14. október 2020

Verandi íslensk kona sem á ættir að rekja til Egyptalands hef ég fylgst með viðhorfum samfélagsins og fordómum gegn Mið-Austurlöndum í gegnum tíðina. Fyrst voru viðhorfin meira eins og forvitni, innblásin af Aladdin um úlfalda og eyðimerkur. Töfrandi og einfaldur orientalismi sem gerir manneskjur að sögupersónum. Viðhorfin urðu ívið neikvæðari eftir 11. september 2001 og hafa raun stigmagnast síðan.

Fullyrðingar um frumstæðar, menningarsnauðar þjóðir eða þjóðir með slæma menningu.

Hryðjuverk, stríð og fólk sem er ósamræmanlegt okkar samfélögum. Ég hef þurft að svara fyrir neikvæðar staðalímyndir um mið-austurlenskar konur því staðalímyndum um þær hefur verið varpað á mig. „En eru konurnar samt ekki kúgaðar?“, „Ó, þarft þú þá ekki að vera með slæðu þegar þú ferð þangað?“, „Mega konur nokkuð keyra þarna?“ o.s.frv. Leiðandi spurningar sem eru til þess fallnar að staðfesta fordóma spyrjandans.

Á Vesturlöndum hafa Mið-Austurlönd og íslam orðið að ákveðnum samnefnara í hugum fólks og það býst við ákveðnu útliti, tungumáli og klæðnaði. Staðalímyndirnar sem fylgja eru yfirleitt neikvæðar og þeim er viðhaldið af fjölmiðlum og í dægurmenningu. Íslamófóbíu má finna í efni sem almenningur birtir á netinu, í athugasemdakerfum fjölmiðla þar sem hatursfull ummæli eru látin standa óáreitt, en hún birtist einnig í fréttum, stjórnmálum og orðum fólks í ábyrgðastöðum. Oft er gert lítið úr hatursfullu athugasemdunum og dregið úr alvarleika þeirra ásamt því að menningareinkenni Mið-Austurlanda eru notuð í háði sem táknmynd illsku eða vanþróunar. Staðalímyndin þurrkar út fjölbreytni menningareinkenna og skrumskæling af klæðnaði fólks verður að búningum sem leika má með. Aftur á móti, þegar fólk sem tilheyrir menningunni hampar henni vekur það oft hörð viðbrögð samfélagsins. Þá er það óæskilegt.

Íslamófóbía getur einnig birst í formi öráreitni (e. micro aggression) og neikvæðar staðalímyndir um múslima hafa áhrif á hegðun fólks gagnvart þeim sem það telur að séu múslimar, eða frá Mið-Austurlöndum. 

Mið-Austurlönd í hinum algengasta skilningi samfélagsins okkar er svæði sem spannar vesturodda Norður-Afríku til Suðaustur-Asíu, frá Marokkó til Pakistan. Ímyndið ykkur þetta svæði í augnablik. Flettið því jafnvel upp á landakorti. Þetta er heljarstórt svæði, u.þ.b. 30 lönd. Öll Evrópa telur 44 lönd en flestir myndu kannast við að það væri menningarlegur munur á Finnlandi og Spáni til dæmis, en einhvern veginn verða Mið-Austurlönd í hugum fólks alltaf bara einn pakki. Einn pakki þar sem samnefnarinn eru gjarnan trúarbrögð og enginn áttar sig á fjölbreytileika landanna. Á sama tíma gleymast einnig allar þær uppgötvanir sem þetta margslungna landsvæði hefur fært framþróun heimsins í gegnum tíðina. Mið-Austurlönd. Framandi, óæðri, ósamræmanleg.


Staðalímyndir gera heldur ekki greinarmun á lífi fólks. Afleiðingin er sú að margir setja mið-austurlenskar konur, eða konur sem eru múslimar, undir sama hatt og halda að þær séu allar eins. Staðhæfingar um stöðu kvennanna, kúgun þeirra eða vangetu þeirra til að aðlagast vestrænum samfélögum er varpað fram, og þá sérstaklega í tengslum við trúnna. Þær birtast í allri umfjöllun og dægurmenningu sem kúgaðar konur sem búa í samfélögum eða samlífi við ofbeldisfulla mið-austurlenska karlmenn. Afskipti Vesturlanda af málefnum Mið-Austurlanda hafa meira að segja litast af því að bjarga þurfi þessum konum frá þessum mönnum. Slíkt mátti til dæmis sjá í orðanotkun Bandaríkjastjórnar þegar innrásin í Afganistan var rökstudd. Í augum Vesturlandabúa eru þær ósjálfbjarga, mállausar og ófærar um að ráða sínum eigin örlögum – konur í hættu sem þarf að bjarga. 

Ein öfugsnúnasta birtingarmynd umfjöllunar um mið-austurlenskar konur er umræðan um íslamskan klæðnað, sérstaklega höfuðslæðuna, á Vesturlöndum.

Frelsi kvennanna til að klæðast því sem þær kjósa sjálfar hefur á ýmsum stöðum verið tekið af þeim – í nafni þess að veita þeim frelsi. Frelsið getur orðið þeim hindrun, þar sem boð og bönn eru sett á klæðnaðinn á opinberum stöðum og hindrar tækifæri þeirra til þátttöku í samfélaginu. Þessi barátta gegn slæðunni er oft sett í búning femínisma en eins og fræðikonan Lila Abu-Lughod bendir á, þá getur sá femínismi sem reynir að veita konum frelsi með því að taka það af þeim ekki kallast femínismi. 

Í Mið-Austurlöndum berjast femínistar fyrir grundvallarréttindum kvenna, gegn feðraveldinu og fyrir bættum samfélögum. Gegn stríði og fyrir afvopnun og friði. Sumar berjast gegn kynbundnu ofbeldi, aðrar réttindum kvenna á vinnumarkaði, aðrar fyrir LGBTQIA+ málefnum svo fátt eitt sé nefnt. Á síðustu misserum hef ég til dæmis séð vakna í Egyptalandi áköll og netherferðir gegn kynferðislegri áreitni og vitundarvakningu um stéttamismunun sem konur upplifa. Mið-austurlenskir femínistar hafa ýmislegt á sinni könnu og hafa metnað fyrir ýmsum hliðum femínisma – alveg eins og kynsystur þeirra annars staðar. Nema – sjaldan berjast þær þó fyrir afnámi slæðunnar. Í þeim löndum þar sem allar konur eru þvingaðar til að klæðast henni berjast þær fyrir rétti kvenna til að velja. Alveg eins og þær vilja á Vesturlöndum. Val til að ákveða sjálfar hvernig þær klæðast


Í raun er undarlegt að tala um mið-austurlenskar konur, eða konur sem eru múslimar, sem eina heild eins og svo oft er gert. Fjölbreytileiki þeirra er svo feiknamikill. Mið-austurlenskar konur geta líka verið t.d. kristnar, gyðingar, jasídar eða trúlausar og konur sem eru múslimar eru líka íslenskar, malasískar og eþíópískar. Vandamálið er að þegar talað er um þennan fjölbreytta hóp sem einsleitan, hættir okkur til að hlusta ekki á þær og áætla þarfir þeirra út frá neikvæðu staðalímyndunum. Þetta er ástæðan fyrir mikilvægi femínisma fyrir allar konur (e. intersectional feminism), ekki bara femínisma fyrir konur í sömu stöðu og maður sjálfur. Ekki má gleyma að konur um allan heim eru fjölbreyttar og lausnir sem virka fyrir sumar virka ekki endilega fyrir aðrar. Stéttaskipting, kynhneigð, húðlitur og trú getur allt spilað inn í stöðu kvenna.

Mið-austurlensk menning er ekki einsleit, hún er margbreytileg samsuða mismunandi trúar- og menningaráhrifa af árþúsundalangri sögu gífurlega stórs landsvæðis.

Þegar þessi menningarheimur er tekinn og einfaldaður og sífellt settur fram sem táknmynd einhvers ógnvænlegs er auðvelt að verða hræddur við hann. Við það fer fólk að óttast einstaklinga sem tilheyra, tengja við eða eiga uppruna sinn í þessum menningarheim. Ótti leiðir af sér fordóma og tortryggni sem bitna á einstaklingum úti í samfélaginu. Þeir verða jaðarsettir vegna nafna, tungumáls, útlits eða menningareinkenna og jaðarsetningin getur af sér enn meiri vanlíðan og vangetu til þátttöku í samfélaginu. Við það skapast vítahringur sem þarf að brjóta. Femínismi er eitt sterkasta tólið sem við konur höfum til að brjóta þennan vítahring en til þess að það sé hægt þarf femínisminn að vera fyrir alla – og því er náð þegar hlustað er á raddir allra kvenna og þeim gefið pláss.

























— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
COVID-19: Veiran og samfélagsstaða

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Af femínisma í Mið-Austurlöndum og orientalisma

næsta grein
Af femínisma í Mið-Austurlöndum og orientalisma


Lesa meira um...

Alþjóðlegur femínismi: Femínismi fyrir öll, líka Mið-Austurlenskar konur