12. mars 2021

“That’s how you can tell that you’re filling yourself with the wrong things. You use a lot of energy, and in the end, you feel emptier and less comfortable than ever.” — Glennon Doyle

Fyrir ári síðan, rétt áður en að núverandi Covid ástand varð hversdagsleikinn og ekki bara fjarlæg krísa, var ég rúmliggjandi og veikari en ég hafði verið í lengri tíma. Það hrygldi í lungunum á mér og ég var með óráði vegna hita. Á biðstofu heilsugæslunnar frétti ég að fyrsta tilfelli Covid hafði greinst hérlendis og mér þótti það skrýtið því ég vissi að ef einhver væri með Covid á Íslandi þá væri það ég. Ég varð líka stressuð því „hvað ef mér verður ekki hleypt af heilsugæslunni og ég verð sett í einangrunarklefa og fæ ekki að hitta mömmu aftur og það verða gerðar tilraunir á mér og…” en þær hugsanir voru aðallega fylgifiskur óráðsins.
Ég var ekki með Covid. Og hef víst ekki fengið það ef marka má tvær mótefnamælingar. Ég þjáðist meira í þessari „almennu“ flensu en margir sem hafa orðið fyrir barðinu á vírusinum alræmda. Ég þjáðist semsagt til einskis. Eða hvað?

Í upphafi ársins 2020 var ég á sjáfsstýringu og hljóp eins og hamstur á hjóli. Við þekkjum þetta mörg, enda eru Íslendingar „duglegasta fólk í heimi“ og stolt af því. Ég var í tveimur störfum; flugi og leiklist, svitnaði daglega í ræktinni, fylgdist grannt með hverri næringarörðu sem fór upp í mig, var umvafin góðum vinum og yndislegri fjölskyldu, stóð við allar mínar afborganir OG ég átti hund. Ég sinnti reyndar hvorugu starfi heilshugar því ég var með sífelldan kvíða yfir því að komast ekki í tökur útaf flugi eða í flug útaf tökum, líkamlega var ég uppgefin af allri þessari hreyfingu og leitaði sífellt oftar í súkkulaði og skyndiorku til þess að lifa daginn af, náði sjaldan að hitta allt þetta góða fólk því það voru bara ekki nógu margar klukkustundir í deginum, var sífellt með áhyggjur af því að eiga ekki nægan pening og þyrfti því að vinna meira til að upplifa fjárhagslegt öryggi, og hundurinn var fluttur til foreldra minna og svo til fjölskylduvina fyrir norðan. 

Ég var reyndar byrjuð að kíkja við og við til sálfræðings en það var bara til þess að laga þessa pirrandi tilfinningu að lífið væri kannski einskis virði, fólk væri upp til hópa vont og heimurinn hræðilegur staður. Nota bene, þá var ég samt með allt mitt á kristaltæru. Og bara mjög dugleg.

Svo dugleg að ég tel þessi veikindi hafa verið bein afleiðing alls þess dugnaðar. Ónæmiskerfið var í molum og þrátt fyrir flensusprautu réð ég ekki einu sinni við þetta kvef. Það er augljós blessun að ég fékk ekki hið alræmda Covid því ég er ekki viss um að ég hefði beðið þess bætur.


Í veikindunum svaf ég. Hvíldist. Þegar ég reis upp frá dauðum var efnahagurinn og samfélagið í frjálsu falli. Ég fór í tvö flug áður en mér var sagt upp ásamt meirihluta flugþjóna, líkamsræktarstöðvar lokuðu ásamt flestum samkomustöðum og mamma mín flutti inn til mín í nokkrar vikur á meðan foreldrar mínir gerðu upp íbúðina sína. Fótunum var kippt undan mér og lífinu endurraðað á máta sem ég virtist ófær um að gera sjálf. Máta sem hefur núna sýnt mér á hversu rangri vegferð ég var. 

„We have to get back into our own bodies and figure out what the hell we want to do.“ — Glennon Doyle

Hamsturshjólið er mjög átakalaus leið til þess að hlaupa í gegnum lífið á sjálfstýringu. Eina krafan er að þú stoppir aldrei til þess að spyrja þig hvað í andskotanum þú ert að gera og af hverju. Ég var ekki við stjórnvölinn í eigin lífi, ég var á flótta. Hrædd við að standa og falla með mínum ákvörðunum. Velja eitt og hafna öðru.
Málið er að ég VAR að velja og hafna, en ég gerði það án meðvitundar og án þess að skoða það í samhengi við eigin gildi. 
Eigin gildi. Hver voru þau svosem? Var mikilvægt fyrir mig að vinna? Já, auðvitað. Var mikilvægara fyrir mig að vinna en að vera góð vinkona eða dóttir? Nei, væntanlega ekki. En var mikilvægara fyrir mig að vinna og vera góð vinkona en að passa upp á andlega heilsu mína? Auðvitað ekki! Ok flott. Og hvað var ég að gera til þess að passa upp á þetta gildi til dæmis? Nákvæmlega. Ekki. Neitt.
Svo lengi sem ég hélt áfram að hlaupa þurfti ég ekki að spyrja mig þessara spurninga, og það var auðveldara að hlaupa heilalaus. Þar til ég hljóp á vegg. Kostnaður þess að vera dugleg. Ég var svo útkeyrð að ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég var þreytt. Nei, þreytt er ekki nógu sterkt. Útkeyrð. Krónísk eymsli á líkama og sál voru bara normið. 

Þessi ófyrirséða stöðnun á samfélaginu var því eins og að vera lögð inn á ókeypis heilsuhæli. Ég fékk algjöra hvíld. Ég fór að elda í fyrsta sinn. Lesa. Skokka. Hlusta betur á líkamann. Sýna sjálfri mér samkennd. Finna samkennd með öðrum og þolinmæði í garð þeirra. Þolinmæði fyrir sjálfri mér. Vera þakklátari fyrir litlu hlutina og umburðarlyndari þegar hlutirnir voru ekki fullkomnir. Og smátt og smátt fann ég styrkinn til að taka ákvarðanir sem voru erfiðar en nauðsynlegar fyrir mig til þess að líta í spegilinn í lok dags og vera sátt með það sem ég sá. Ekki bara það sem ég sá utan á mér (sem er eilífðarverkefni) heldur það sem ég sá innra með mér.

“What if in skipping the pain, I was missing my lessons?” — Glennon Doyle

Það er sársaukafullt að fatta að manneskjan sem þú ert passar ekki við manneskjuna sem þú telur þig vera. Ég taldi mig fylgja sterkum gildum sem voru í raun og veru innantóm. Sem gerði mig líka innantóma. Það var löngu kominn tími til að endurskoða þessi gildi, henda sumum út, taka önnur inn. Endurraða þeim sem eftir stóðu og nota þau sem vegvísi til framtíðar.


Þetta kalla ég sjálfsuppfærslu. Það verður að teljast til forréttinda að hafa tíma og öruggt rými til þess að kafa inn á við. Ég veit, það er hippafílíngur í þessu. Það er kannski minna hippalegt ef ég viðurkenni að margir af þeim einstaklingum sem veita mér innblástur eru YouTube-arar og ég sækist í myndböndin þeirra eins og krakki á iPad „fylleríi“. En hvernig sem þú ferð að því þá hvet ég þig, kæri lesandi, til þess að líta af heiðarleika inn á við og spyrja þig: Fylgi ég raunverulega þeim gildum sem ég aðhyllist? Ef ekki, af hverju?
Slík sjálfsskoðun getur verið óþægileg, jafnvel sársaukafull. En hún getur lagt grunninn að betra lífi. Að ferðalagi sem fer með þig á nýjar og spennandi slóðir.
Nýlega hef ég orðið fyrir miklum innblæstri af rithöfundinum Glennon Doyle. Hún hefur gengið í gegnum mínar verstu martraðir og staðið uppi sem sigurvegari. Glennon skrifar mikið um gleði, ástina, leitina að hamingjunni. En hún skrifar líka um sársauka og hvað lífið er hreinlega erfitt (þungt viðfangsefni en hún er mjög fyndin!). Sem smellpassar við áhugasvið mitt þessa daga. Hver dagur felur í sér einhvern sársauka. Mér finnst ég aldrei hafa lært jafn mikið og vitað jafn rosalega lítið. En eitt er ég viss um. Í sársaukanum liggur þroskinn. Án hans stöðnum við. Hann krefst þess af okkur að við annað hvort gerum einhverja breytingu, eða að við gefumst upp. Stöðvum hamsturshjólið og stígum út úr því, lítum í kringum okkur, lítum inn á við, og uppfærum mjúka diskinn.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Kvennasamstaða: til vinkvenna, til ömmu, til dóttur

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Veganismi: Skoðanaskipti

næsta grein
Láglaunastörf: Skúra, skrúbba og strita


Lesa meira um...

Kulnun: Að uppfæra mjúka diskinn