14. október 2020

„Loksins einhver kona í lyftingum!“

Þetta fékk ég framan í mig þegar ég mætti á mína fyrstu æfingu í kraftlyftingum hjá íþróttafélagi fyrir fatlað fólk árið 2016. Ég hafði meldað mig inn við afgreiðsluna og var að spyrja afgreiðslukonuna til vegar á æfingarstöðinni. Hún ljómaði öll við að heyra hvaða erindi ég ætti þangað inn, og þar sem ég leit á hana yfir afgreiðsluborðið sá ég ekki betur en að hún hefði miklar væntingar og ég gat ekki annað en fundið fyrir dálítilli pressu. Ég hafði ekki átt von á slíkum viðbrögðum, hafði ekkert pælt í því að vera kona í lyftingum. Hvað þá fötluð kona í kraftlyftingum hjá félagi þar sem voru nánast bara karlmenn í liðinu.

Og miðað við viðbrögð konunnar fyrir framan mig hafði þetta verið svona lengi, aðeins karlmenn við lóðin á meðan við konurnar vorum ýmist í sundi, frjálsum íþróttum eða jafnvel boccia.

Umræðan um konur í íþróttum hefur af og til skotið upp kollinum. Til að mynda spratt upp heit umræða í kringum heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu hér um árið þegar kom í ljós að konurnar ættu að spila á gervigrasi, ólíkt karlmönnunum sem spiluðu á grasi. Þetta þótti mörgum vera kynjamismunun, en það sorglega er að þetta er ekkert einsdæmi. Kynjamismunun má nefnilega finna víða. Getur þú, lesandi góður, nefnt eina afreksíþróttakonu í kraftlyftingum? Hvað þá fatlaða?

Þegar kemur að fötluðu fólki í íþróttum er umræðan hins vegar ekki eins hávær og umræðan um kynjajafnrétti. Þó skaut allavega ein umræða upp kollinum í kringum Ólympíuleika fatlaðra 2016 þegar hópur fólks vildi að Ríkisútvarpið sýndi frá þeim, enda efnilegt íþróttafólk þar á ferð fyrir hönd Íslands. 

En aldrei hef ég heyrt minnst á afreksíþróttakonur í þrekíþróttum, sem eru fatlaðar, í fjölmiðlum og umræðunni.  Annie Mist og Katrín Tanja eru góð dæmi um konur í þrekíþróttum, en þær hösluðu sér völl á Crossfit-mótum þar sem voru aðeins ófatlaðir. Þær hafa  eflaust átt sinn þátt í því að hvetja konur til dáða í þeirri grein þó enn sé langt í land hvað varðar kynjajafnrétti þar sem og víðar. En engin fötluð kona er jafn fræg og þær á því sviði, og því eru þessar tvær konur mínar helstu fyrirmyndir, þrátt fyrir að vera báðar í annarri stöðu en ég.


En sem sagt, ég fór inn í lyftingarsalinn þennan umrædda vetrardag 2016, enn með orð afgreiðsludömunnar í eyrunum og beið óþreyjufull eftir leiðbeiningum frá þjálfaranum.

Ég fann fyrir þessari pressu að standa mig, ekki bara fyrir sjálfa mig heldur líka fatlaðar kynsystur mínar.

Þjálfarinn var ungur karlmaður sem virtist varla vita hvernig ætti að þjálfa mig. Hann lét mig fá prógrammið og sýndi mér hvernig mætti nota aðstöðuna, en upp frá þessu þurfti ég að gera sama prógrammið síendurtekið því þjálfarinn gaf sér lítinn tíma til að gera nýtt fyrir mig, var  of upptekinn af að þjálfa strákana. Ég var einungis nýgræðingur í lyftingum svo ég kunni ekkert annað, þannig ég mátti bara gjöra svo vel að fylgja sama prógramminu og gera tilraunir með tæki og lóð.

Það voru einungis karlmenn sem voru virkir í liðinu ásamt mér. Sumir þeirra fóru þó fljótlega að leiðbeina mér á æfingum þegar þjálfarinn gaf mér ekki gaum. Ég fann þó fljótt fyrir óþægilegu áreiti. Sumir liðsfélagarnir fóru að gefa mér og aðstoðarkonum mínum auga, sem mér fannst mjög óviðeigandi. Svo ég tali nú ekki um miðaldra mennina sem stundum fengu að nota salinn okkar, þeir létu okkur ekki í friði. Einn slíkur stóð stundum yfir mér á æfingu,  klappaði þegar ég gerði eitthvað og mér fannst nærvera hans mjög óþægileg.

Eins mikið og ég dýrkaði að lyfta og dreymdi um að verða eins og hetjurnar Annie Mist og Katrín Tanja þá fannst mér andrúmsloftið í liðinu eitrað. Mér fannst strákarnir ekki taka mér alvarlega, eins og þeir héldu að ég væri bara eitthvað skraut á bekkjunum þeirra.  Ekki bætti úr skák þegar ég var eitt sinn á leið á æfingu og rakst á konu í anddyrinu sem stöðvaði mig og sagði að Boccia-æfingin væri ekki fyrr en eftir klukkutíma. Ég þakkaði pent fyrir mig en sagði eins og var að ég væri á leið í lyftingar. Undrunarsvipurinn á konunni leyndi sér ekki og hún virtist mæla mig út þar sem ég sat í hjólastólnum, íklædd íþróttafötum og með íþróttaskóna mína í annarri hendi og vatnsbrúsa í hinni.

Skilaboðin voru augljós: Fatlaðar konur hafa ekkert að gera með lóð. Ég ætti frekar að vera í Boccia en að flexa mína kvenlegu vöðva.


Eftir fjóra mánuði gafst ég upp. Ég var orðin leið á prógramminu og áreitinu, og treysti mér ekki til að kvarta við þjálfarann  því hann var alls ekki hlutlaus. Ekki datt mér heldur í hug að kvarta til yfirmanns hans sem var, að sjálfsögðu, miðaldra karlmaður með tröllatrú á liðinu. Ég vissi ekki um neitt annað úrræði og hætti því að mæta á æfingar.

En þó ég væri hætt hjá þessu tiltekna liði langaði mig ekkert að hætta að stunda þrekíþróttir, hvort sem það voru lyftingar eða annað álíka. Ég fór því að leita að öðrum stað til að æfa á. Til að byrja með fór ég í einkatíma í Mjölni, þar sem ég hafði æft víkingaþrek og box áður en ég fór í lyftingar. Síðar sneri ég mér í Crossfit, þrátt fyrir að einhverjir hefðu efasemdir um að ég gæti tæklað það. Einhverjir töldu að ég hefði ekki líkamlega burði fyrir Crossfit, en ég lét það ekki á mig fá, það sakaði ekki að prófa. Í crossfit var allt annað upp á teningnum. Kynjamismunurinn var ekki eins afgerandi og í kraftlyftingunum og fólk tók mig alvarlega.  Ég var ekki lengur bara eitthvað skraut á bekknum, heldur kona í íþróttum. Og þjálfararnir höfðu fulla trú á mér; töldu mig vel færa um að tækla WOD-in og duguðu engin vettlingatök. Ég var í Crossfit í tvö ár áður en ég varð að hætta tímabundið vegna heilsuástæðna. Ég stefni þó á að byrja aftur.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að mér hafi gengið betur á almennri æfingarstöð en í íþróttafélagi fyrir fatlaða. Eins finnst mér umhugsunarvert hve ólík viðhorfin til kvenna í þrekíþróttum eru. Kannski stafar það af skorti á fræðslu um kynjajafnrétti fyrir fatlað fólk, eða einfaldlega vegna skorts á fötluðum kvenfyrirmyndum í lyftingum.

Fatlaða konan í þrekíþróttum hefur ekkert andlit enn sem komið er, en ég trúi ekki öðru en að það séu til konur eins og ég sem dýrka þrekíþróttir og geta orðið afbragðs lyftingakappar einn daginn.

Ef hún er þá ekki nú þegar til — en þá hefur hún ekki fengið verðskuldaða athygli.


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Nýja stjórnarskráin hefur alla burði til þess að raunverulega betrumbæta íslenskt samfélag.

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Gerendur eru allskonar

næsta grein
Drag í Reykjavík


Lesa meira um...

Fötluð lyftingarkona sem enginn þekkir