Mig langar að ræða það hvað staðalímyndir geta verið hættulegar. Í augum flestra er það venjan að sjá leikara í bíómyndum og þáttum, af ákveðnum húðlit, leika sömu týpuna síendurtekið. Sami orðaforðinn, sami hreimurinn og sömu taktarnir sem við tökum sem góðu og gildu án þess að hugsa okkur tvisvar um — og það setur ákveðið skotmark á bakið á okkur, lituðu fólki, þannig það er auðveldara að gera grín og niðurlægja okkur.
Þetta er orðið svo rótgróið í vestræna menningu að fólk áttar sig ekki á því hversu særandi þetta getur verið.
Sem jaðarsett manneskja úr minnihlutahópi umkringd fólki hlæjandi af „bröndurum“ á minn kostnað, aftur og aftur, lærði ég fljótt að þegja og pirra mig ekki — og alls ekki að sýna það hversu mikið ég tók það inn á mig þegar allir í kring voru í hláturskasti vegna fordómafullra brandara. Týpískur hugsunarháttur í slíkum aðstæðum, er að sannfæra sjálfa sig um að „þau séu bara að djóka, ekki taka þetta inn á þig“. Þú hættir að bera kennsl á hvað er djók og hvað er bara alls ekki fyndið.
Það að treysta sér ekki að standa upp fyrir sjálfri sér gagnvart grófum „bröndurum“ sem eru kynbundið ofbeldi og áreiti veldur því að hausinn á manni fer ómeðvitað í vörn og maður hlær með í gegnum árin — ógeðslegar athugasemdir eru flokkaðar sem léttir brandarar og við sem bregðumst við með öðru en hlátri erum flokkuð sem viðkvæm. Maður týnir því hvar strikið er, hvenær farið er yfir það og hvenær ekki.
Allir þessir brandarar eru alvarlegir og alls ekki í lagi — en það er stigsmunur á að segja „chingchong“ og það að „asískar stelpur eru með litlar og þröngar píkur“ en maður hættir að sjá það, sérstaklega sem unglingar þegar þetta er allt stimplað sem „létt grín“ og maður hvattur til að taka þessu ekki of alvarlega. Þess vegna geta staðalímyndir verið hættulegar.
Gerum þetta persónulegt og köfum dýpra!
Ég sá ekki muninn á því að krakkar í skólanum kölluðu mig chingchong, grjón, núðlu og svo framvegis, og á því að mér var haldið upp við vegg og krakkar reyndu að girða niður um mig og rifust um að fá að sjá píkuna mína til að sjá með eigin augum að ég væri ekki með typpi (út frá staðalímynd um tælenska „ladyboys“). Mig langaði að öskra en gerði ekki annað en að hlæja, nákvæmlega eins og af hinum „bröndurunum“.
Það tók mig fimm ár að átta mig á því hvernig mér leið, að þetta væri ekki eðlilegt og hvað mér leið ógeðslega illa. Fimm ár að uppgötva að brotið var á mér. Skynsemin mín flaug út um gluggann og mér var sagt hvernig ég átti að vera, hvað ég átti að gera, hvernig ég átti að haga mér og tala og ekki síst hvernig mér átti að líða. Það að ég hafi ekki áttað mig á þessu fyrr en 5 árum seinna er ekki í lagi og hefði ég átt að átta mig á því strax.
Tilfellin eru fleiri en ég er ekki tilbúin að opinbera þau strax, en það sem ég vil leggja áherslu á er að ÞETTA ER EKKI Í LAGI. Ef manneskja biður ykkur um að hætta, þá á maður að hætta. Ég er handviss um það að ef einhver hefði verið til staðar fyrir mig og staðið upp fyrir mér í stað þess að segja mér að hætta að vera svona viðkvæm, þá hefði ég vitað betur og það hefði verið hægt að koma í veg fyrir misnotkunina sem átti sér stað. Þetta er einmitt það sem ég vil koma í veg fyrir hjá næstu kynslóðum. Fyrir mig er það of seint, þetta er búið og gert, en nú er komið nóg.
Hættum að troða í hausinn á þeim að þau séu bara viðkvæm ef þau setja út á illa framkomu annarra og stöndum með hvert öðru. Við eigum að taka þessu alvarlega — því þetta er ekki fyndið.