Andrými – sjálfskipulagt og andkapítalískt félagsrými

18. júní 2021

Höfundur:
Andrými
Vefsíða

   
Myndahöfundur:
Alexandra Dögg Steinþórsdóttir
uppskera-listamarkadur.is/collections/alex-steinthorsdottir
@alexsteinthorsdottir
www.alexsteinthorsdottir.com


Andrými er róttækt félagsrými á Bergþórugötu 20 í Reykjavík. Við fengum aktívistann Elínborgu Hörpu til að svara nokkrum spurningum um upphaf, starfsemi og skipulag Andrýmis.

Hvað er Andrými og fyrir hvað stendur það?

Það getur verið erfitt að útskýra nákvæmlega hvað Andrými er og fólk sem mætir í Andrými eru mörg hver með mismunandi hugmyndir um hvað Andrými er og fyrir hvað það stendur fyrst og fremst. Þó kannski óhætt að segja að Andrými sé þrennt: húsnæði, hugmynd(afræði) og samfélag.

Húsnæðið Andrými er hugsað sem rými fyrir grasrótarhópa, einstaklinga og frjáls félagasamtök til að funda og halda viðburði án þess að þurfa hafa áhyggjur af því að greiða fyrir notkun á rýminu. 

Hugmyndafræði Andrýmis er anarkísk og byggist á sjálfskipulagningu og sjálfræði. Auk þess liggja nokkur grunngildi fyrir sem allt starf í Andrými grundvallast á að meira eða minna leyti. Gildin eru  samhjálp, samstaða, náttúruvernd, andkapítalismi, gagnrýnin hugsun og andstaða við hverskonar yfirráð og -völd. 

Síðast en ekki síst er hægt að tala um samfélagið Andrými, sem er í raun allur sá hópur sem nýtir Andrými fyrir skipulagningu og leggur þar af leiðandi sitt af mörkum til að viðhalda rýminu. Andrými er nefnilega ekki einhver einn hópur eða ein félagasamtök, heldur er það samansafn ýmissa hópa og einstaklinga sem deila að einhverju ástríðu fyrir valdeflandi baráttu gegn hvers kyns kúgun og fyrir auknu frelsi og samfélagslegu réttlæti. 

Í stuttu máli má segja að Andrými sé sjálfskipulagt, róttækt félagsrými fyrir grasrótarhópa og einstaklinga til að hittast og skipuleggja baráttu sína og starfsemi.

Hvenær var Andrými stofnað og í hvaða tilgangi?

Andrými var stofnað í ársbyrjun 2016 með það að markmiði að búa til grasrótarrými í Reykjavík sem samtök, hópar og einstaklingar gætu notað án endurgjalds og haft auðveldan aðgang að. Einnig var hugmyndin að koma á laggirnar rými þar sem fólk getur verið án þess að þurfa að greiða fyrir það, en lítið er um slíka staða í Reykjavík. Til að byrja með var Andrými í bakhúsi við Klapparstíg, síðar á annari hæð í Iðnó og svo hefur það verið á Bergþórugötu 20 síðan 2018.

Hvers konar starfsemi fer fram hjá ykkur og hvernig haldið þið verkefninu gangandi?

Það sem fer fram í Andrými breytist eftir því hvaða hópar og einstaklingar eru virk hverju sinni. Í Andrými hafa verið haldin mörg eldhús fólksins, ókeypis matarmarkaður, leshringir, fyrirlestrar, kvikmyndasýningar, fundir ýmissa félagasamtaka, tónleikar, leiklistarsmiðjur, sjálfsvarnarnámskeið, hjólaviðgerðasmiðja, ljósmyndasmiðja og svo mætti lengi telja. Einnig er hópur sem hefur tekið að sér að hafa opið hús 2-3 í viku. Þá getur fólk mætt og fengið sér kaffisopa, tekið út bók úr Andspyrnu, bókasafni anarkista, fundið eitthvað nytsamlegt í fríbúðinni eða nýtt sér aðra aðstöðu sem er í boði í húsinu á við verkstæði, þvottavél eða prentara.

Það er erfitt að segja til um það hvað það er sem heldur Andrými gangandi. Líklega er það bara löngun og þörf fólks til að taka þátt í og skapa rými sem tilheyrir þeim sjálfum um leið og það ögrar viðteknum hugmyndum um eignarhald, stigveldi og markaðsvæðingu í heiminum. Þörfin til að skapa andrými og veita mótspyrnu í heimi þar sem er sífellt verið að reyna að gera okkur að enn einu tannhjólinu í eyðileggjandi alræðisvél.

Þið segið á vefsíðunni að verkefnið sé self organising, hvernig lýsir það sér í starfseminni?

Self-organising, eða sjálf-skipulagning eins og það hefur stundum verið þýtt á íslensku er pólitískt hugtak sem á rætur í anarkískri hugsun og praxis. Þegar við tölum um sjálf-skipulagningu erum við að vísa til fyrirbæris sem birtist hvarvetna þar sem fólk hefur fengið nóg af þeim aðstæðum sem það býr við og misst trúnna á kjörnum fulltrúum sem eiga bókinni samkvæmt að passa upp á hagsmuni þeirra. Sjálf-skipulagning er þegar þetta fólk segir „nú er nóg komið af kjaftæði“ og ákveður að taka málin í eigin hendur. Í sjálfs-skipulögðum hópum neitar fólk að treysta á stjórnmálaflokka, stéttarfélög eða hverslags annarskonar fulltrúamiðuð samtök sem segjast vera í fyrirsvari fyrir jaðarsetta hópa og kveðast breyta í þeirra nafni. Sjálf-skipulagnign snýst í raun um sjálf-stjórn (kannski er  sjálfræði nákvæmara hugtak). Það sem skilgreinir sálf-skipulagningu fyrst og fremst er algjör höfnun á öllu sem felur í sér fulltrúa.

Þó er fleira sem einkennir sjálf-skipulagningu: sjálf-skipulagning reynir eftir fremsta megni að vera laus við stigskiptingu; það eru engir kjörnir leiðtogar eða formlegir valdaaðiliar. Sjálfs-skipulagningin byggist á láréttum samskiptum og samböndum, þ.e.a.s. samskiptum og samböndum sem byggjast á raunverulegum jafnræðisgrundvelli; enginn er í hærri stöðu en annar. Sjálf-skipulagning felur í sér að fólk ræðir saman um vandamálin sem þau þurfa að takast á við í lífi sínu og reyna í sameiningu að finna lausnir á þeim með gagnkvæmum samskiptum um langanir sínar og þarfir. 

Sjálf-skipulagning er leið fyrir einstaklinginn til þess að skipuleggja baráttu sína gegn þeim aðstæðum sem samfélagið hefur þröngvað háni í og þeim öflum sem reyna að halda háni frá því að breyta þeim aðstæðum. Þessi barátta er háð á háns eigin forsendum og eftir þeim leiðum sem hán telur að þurfi til. Þær leiðir fela yfirleitt alltaf í sér annað fólk og þar af leiðandi verður sjálf-skipulagning félagsleg. Það sem verður þó alltaf að hafa í huga er mikilvægi hvers og eins einstaklings, sjálfsvirði hvers einstaklings. Öll sambönd verða að þróast á gagnkvæmri virðingu og sameiginlegum þáttum í baráttu og þörfum mismunandi einstaklinga. Þau vinna saman vegna þess að draumar þeirra og þrár eru svipaðar. 

Til að reyna að draga þessa langloku saman þá er sjálf-skipulagning fyrst og fremst ákveðin leið til að framkvæma ýmis verkefni og aðgerðir sem snúa að baráttu mismunandi einstaklinga sem oftar en ekki deila ákveðnum samfélagslegum aðstæðum. Þessar aðgerðir eru framkvæmdar án þess að sett séu upp formleg samtök sem eru í fyrirsvari fyrir hitt eða þetta. 

Í Andrými lýsir sjálf-skipulagningin sér best í mánaðarlegu allsherjarfundunum þar sem öll sem nota rýmið er boðið að koma á fund til að ræða saman um möguleg vandamál eða samskiptavanda sem hafa komið upp á milli einstaklinga eða hópa, skipuleggja hvað þarf að gera til að viðhalda húsnæðinu, tilkynna um viðburði eða verkefni sem eiga sér stað í rýminu og margt fleira. 

Hvernig hefur maður samband við ykkur og hvernig tekur maður þátt?

Í anda sjálf-skipulagningar er erfitt að skikka fólki í verkefni eða beina því eitthvert til að „taka þátt“, þar sem Andrými samanstendur af einstaklingum og hópum sem vinna að mörgum og mismunandi markmiðum. Einstaklingar verða í raun að finna hjá sjálfum sér hvar þeirra áhug liggur og hvað þau langar að skipuleggja. Ef að áhuginn snýr hreinlega að því að viðhalda róttæku félagsrými í Reykjavík þá er alltaf hægt að senda tölvupóst á andrymi@riseup.net eða bara mæta á mánarlegan allsherjarfund sem er haldinn fyrsta sunnudags hvers mánaðar. 


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Femínísk fjármál: Fólk er innviðir