14. október 2020
texti og myndir:
Gunnhildur Þórðardóttir
gunnhildurtho@gmail.com

Viðtal við listakonuna Paula Duvå og sýningarstjórann Ida Schyum um sýninguna OPGØR í Charlottenborg, Kaupmannahöfn, ágúst 2020.

Kynjahallinn í listaheiminum hefur verið í brennidepli svo áratugum skiptir en tölfræðin sýnir fram á að lítil framvinda hefur orðið í að rétta hann við. Þrátt fyrir að flestir geri sér grein fyrir vandamálinu er það mun stærra en flestir átta sig á. Hin árlega alþjóðlega skýrsla um listamarkaðinn árið 2019 á vegum Art Basel og UBS undirstrikar þessa staðreynd með sláandi tölum.1 Þó að skýrslan sé alþjóðleg er staðan í Danmörku ekki skömminni skárri.2 Samkvæmt könnun á vegum Sambands danskra safna voru sýningar á vegum listakvenna ekki nema 29% af öllum einkasýningum á galleríum frá árunum 2004-2019 og rétt um þriðjungur af hópsýningum. Aðeins um 22% af keyptri list danskra listasafna voru verk eftir ekki-karlkyns listamenn.3

Aðspurð, sagði listakonan Paula Duvå þessar tölur ekki koma sér á óvart. Paula hefur bent á að það sé rof á milli listaháskólanna og listamarkaðarins. Af þeim sökum hefur hana lengi langað til þess að sýna verk þeirra samnemenda sinna við danska konunglega listaháskólans sem skilgreina sig ekki sem karla.

Þegar að CHART art fair tilkynnti að þau myndu einungis sýna listakonur á hátíð sinni í ár sló hún því til og setti upp sýninguna OPGØR í samvinnu við sýningarstjórannn Ida Schyum og þá samnemendur sína sem hafa minni tækifæri á sýningum eftir útskrift. Samkvæmt Paula er vandamálið nefnilega ekki einungis fólgið í listamarkaðinum heldur á það rætur sínar að rekja til sjálfra listaháskólanna. Henni finnst ekki nóg að fjalla lauslega um þetta vandamál á einni listahátíð heldur sé þörf á mun róttækari aðgerðum. 

Kynjahlutfall listnema í listaháskólum hefur verið frekar jafnt seinustu áratugina, en þrátt fyrir það hefur listafólk sem skilgreinir sig ekki sem karla mun minni möguleika á að verk þeirra verði keypt eða sýnd eftir útskrift. Inntökuferli í listnám byggir oftast að hluta til á dómi á nafnlausum verkum, og þar af leiðandi er hægt að færa rök fyrir því að umsækjendur standi jafnar að vígi í því ferli en því sem á eftir kemur. Staðhæfingar þess efnis að karlkyns listamenn séu hreinlega betri og duglegri en aðrir kollegar þeirra fellur því um sjálft sig. Samkvæmt Paula ríkja kynjaðir fordómar innan listaheimsins sem orsaka þessa skekkju, og rót þess vanda liggur bæði í feðraveldinu og kapítalismanum.  

Paula lagðist í það verkefni að gera sjálfbæra sýningu fyrir samnemendur sína sem skilgreina sig ekki sem karlkyns. Sýningunni var einnig ætlað að skjalfesta listaverkin sem á henni birtust og þar af leiðandi  greiða fyrir möguleikann á því að verkin myndu lifa að sýningu lokinni. Hún nefnir að líklegast munu margt af listafólki sýningarinnar hafa litla sem enga möguleika á að sýna list sína aftur, að minnsta kosti ekki samkvæmt tölfræðinni. Því var það mikilvægt þeim sem að sýningunni komu að geta varðveitt sönnun á tilvist listaverkanna.

Ida Schyum, sýningarstjóra OPGØR, fannst brýnt að leggja áherslu á að sýningin gæti nýst sem stökkpallur fyrir listafólk sem annars hefði minni líkur á að ná til bæði listaheimsins og almennings. Ida vildi þess vegna ekki stýra of miklu við valið á verkunum, hvorki með því að hafa ákveðið þema á sýningunni eða að panta ákveðin verk frá listafólkinu. Hún vildi heldur leyfa listafólkinu sjálfu að sýna sína hefðbundnu listsköpun og þau gæði sem verk þeirra búa yfir.

Sýningarstjórnunin fólst því aðallega í textagerð fyrir sýninguna og að skapa rauðan þráð í upplifun gesta af verkum sýningarinnar. Þáttakendum sýningarinnar var það hjartans mál að kastljósið beindist ekki einungis að kynjahallanum, heldur hafa samtvinnun (e.intersectionality) að leiðarljósi á hinum ýmsu mismunabreytum sem einkenna listafólk sýningarinnar, eins og kynhneigð, fötlun eða ólíkum bakgrunn og uppruna þess.

[Tilda Lundbohm, “And if I die at least I die” (2019)]

[Tilda Lundbohm, “And if I die at least I die” (2019)]


[Xara Vogelius, WE GREW UP TOGETHER (2020)]


Paula og Ida eru sammála um að það sé ómögulegt að umbreyta listaheiminum með einni sýningu heldur verði að líta á kynjahallann (og aðrar breytur) sem stöðuga baráttu. Liður í þeirri baráttu var einmitt að skjalfesta sýninguna og þannig lengja líftíma verkanna. Þetta var gert í formi Instagramaðgangs (opgoer) þar sem listaverk sýningarinnar og listafólkið eru kynnt.

Paula og Ida nota aðganginn bæði til að opna augu sýningastjóra safna og gallería fyrir ekki-karlkyns listafólki og verkum þess og einnig sem innblástur fyrir aðra listaháskóla sem geta haldið áfram þessari umræðu.

Þær vilja einnig notfæra sér aðganginn sem gagnvirkan vettvang þar sem listafólk með annað kyngervi eða kynvitund en karlkyns geti komið sér og sinni list á framfæri. 

Sýningin hlaut afar góðar viðtökur og langar raðir mynduðust við opnunina. Það er greinilegt að hún átti erindi við fólk og sannar að listamarkaðurinn endurspeglar ekki alltaf viðhorf fólks til listarinnar. Það er þörf og áhugi á því að sjá list eftir aðra en karlkyns listamenn. Samkvæmt Ida hefur OPGØR nú þegar skipt sköpum fyrir nokkuð af listafólkinu sem var hluti af sýningunni. Verk af sýningunni verða nú til að mynda sýnd á öðrum sýningum í Danmörku og einnig var verk, sem þótti ólíklegt til kaupa, keypt af listaverkasafnara. Þar af leiðandi er eftirlíf verkanna tryggt. 

[Anne Holm, INFO-INFINITY (2020)]

[Ellinor Åslund, The Ting Tang Jahe – one of the hottest products for the next century (2019)]


Ida segir það lýsandi fyrir listaheiminn að það var kvenkyns listaverkasafnari sem keypti verkið. Hún segir að hluti af þeim kerfislæga vanda sem liggi í kynjahalla listaheimsins sé fólkið sem kaupi listaverkin. Um 98% af öllum seldum verkum í heiminum eru eftir karla, af því leiðir að undir 2% af seldum listaverkum í heiminum eru eftir konur.4 Kaupendurnir eru einnig að stórum meirihluta karlmenn; að mestu leyti er því um að ræða karla sem selja karla til karla. Ida hefur sjálf langan feril að baki í galleríheimi Kaupmannahafnar og þar hefur hún sömu sögu að segja.  Kaupendur þeirrar listar sem hún seldi voru flestir ríkir karlmenn í valdamiklum stöðum sem höfðu efni á að safna listaverkum. Þeir voru mun líklegri til að kaupa verk eftir karlmenn, sérstaklega unga karlmenn. Ida segir þó að það sé ekki einungis við ríka karlmenn að sakast heldur sé þetta vandamál alls staðar innan listaheimsins. Bæði í einkagalleríum og á opinberum söfnum er mun meira keypt inn af list eftir karlmenn þrátt fyrir jafnt kynjahlutfall starfsmanna. 

Ida og Paula eru sammála um að það verði ekki auðvelt að leiðrétta kynjahallann í listaheiminum og engin ein lausn til í þeim málefnum.

Þær segja að það sé mikilvægt að muna að þetta er barátta sem mun taka langan tíma, þar sem öll verða að bera ábyrgð á að breytingar verði gerðar. Í þeirra augum eru alltof mörg sem reyna að færa ábyrgðina annað og loka augunum fyrir vandamálinu.

Tilgangur listarinnar er að sýna hið ótrúlega hugarflug mannflórunnar og ef einungis brotabrot af listafólki heimsins fær tækifæri á að sýna list sína munum við sem samfélag líða fyrir það. Þess vegna er mikilvægt að einblína ekki einvörðungu á kynjahallann í listaheiminum, heldur verður að líta til samtvinnunar (e. intersectionality). Það þarf ekki einungis að skapa rými fyrir kvenkyns listafólk heldur jafnframt fyrir öll sem eru undirokuð í samfélaginu okkar. Það er ef til vill hægt að byrja á því að nota tölfræði til að skoða aðrar breytur en karlkyn/kvenkyn innan listaheimsins. Enn hafa litlar sem engar rannsóknir verið gerðar á m.a. stöðu BIPOC, fatlaðra eða LGBTQ+ listafólks í Danmörku. Þær niðurstöður yrðu án efa enn meira sláandi. 

[Ellinor Åslund, The Ting Tang Jahe – one of the hottest products for the next century (2019)]



[Xara Vogelius, WE GREW UP TOGETHER (2020)]

[Anne Holm, INFO-INFINITY (2020)]


[Óþekkt]


[Videoverk: Sara Krøgholt Trier, “There will always be places for them to hide in the haunted house” (2020)
Skyrtur: Anne Sofie Skjold Møller, Evening Gradient (2020)
Mynd: Maja Liisberg Poulsen, “and if I often paint caves” (2018)]


[Pernille Nordentoft Tørslev, Vejle (2018)
Ida Raselli, Baldacchino (2019)
m.m.]


[Emilie Tarp Østensgård, She was taught the names but had forgotten the songs (2019)]


[Ba Bladh, Guinea Pig (2020)]


[T.v.: Sophia Luna Portra, Men Holding Babies (2020)
T.h.: Emilie Iman, to all our daughters, especially those we never met (2020) ]



— — —

1 The Art Market 2019, síður 114-137. Tekið skal fram að skýrslan rannsakar ekki aðrar tölfræðibreytur en karl- og kvenkyns listafólk. Því tekur höfundur þessarar greinar viðmið að því, en kallar eftir betri þverskurði af allri þeirri margbreytni sem ríkir í samfélaginu. Að greina eingöngu út frá karl- og kvenkyni gefur ekki nægilega góða mynd af þeim vanda sem blasir við listaheiminum vegna skorts á sýnileika og tækifærum fyrir minnihlutahópa. Sótt af artbasel.com þann 23. september 2020.

2 Það er jafnvel hægt að færa rök fyrir því að alþjóðlega er hún verri en meðaltal út frá þónokkrum breytum (t.d. eru konur 36% einkasýninga listamanna á heimsvísu árið 2018 en aðeins 29% í Danmörku). Sjá The Art Market, s. 97.) Af öllum heimshlutum standa Afríka og Vestur-Asía best með 30% af sýndu listafólki í galleríum voru kvenkyns, en Evrópa er í 4. sæti á eftir Norður-Ameríku og Eyjaálfu með 25% sýndra listamanna af kvenkyni. (The Art Market 2019, 121.)

3 Af heimasíðu Chart Art Fair, tekið þann 15. september 2020.

4 Tekið af Artnet þann 15. september 2020.



— — —

Höfundur er cand.mag. í listasögu frá Kaupmannahafnarháskóla og starfar sem myndlista- og enskukennari.  













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Frostþurrkað skyr minnkar matarsóun

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Er hægt að aðskilja list frá listamanni?

næsta grein
Heimilisleysi er kynheilbrigðismál


Lesa meira um...

Uppgjör við kynjahalla listaheimsins