamisrétti og að þar grasseri ofbeldi, mansal og misnotkun. Andmælendur sænsku leiðarinnar segja hana aftur á móti ekki skila sér í vernd fyrir fólk í kynlífsþjónustu, því að refsivæðing kaupa á þjónustunni ýti markaðnum á jaðar samfélagsins og geri þau sem við hana starfa útsettari en ella fyrir ofbeldi og misnotkun.

Sænska leiðin á sér bæði meðmælendur og andmælendur hér á landi og er ekki ætlunin að taka afstöðu til ágætis hennar hér. Sænska leiðin er aftur á móti til skoðunar í áhugaverðu dómsmáli sem nú er til meðferðar fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu: M.A. og fleiri gegn Frakklandi. Málið stafar frá 261 kærenda af ýmsum þjóðarbrotum sem starfa við vændi. Hér eftir verður hugtakið vændi (fr. prostitution) notað til að lýsa þeim flokki kynlífsvinnu sem felst því í að fá greitt fyrir kynmök, og er það hugtak notað bæði af kærendum og í franskri löggjöf.

Árið 2016 var gerð gagnger breyting á franskri löggjöf um vændi sem meðal annars fól í sér innleiðingu sænsku leiðarinnar: Kaup á vændi voru gerð refsiverð, ákvæði sem banna milligöngu um vændi voru styrkt og ráðist var í aðgerðir til að aðstoða fólk við að hætta í vændi. Undirbúningsgögn lagasetningarinnar gáfu til kynna að mikill meirihluti þeirra sem störfuðu við vændi væru þolendur „hórmangs“ og mansals. Ætlunin með breytingunni væri að berjast gegn vændi og mansali og standa vörð um mannlega reisn og allsherjarreglu.

Kærendur í máli M.A. og fleiri gegn Frakklandi sóttu mál, ásamt fjölda félagasamtaka, fyrir dómstólum þar í landi þar sem þau byggðu á því að innleiðing sænsku leiðarinnar bryti gegn réttindum þeirra. Þau höfðu ekki erindi sem erfiði fyrir frönskum dómstólum, sem töldu að með löggjöfinni hefði franska ríkið fundið ásættanlegt jafnvægi milli þeirra hagsmuna sem kölluðust á í málinu: Annars vegar þörf þeirra sem þvinguð væru í vændi fyrir vernd og hins vegar athafnafrelsi þeirra sem stunduðu það af fúsum og frjálsum vilja. Kærendur lögðu því fram kæru á hendur franska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg, í lok árs 2019.

Mannréttindadómstóllinn (MDE) er ein af stofnunum Evrópuráðsins og starfar við framfylgd Mannréttindasáttmála Evrópu. Hlutverk dómstólsins er að kanna hvort aðildarríki sáttmálans hafi brotið gegn þeim réttindum sem hann tryggir gagnvart einstaklingum eða félögum sem leggja fram kærur. Ísland er eitt af 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins.

Í kæru sinni til dómstólsins leggja kærendur fram tvær kvartanir.

Annars vegar kvarta þau undan því að innleiðing sænsku leiðarinnar hafi falið í sér brot gegn jákvæðum skyldum ríkisins samkvæmt annarri og þriðju grein sáttmálans. Önnur grein sáttmálans verndar réttinn til lífs, en sú þriðja leggur bann við pyndingum og ómannlegri og vanvirðandi meðferð.

Í þessum ákvæðum, líkt og fleiri ákvæðum sáttmálans, felast bæði jákvæðar og neikvæðar skyldur fyrir ríkið. Í neikvæðum skyldum felst að ríkið má ekki sjálft brjóta gegn réttindunum – það er að segja drepa fólk eða beita það pyndingum eða vanvirðandi meðferð. Í jákvæðum skyldum felast ákveðnar grunnkröfur til þess að ríkið verndi þessi réttindi og sporni gegn því að fólk brjóti á rétti hvers annars. Þannig verður ríkið til dæmis að gera manndráp refsiverð, það verður að rannsaka manndráp sem framin eru með fullnægjandi hætti og það þarf jafnvel að beita fyrirbyggjandi aðgerðum ef það veit af yfirvofandi hættu á því að einhver verði sviptur lífi.

Kærendur byggja á því að franska ríkið hafi brugðist þessum jákvæðu skyldum: Innleiðing sænsku leiðarinnar hafi sett þau í veikari stöðu gagnvart kaupendum kynlífsþjónustu en áður og gert þau útsett fyrr kynferðisofbeldi, líkamlegu ofbeldi og smitsjúkdómum. Að auki hafi lagabreytingarnar jaðarsett fólk í vændi og gert þeim erfiðara fyrir að sækja sér heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Hins vegar kvarta kærendur undan því að innleiðing sænsku leiðarinnar brjóti gegn rétti þeirra til friðhelgi einkalífs samkvæmt áttundu grein sáttmálans. Í málaferlunum í Frakklandi héldu kærendur því fram að sænska leiðin gengi of langt í því að takmarka athafna- og samningsfrelsi einstaklinga sem stunda og kaupa vændi. Fyrir MDE halda þau því fram að það að banna fullorðnum einstaklingum stunda viðskipti með kynlíf af fúsum og frjálsum vilja brjóti gegn sjálfsákvörðunarrétti og kynfrelsi einstaklinga, og þar með gegn friðhelgi einkalífs.

Að lokinni forskoðun á máli M.A. og fleiri hefur dómstóllinn ákveðið að taka það til frekari skoðunar með því að tilkynna franska ríkinu um kærurnar og leggja fyrir það spurningar. Eftir því sem höfundur kemst næst er þetta í fyrsta skipti sem mál af þessu tagi er til skoðunar hjá dómstólnum. Það verður áhugavert að fylgjast með niðurstöðu málsins fyrir MDE, en eftir henni verður töluverð bið þar sem málaferli sem þessi taka fleiri mánuði og jafnvel ár. Allt að einu virðist ljóst að ekki hafi öll kurl sem varða kynlífsvinnu og þau sem hana stunda verið komin til grafar með innleiðingu sænsku leiðarinnar.

— — —

Höfundur er íslenski lögfræðingurinn við Mannréttindadómstól Evrópu. Grein þessi er ekki skrifuð í nafni dómstólsins og ber höfundur ein ábyrgð á efni hennar.


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Kynlífsvinna 101