13. ágúst 2020

Kynferðisáreiti og ofbeldi er víða. Sumir hópar eru viðkvæmari fyrir því en aðrir en þó hef ég tekið eftir því að í tilfelli fatlaðs fólks er sjónum okkur gjarnan beint að ofbeldi ófatlaðra í garð fatlaðra. Það er reyndar alls ekki óalgengt að svo sé, en það vill gleymast að ofbeldið á sér einnig stað innan þessara hópa enda þrífst ofbeldi vel í aðgreiningu.

Sýnt hefur verið fram á það að fatlaðar konur eru mun líklegri til þess að verða fyrir ofbeldi en ófatlaðar konur, enda er um afar viðkvæman hóp að ræða.

Ég er sjálf með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og er hreyfihömluð og telst því tilheyra afar jaðarsettum hóp. Ég hef lent í ýmsu óþægilegu í gegnum tíðina og einnig horft upp á vinkonur mínar verða fyrir áreiti og ofbeldi. Ég leiddi hins vegar hugann ekkert sérlega að því hverjir gerendurnir væru og hélt kannski að þetta væru oftast ófatlaðir menn enda hef ég margoft orðið vitni að framferði þeirra og lent í þó nokkrum óþægilegum atvikum sjálf. Það var því ekki fyrr en ég var að vinna í BS ritgerðinni minni í viðskiptafræði að ég staldraði aðeins við og endurhugsaði málið. Ég var sem sagt að skrifa um táknmálstúlka þjónustu á Íslandi og í heimildarvinnslunni rakst ég óvænt á bókarkafla um ofbeldi gagnvart heyrnarlausum í gamla Heyrnleysingjaskólanum. Efni kaflans var alls ótengt viðfangsefni ritgerðarinnar en mér þótti hann það áhugaverður að ég ákvað að glugga aðeins í textann.

Þar kom fram að þónokkur mál vegna ofbeldis í garð nemenda skólans hefðu komið upp og stóð meðal annars svart á hvítu að meirihluti gerenda hafi verið heyrnarlausir sjálfir.

Þarna kom ég alveg af fjöllum því fram til þessa hafði ég einhvern veginn gengið út frá því að gerendurnir hefðu verið í þeirri yfirburðar stöðu að vera ófatlaðir og því brá mér að lesa kaflann. Það vildi greinilega enginn minnast á þann möguleika að gerandinn gæti líka verið fatlaður. Það er víst tabú.


Þegar ég rak augun í þennan umrædda bókarkafla rifjaðist upp fyrir mér saga sem mér var sögð af heyrnarlausum kennara í grunnskóla. Við höfðum verið að læra um hvað nauðgun væri og kennarinn minntist þá á það að tvær heyrnarlausar konur hefðu stigið fram og sakað heyrnarlausan mann um nauðgun. Málið var fellt niður en ég man vel hvað kennarin sagði um það mál: ,,Aumingja maðurinn, þær eyðilögðu mannorð hans.“

Ég var kannski of ung til að skilja þetta þá, en þegar ég hugsa til baka átta ég mig á því að þarna hafi kennarinn verið að drusluskamma þolendurna.

Drusluskömm gengur greinilega þvert á hópa og samfélög. Í kjölfar þess að ég fór að skoða málið betur áttaði ég mig á öðru sem hafði farið framhjá mér. Á þeim viðburðum sem ég hef sótt þar sem fatlað fólk mætir, svo sem ráðstefnur og sumarbúðir, hef ég aldrei verið upplýst um neinar viðbragðsáætlanir vegna kynferðisáreitni og ofbeldis. Þar er þó mikið sagt enda hef ég sótt fjölda slíkra viðburða í gegnum tíðina. Það þykir oftast ástæða til að útskýra ítarlega brunavarnir á staðnum en svo er varla minnst einu orði á ofbeldi, jafnvel þótt tugir manns sæki viðburðinn. Kannski dettur skipuleggjendum viðburðana ekki í hug að slík mál gætu komið upp, eða þá að kynferðisofbeldi er einfaldlega tabú innan jaðarsetta hópsins. Þetta rann upp fyrir mér þegar að ég mundi eftir ráðstefnu sem ég sótti nýlega, þar sem slík mál komu upp. Engin viðbragðsáætlun var til staðar og gerandinn fékk því að ganga laus allan tímann sem viðburðurinn stóð yfir og áreita fleiri konur. Þetta fannst mér stórfurðulegt, enda samanstóðu ráðstefnugestir af afar fjölbreyttu fólki og sumir voru sérlega viðkvæmir.

Eftir þessa óþægilegu reynslu einsetti ég mér að vera vakandi fyrir verklagi vegna kynferðisbrotamála á öllum þeim viðburðum sem ég sæki, enda hefði það vel geta verið ég sem lenti í ofbeldinu á fyrrnefndri ráðstefnu.

Það skiptir nefnilega engu máli um hvers lags viðburð er að ræða eða hverjir eiga í hlut, ofbeldi getur átt sér stað hvar og hvenær sem er og gerendurnir eru allskonar.

Við þurfum að fara að tala um fjölbreytni gerenda. Það að gerandi sé fatlaður réttlætir ekki neitt og á ekki að vera tabú.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
,,Það þýðir ekkert að berjast fyrir jafnrétti ef allir fá síðan ekki að vera með”

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Er hægt að aðskilja list frá listamanni?

næsta grein
nafnlaust ljóð


Lesa meira um...

Gerendur eru allskonar