Karlinn sem fyllti ofbeldis-mælinn

6. maí

Höfundur:
Tinna Eik Rakelardóttir
@tinna_eik
@tinnaeik
   
Myndahöfundur:
Tinna Eik Rakelardóttir
@tinna_eik
@tinnaeik


Við höfum öll heyrt sögur af þekktum körlum sem beita konur ofbeldi og áreitni. Sögur af kassagítarsspilara sem reynir við áhorfendur sína á grunnskólaböllum, miðaldra söngvara sem pikkar upp stelpur í partýjum sona sinna á unglingsaldri, hljómborðsleikara sem biður um happy ending á hefðbundinni nuddstofu og af manni sem beitir svo háværu ofbeldi inn á heimili að kalla þarf lögregluna til. Sumar eru þolendur þessara manna, oft þekkjum við þolendur þeirra persónulega, og sjaldan er okkur brugðið þegar fleiri sögur hrúgast upp. 

Við erum flest komin með nóg af þessum köllum, en ekkert okkar þorir að tala um það upphátt eða undir nafni að þeir nauðgi, lemji, káfi eða klæmist.

Ef við gerum það þá fýkur í aðra valdamikla kalla sem smána okkur opinberlega og hleypa kommentakerfum í það að taka okkur af lífi. Vegna þess hversu erfitt það getur verið að horfast í augu við að viðkunnanlegir, valdamiklir kallar sem við þurfum að hlusta á á öllum útvarpsstöðvum, séu líka ofbeldismenn, velja sum okkar að verja jafnvel viðkomandi:

„Það getur nú ekki verið að hann hafi nauðgað þessari, maðurinn er giftur!“, “En hann lúkkar alltaf svo næs”, “Hann er nú svo myndarlegur að hann þarf ekki að kaupa sér kynlíf”. Við kjósum mörg að hlusta ekki á sögurnar, og kveikja í staðin bara á helgarþættinum, tralla með og hundsa allar sögusagnir um ofbeldi, misnotkun og kynlíf með börnum af hendi frægu kallanna okkar.

slúður um kalla sem beita ofbeldi

Þrátt fyrir að hér hafi #MeToo farið mjög hátt og samfélagið nötrað á meðan á því stóð þá voru samt fá sem voru dregin til ábyrgðar, fá andlit eða nöfn voru dregin í umræðuna. Vissulega var hvíslað kvenna á milli inni á lokuðum hópum samfélagsmiðla, en þetta voru samt flest allt nöfn sem við höfðum heyrt áður, flest þeirra oftar en tvisvar.

„Já, þessi, ég þekki eina sem lenti rosalega í honum“, „Ég slapp einmitt naumlega undan honum þegar ég var 15 ára!“ eða „Mamma mín varaði mig einmitt við honum þegar ég byrjaði að fara á böll með honum“, voru algengar athugasemdir í hópum kvenna þar sem við reyndum að vara hvora aðra við. En engin okkar, ég sjálf meðtalin, þorðum að segja nöfnin upphátt á almannafæri. 

Við höfðum allar gert tilraunir til þess, en viðbrögðin í einkasamræðum og niðurlæging annarra kvenna á samfélagsmiðlum segja okkur allt sem við þurftum að vita. Ef við segjum frá bætumst við bara á þolendalistann, en áhrifin á ofbeldiskallana verða sömu og engin.

Þeir þurfa mögulega að þola nokkrar óþægilegar fyrirsagnir, en á sama tíma mun ákveðinn hópur samfélagsins ganga úr skugga um að þeir selji upp alla miða á nýja uppistandið sitt, vinir þeirra bjóða þeim í vinsælustu útvarpsþætti landsins til að glensa og hafa gaman og þeir eiga vinsælasta lagið á Íslandi.

Ofbeldið sem við höfum nú þegar orðið fyrir og ofbeldið sem aðrar konur hafa orðið fyrir er nóg. Við höfum ekki viljað bæta ofan á það opinberri niðurlægingu og ofbeldinu sem þrífst í kommentakerfum fjölmiðla. Þar sem fjölmiðlar leyfa viðbjóðnum sem á sér stað á þeirra vefsvæði að grassera og ýta jafnvel undir hann. Við höfum séð fjölmörg dæmi þess, hálfbakaðar fréttir um Hildi Lilliendahl og smellubeitu fyrirsagnir um dómsmál Freyju Haralds, múgæsingur í kringum fréttir af aktívisma Töru Margrétar. Allt konur sem hefur verið hent í hakkavél kommentakerfanna við hvert tækifæri, allt fyrir smelli og án þess að þær hafi nokkurtíma valið það sjálfar.

Það vita allir fjölmiðlar að um leið og það kemur inn umfjöllun eða frétt af feminískum aktívisma þá kemur inn holskefla af viðbjóðslegum athugasemdum. Athugasemdum sem hafa áhrif á sálarlíf þeirra kvenna sem fjallað er um, og á fjölskyldur þeirra, vini, og á konur og annað fólk sem á eitthvað sameiginlegt með þeim. Það að við sem vitum um þekkta ofbeldiskalla en treystum okkur ekki í þessa hakkavél þýðir ekki að ofbeldiskallarnir hafi ekki beitt ofbeldi.

Við vitum líka annað, fjölmiðlar hafa ekki áhuga á sögum um þessa menn, þessir menn eru vinir þeirra og kunningjar. Þessir menn gefa þeim smelli og athygli, bæði í viðskiptum og persónulega, þeir eru meira að segja líka oft í vinnu hjá þeim. Fjölmiðlar vilja alls ekki styggja þessa vini sína.

Öll að slúðra um fræga kalla sem beita ofbeldi

Svo þessir kallar halda áfram að beita ofbeldi, og við konur höldum áfram að hvísla okkar á milli, því hvíslið er það eina sem við höfum til að verja okkur sjálfar og systur okkar, vinkonur, frænkur, mömmur og ókunnugar konur fyrir frægum ofbeldisköllum. Á sama tíma vonum við samt alltaf að einhver sem hlustað er á verði til í að standa með okkur einhvern daginn, í baráttunni gegn valdamiklum ofbeldisköllum.


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
,,Ég vissi ekki betur“ – Kynfræðsla og gerendur