Aðgengi og verðmætasköpun fyrir samfélagið – TravAble
26. maí 2021

Ósk Sigurðardóttir er framkvæmdarstýra og stofnandi TravAble ásamt því að vera framkvæmdarstýra Sjálfsbjargar – Landssambands hreyfihamlaðra. TravAble er smáforrit eða app sem veitir hreyfihömluðu fólki upplýsingar um aðgengi að fyrirtækjum, stofnunum og afþreyingu. Upplýsingarnar um aðgengi koma frá notendum appsins og eru í formi endurgjafa um aðgengi hvers og eins staðar.

Ósk segir hugmyndina að baki TravAble í rauninni eiga sér langt upphaf en frá því að hún var unglingur hafi hún alltaf tekið eftir því að það væri ekki aðgengi fyrir öll alls staðar og það kom henni á óvart  að umhverfið okkar útilokaði hluta fólks frá því að taka þátt í þjóðfélaginu. Það var hins vegar ekki fyrr en hún fór í MPM meistaranám í verkefnastjórnun í Háskólanum í Reykjavík sem hún fær tækifæri til að þróa hugmynd sem tengist þessum hugleiðingum hennar, og hún og hópurinn hennar í einum kúrsinum skrifa saman verkefni sem verður grunnurinn að TravAble appinu. 

Þrátt fyrir að verkefnið hafi að kúrsinum loknum endað ofan í skúffu, líkt og mörg önnur skólaverkefni þá blundaði ástríða Óskar fyrir verkefninu alltaf í henni. Nokkru seinna, þegar hún fékk tölvupóst um NILC-Nordic Independent Living Challenge, bað hún hópinn sinn að taka þátt með sér í keppninni og tvö þeirra slógu til og komust að í eins konar hraðli þar sem þau fengu leiðsögn varðandi næstu skref fyrirtækisins. Þar lentu þau í undanúrslitum og fengu þannig staðfestingu á því að virkileg þörf væri á hugmyndinni þeirra.

Þegar hraðlinum lauk stóðu þau uppi með mikið af efni sem var tilvalið í styrktarumsóknir og ákváðu að stofna fyrirtækið formlega og byrja að sækja um styrki. Þannig varð TravAble fyrsta samfélagslega sprotafyrirtækið til að hljóta úthlutun frá fyrirtækjastyrk RannÍs, Sprota. 

„Það var mikill sigur að fá styrk til fyrirtækis sem var í grunnin samfélagslegt frumkvöðlafyrirtæki, fyrirtæki sem setti lausn ákveðinnar samfélagslegrar áskorunnar framar arði til hluthafa. Við vildum leysa þessa áskorun sem við töldum að hvorki fyrirtæki, hið opinbera né þriðji geirinn hafði leyst.“

Vandamálið sem TravAble vildi leysa var í rauninni það að eiga þátt í að fjarlægja einhverjar af þeim hindrunum sem samfélagið setur í veg fyrir hreyfihamlað fólk. Þeim fannst vanta miðlægan og aðgengilegan gagnagrunn sem gerði fólki auðveldara fyrir að finna og leita að aðgengi bygginga og fjarlægði að miklu, eða öllu leyti, þann aðgengiskvíða sem hreyfihamlað fólk finnur oft fyrir þegar það fer á nýja staði. 

„Oft þarf fólk að leita vítt og dreift eftir upplýsingunum, þú veist fólk er að hringja í fyrirtæki og veitingastaði áður en það mætir á staðinn, reynir að skoða myndir, ef til vill sendir það einhvern á staðinn til að komast að því hvort það komist pottþétt inn. Þannig það er rosaleg vinna sem fer í það að komast að því hvort þú komist inn á einhvern stað.“ 

Aðgengi og verðmætasköpun fyrir samfélagið - TravAble

Það sköpuðust miklar rökræður um hvaða upplýsingar ætti að hafa í appinu og til að fínpússa þær var ráðist í að skapa samstarf við fólk sem stendur fyrir notendahópinn, fatlað fólk. Gerðar voru úttektir í samstarfi við rýnihópinn sem var settur saman.

Ósk segir að samstarf við fatlað fólk, markhóp appsins hafi skipt höfuðmáli í þessari mótunarvinnu og vísar með tilliti til þess í kjörorð Öryrkjabandalagsins „Ekkert um okkur án okkar“. 

„Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að það séu ekki við hin, sem erum ekki hreyfihömluð séum að þykjast vita best hvað er fötluðu fólki fyrir bestu, það bara gengur ekki þannig. Við erum í rauninni að reyna að nálgast þetta út frá þörfum þeirra sem eru hreyfihömluð, að sýna það sem skiptir þau máli og að þetta sé auðvelt og meðfærilegt.“

Frá því að TravAble var stofnað hefur orðið mikil vitundarvakning í aðgengismálum og í dag er TravAble með skráningar um allt land og þar að auki í um það bil 35 löndum um allan heim. Samningar hafa verið gerðir við Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjörð og nú síðast við Árborg, það hefur verið stofnað til samstarfs við Alþjóðlega iðjuþjálfafélagið, Evrópufélagið og Public Health Europe.

Samstarfið snýst að mestu um það að taka út byggingar og stofnanir fyrir bæjarfélög, að kenna á appið og að kynna það sérstaklega fyrir iðjuþjálfurum, sjúkraþjálfum og fleirum. Það er gert til að þjálfa fólk upp í að skrá, þannig að það skrái réttar upplýsingar. Þau kenna svo því fólki sem er í meðferð hjá þeim hvernig á að nota appið og svo framvegis. Þar að auki hafa þau verið í frábæru samstarfi við Hitt Húsið, þar sem hópur fatlaðra ungmenna hafa fengið sumarvinnu síðustu fjögur sumur, við að skrá inn í appið upplýsingar. Þetta hefur reynst mjög vel og þau hafa skemmt sér vel við þetta.

Með sköpun appsins, og öðrum verkefnum sem gera aðgengi og upplýsingar um aðgengi betri, er vonin sú að fatlað fólk á Íslandi verði mun sýnilegra en áður.

Fatlað fólk er mun stærri hópur en flest átta sig á, en samkvæmt rannsókn sem ráðist var í á vegum TravAble er fjöldi þeirra sem notast við hjólastól á öllum Norðurlöndunum árið 2017 um það bil 700-800.000. Ofan á þann hóp má gera ráð fyrir að gott aðgengi og aðgengisupplýsingar geti nýst fólki sem á erfitt með gang, öldruðu fólki, sem og aðstandendum allra þessara hópa. Þessir hópar eru þar að auki alltaf að verða stærri og kröfurnar sem sem við munum setja sem samfélag að verða hærri. Krafan um að alhliða hönnun sé í hávegum höfð í nútímabyggingum og aðgengi sé tryggt fyrir öll.

Þegar kemur að heilræðum fyrir aðra frumkvöðla segir Ósk að þátttaka í hröðlum og/eða námskeiðum sé lykilþáttur til að koma hugmynd af stað. Eftir að hafa tekið þátt í hraðli segir hún að mörg upplifi sig eins og þau séu svolítið bara ein með hugmyndina í fanginu og að þá skipti rosalega miklu máli að vera óhrædd við að hafa samband við fólk, að prófa sig áfram, fara á fundi, fá að kynna, setja saman góða lista af fólki sem þú ætlar að kynna vöruna þína fyrir og fara á alla mögulega fyrirlestra og ráðstefnur. 

Þar að auki nefnir hún að það skipti miklu máli að vanda vel til verka þegar kemur að styrkjaumsóknum, að skrifa góðan texta, vinna góða undirbúningsvinnu, og svo þarf að setja upp viðskiptalíkan, sem getur verið svolítið erfitt. Hugsa þarf út í það hvernig fyrirtækið eigi að afla tekna eða verði að minnsta kosti sjálfbært. Þrátt fyrir að verið sé að reka samfélagslegt frumkvöðlafyrirtæki þá þarf það alltaf að reka sig og það er ekki hægt að borga með fyrirtækinu í hverjum mánuði. Hvernig ætlaru að borga lénið, það þarf að borga endurskoðandanum, það þarf að borga hýsinguna á appinu, forritaranum þegar það koma upp einhverjir böggar og svo framvegis. Það skiptir líka miklu máli að einhver innan teymisins hafi virkilegt passion fyrir verkefninu, 

„þú kannski færð eitthvað frábært fólk inn með þér en það er ekkert endilega allir með sama baráttuhug fyrir fyrirtækinu eins og þú. Veldu gott fólk en þetta er samt svolítið þitt. Og maður þarf að standa með því og falla.“

Ósk leggur einnig mikla áherslu á uppbyggingu góðs teymis og segir: „En talandi um teymið þá auðvitað skiptir það miklu máli líka, ég er ekki sérfræðingur í forritun, ég veit ekkert um markaðsmál, ekki neitt, maður þarf að passa sig bæði að velja gott teymi sem ætlar að koma appinu af stað en svo er mikilvægt að fá fólk sem hefur þá þekkingu sem við urðum að fá. Þú gerir þetta ekkert ein. Í öllum umsóknum og þess háttar getur hugmyndin verið frábær, en ef þú ert bara einn og ætlar að gera allt einn þá færðu ekki styrkinn af því það vita öll að þú getur ekkert gert þetta einn. Þannig: teymið – fáðu frábært fólk með þér í lið í allt sem þú kannt ekki sjálf.“

Aðgengi og verðmætasköpun fyrir samfélagið - TravAble

Að lokum kom Ósk inn á muninn sem getur oft skapast á mili samfélagslegrar nýsköpunnar og hefðbundnari nýsköpunnar. „Það hefur ekkert verið rosalega mikill fókus á samfélagsleg fyrirtæki á Íslandi, þú þarft að sýna gróða á morgun og við vorum bara alls ekki þar.“ Það eru samfélagsstyrkir þarna úti, það eru Landsbankinn og Efla og Landsvirkjun og fleiri fleiri fyrirtæki en þar eru lægri styrkveitingar en hjá öðrum hefðbundnari sjóðum. Þetta eru oft ekki nema 250.000kr., og þú gerir voða lítið fyrir þann pening. Sjóðir sem veita hærri styrki borga einnig oft út á óhentugan hátt.

Ósk væri til í að fleiri fyrirtæki og stofnanir sem þurfa samfélagslegrar nýsköpunnar við styrktu betur við sprotafyrirtæki á því sviði og nefnir sem dæmi að Reykjavíkurborg gæti til dæmis stofnað til hraðals fyrir samfélagslega sprota og samfélagsleg fyrirtæki sem væru að leysa einhver vandamál sem borgin gæti ekki leyst sjálf.

Oft er verðmætasköpun nýrra fyrirtækja metin út frá fjárhagslegum gróða en verðmætasköpun TravAble er margs konar. Fyrirtækið er ekki rekið til gróða en aflar tekna með því að gera greiðslusamninga við sveitafélög og með samstarfi við önnur félög sem greiða fyrir þjónustu. Ósk nefnir að það virðist fylgja fólki sem starfar innan samfélagslegrar nýsköpunar að það eigi erfitt með að verðleggja sig. Ósk segir að þó þau telji sig ekki vera for profit þá verði samt að koma inn fjármagn.

En verðmætasköpunin er samt dýpri en svo að eiga aðeins við um sköpun starfa heldur er takmarkið með appi TravAble að reyna að auka félagslega virkni hreyfihamlaðra, fá þau til að fara meira út og draga úr einangruninni, mögulega þá samhliða því að draga úr félags- eða læknisþjónustu með því að fá fólk til að fara út og gera skemmtilega hluti, og síðan aukast þá umsvif í þjónustu og afþreyingu sem er í boði hjá hreyfihömluðum. Verðmætasköpunin skilar sér ekki aðeins til fyrirtækisins og eigenda þess, heldur er hún fyrir samfélagið allt, til þess að við öll getum verið hérna saman og tekið þátt í þessu daglega lífi.— — —Nýsköpun á jaðrinum í samstarfi við Nýsköpunarvikuna

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Borgaravísindi og samfélagsleg nýsköpun - CCP Games

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Forréttindapésar: Ekki biðja mig að vinna vinnuna þína

næsta grein
Hvernig skapar Össur líf án takmarkana?


Lesa meira um...

Aðgengi og verðmætasköpun fyrir samfélagið – TravAble