13. ágúst 2020

„Viltu kyssa mig, aðeins lengur?“ 

Við liggjum saman, hlið við hlið, líkamar okkar flæktir saman í slaufu. Ég ligg með vinstri höndina undir koddanum til að hafa hemil á henni og ósjálfráðu hreyfingunum. Þessi vinstri hönd hefur oftar en ekki komið mér í klandur, því þegar ég verð stressuð eða spennt kemur hún ávallt upp um mig. Þá hreyfist hún meira og nær gjarnan taki á óæskilegum hlutum, eins og til dæmis hári. Það er ekkert meira ósexý en að grípa óvart í hárið á henni í miðjum klíðum. En þessi kona sem ég ligg við hliðina á elskar þessa vinstri hönd eins og hún elskar restina af mér. Fyrir henni er höndin hluti af mér, partur af því sem gerir mig sexý. Alveg eins og lærin, kúlurassinn og brjóstin.

Ég hef aldrei átt gott samband við þessa vinstri hönd og tala gjarnan um hana sem sjálfstætt fyrirbæri. Vinstri höndin hefur alla tíð verið óstýrilát og gjarnan valdið mér sársauka. Ég hef oft viljað losna við hana og faldi hana lengi vel á myndum því mér fannst hún ljót. Með aukinni áherslu minni á líkamsvirðingu og sjálfsást hefur þessi blessaða vinstri hönd oftar verið tekin út fyrir sviga og útilokuð frá virðingunni, sem hún þarf svo sannarlega á að halda. Mér hefur fundist hún of fötluð, of pirrandi til að fá að vera með. Að kynnast konu sem elskar þessa vinstri hönd hefur smám saman breytt hugarfari mínu til handarinnar. Það hefur hjálpað mér meta og sjá líkama minn í öðru ljósi. 

Þegar líkami þinn fellur út fyrir normið verður það að virða, fagna og elska líkaman að róttækum gjörningi.

Líkamsvirðing og sjálfsást fá sífellt meira rými í femínískri umræðu og á samfélagsmiðlum spretta fram herferðir sem fagna fjölbreyttum líkömum og við hvött til sjálfsástar. Á sama tíma hefur okkur hins vegar tekist að markaðssetja sjálfsást sem eitthvað persónulegt markmið sem við þurfum öll að ná.

„Þú verður fyrst að elska sjálfa þig til þess að geta vænt þess að aðrir elski þig“, segjum við í einhverri tilraun til valdeflingar og er ég sjálf engin undantekning þar. Ég hef ansi oft hamrað á þessu bæði við sjálfa mig og aðra. En vandinn við fullyrðinguna er sá að við setjum upp skilyrði fyrir ást og gerum aðeins sum okkar verðug ástar.

Í menningu sem markvisst kennir okkur að hata líkama okkar, vanvirða hann og þrá að breyta honum er ótrúlega ósanngjarnt og í raun kúgandi að gera einstaklingana sjálfa ábyrga fyrir því að vera verðuga ástar. Það er einmitt svona sem við sköpum og viðhöldum ofbeldismenningu – þegar við setjum skilyrði fyrir ást.


Alex Dacy er ein þeirra fjölmörgu fötlunaraktívista sem hefur fjallað um fötlun, líkamsvirðingu og kynþokka. Dacy notar Instagram í sínum aktívisma en reikningnum hennar hefur margoft verið lokað vegna þess að myndirnar sem hún birtir þar, af fáklæddum líkama sínum, þykja óviðeigandi og eru oftar en ekki tilkynntar af öðrum notendum sem barnaklám. Það að barngera fatlað fólk og líkama okkar er gömul saga og ný og hefur þau áhrif að almennt er ekki litið á okkur sem kynverur. Auk þess að vera barngerð er gengið út frá því að fatlað fólk sé óánægt með líkama sinn og þykir sjálfsást fatlaðs fólks svo róttæk að við lokum markvisst fyrir slíkan ‘áróður’ á internetinu. 

Ljóst er að fordómar, staðalmyndir og kúgun valda því að líkamsvirðing og sjálfsást reynast okkur miserfið. Oftar en ekki er það þó ást annarra á líkömum okkar sem eflir okkar hvað mest. Áherslan á líkamsvirðingu og sjálfsást er frábær og nauðsynleg þróun innan femínismans. En til þess að losna undan kúgandi kaptíalískum áherslum af skipaðri sjálfsást þurfum við að breyta um stefnu og varpa ábyrgðinni annað.

Við þurfum í sameiningu að skapa samfélag sem virðir og fagnar fjölbreyttum líkömum. Við gerum það meðal annars með því að sýna líkömum annarra virðingu og ást. Það gerist ekki fyrr en við sjálf hættum að óttast feita, fatlaða eða kynsegin líkama annarra.

Ég vil enda á orðum fötlunar- og hinsegin aktívistans Stacey Milbern sem féll frá fyrr á þessu ári aðeins 33 ára gömul. „I want my legacy to be loving disabled people. By loving each other we start to love ourselves.“



— — —

Félags- og kynjafræðingurinn Embla Guðrúnar Ágústsdóttir er ein stofnenda Tabú, femínískrar baráttuhreyfingar fatlaðra kvenna. 
Tabú er femínísk hreyfing þar sem sjónum er beint að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún er sprottin af baráttukrafti kvenna, sem hafa ekki einungis upplifað misrétti á grundvelli fötlunar og kyngervis, heldur einnig mögulega kynhneigðar, kynþáttar og aldurs svo eitthvað sé nefnt.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Kynferðislegt ofbeldi: Það myndi enginn nauðga feitri konu

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Líkamsvirðing og fatlaðir líkamar: aðgengisnánd og réttlæti

næsta grein
Nauðgunarmenningin og samfélagsleg goggunarröð


Lesa meira um...

Pólitísk sjálfsást