12. mars 2021

„Hver er ykkar helsta fyrirmynd?“ spurði fyrirlesarinn og hélt svo áfram „er það kannski Helen Keller?“

Hann stakk upp á Helen Keller eins og ekkert væri sjálfsagðara, enda áheyrendur allir daufblindir, það er að segja bæði heyrnarlausir og blindir. Umræddur fyrirlesari var staddur í norrænum sumarbúðum fyrir daufblind ungmenni og hafði nýlokið við að segja ævisögu sína og fjalla um sínar helstu fyrirmyndir. Ég ranghvolfdi bara í mér augunum yfir uppástungu hans, enda Helen Keller vel þekkt dæmi og jafnvel dálítið þreytt hjá okkur daufblinda fólkinu, svona eins og Vigdís Finnbogadóttir eða Michelle Obama.






En hver var þessi kona, Helen Keller? Í stuttu máli er hún líklega ein af fyrstu fötluðu aktívistum í heiminum, og sú þekktasta. Hún var bandarísk kona af efri stigum samfélagsins og var uppi á 20. öld, en hún var fædd árið 1880. Hún barðist fyrir réttindum fatlaðs fólks, tók þátt í baráttu verkalýðsins og kvennréttindabaráttunni auk þess sem hún var á móti kapítalisma, rasisma og stríði.

Ekki nóg með það, heldur var hún sjálf daufblind og braut blað í sögunni með því að verða fyrsta daufblinda manneskjan til að útskrifast úr háskóla. Þá gaf hún út bækur og ritgerðir, þar á meðal sjálfsævisögu sína My Life sem hefur verið kvikmynduð.

Í hugum margra, ekki bara daufblinds fólks, er Helen afar merkileg persóna.  Ég hef oft heyrt daufblint fólk segja að hún sé sín fyrirmynd enda var hún brautryðjandi. Jafnvel eru haldnir viðburðir í hennar nafni á borð við Helen Keller World Conference og í Bandaríkjunum er heil stofnun sem heitir í höfuðið á henni, Helen Keller Center. Síðast en ekki síst er alþjóðadagur daufblindra á afmælisdegi hennar, 27. júní. Það vill þó oft gleymast að hún var flókin persóna og barðist ekki einungis fyrir réttindum daufblindra, heldur tók hún þátt í pólitískri umræðu og kom með eldfimar skoðanir sem ekki allir tóku fagnandi. Þrátt fyrir það er hún þekktust fyrir að vera daufblind og hafa lært að hafa samskipti sjö ára, enda segja margar bandarískar barnabækur frá því hvernig kennari hennar Anne Sullivan dýfði hendi hennar í brunn og stafaði: VATN. 

Nú nýlega brá mér heldur betur í brún þegar það fór af stað umræða á Tiktok þar sem tilvist Helen Keller var dregin í efa. Samsæriskenningarnar ganga meðal annars út á að Helen hefði aldrei getað komist í háskóla á þeim tíma sem hún lifði vegna fötlunar sinnar eða tekið þátt í umræðunni. Hún væri því tómur uppspuni og svo virðist sem margir hafi tekið þessum samsæriskenningum trúanlega. Þetta kom heldur betur illa við marga úr samfélagi daufblindra, enda spunnust umræður um málið á þeim vettvangi á samfélagsmiðlum. Samsæriskenningarnar afhjúpa ableisma og hvernig hann fær að vaxa og dafna á miðlum eins og Tiktok. Vissulega tilheyrði Helen Keller þeim minnihlutahópi að vera fötluð kona, en það má ekki gleyma því að hún var af efri stigum samfélagsins í Bandaríkjunum, í stöðu sem gerði henni kleift að fá aðstoð, mennta sig og verða baráttukona á þeim tíma sem hún lifði. Hún skildi eftir sig ævisögur og ritgerðir og hún var orðin það vel þekkt að hún fékk að vera á frímerki. Það að ganga út frá því að manneskja geti ekki gert eitthvað vegna fötlunar sinnar kallast ableismi og það er sorglegt að sjá hvernig hann bitnar jafnvel á einni helstu baráttukonu fatlaðs fólks.

Það má auðvitað setja spurningamerki við raunverulega kunnáttu fólks um líf þessarar konu, hvort það þekki skrif hennar og framlag til samfélagslegrar umræður, eða hvort það þekki einungis söguna af kraftaverkinu við vatnið — en ableismi sprettur einmitt upp frá fáfræði.






En aftur að fyrirlesaranum í sumarbúðunum, hverju svaraði ég þá? Ég sagði auðvitað ekki Helen Keller, enda ekki vel að mér um hana né sammála öllu sem hún sagði eða gerði. Svo ég endaði á að segja: „Þegar stórt er spurt… Ætli það sé ekki bara amma mín?“













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Móðurhlutverkið: Venjulega extravaganza

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Fötluð lyftingarkona sem enginn þekkir

næsta grein
Ungar athafnakonur: Ef hún getur það, þá get ég það


Lesa meira um...

Sígilda fyrirmyndin Helen Keller lendir á Tiktok