13. ágúst 2020

On this day 7 years ago: 

“oh… godamnit… but bacon….”

Svona hljóðaði færslan sem ég skrifaði (á Facebook) fyrir ofan mynd af svíni og hundi árið 2013. Myndin spyr hvers vegna okkur þykir ásættanlegt að elska annað dýrið en slátra hinu.

Árið 2013 var ég að stíga mín fyrstu skref í átt að nýjum lífsstíl. Lífsstíl sem fólst í því að borða hvorki kjöt né fisk, og var mitt svar við nagandi sektarkennd í garð annarra lífvera sem var að byggjast upp innra með mér. Ég var ekki alin upp sem grænmetisæta og þótti hrossakjöt besta kjötið á markaðinum. Fiskur fannst mér aldrei sérstakur, en borðaði ef sósan sem honum fylgdi var nógu rjómakennd. Ég lýsti því yfir, fyrir ekkert svo löngu síðan, að ég gæti ALDREI hætt að borða ost.

Í dag tengi ég ekki við þessa konu sem grét það sáran að samviskan var að hafa af henni beikonið sitt. Þessi unga kona er EKKI ég! Ég svitnaði í lófunum þegar ég las færsluna aftur, fann þyngsli fyrir brjósti. Íhugaði að eyða henni, skömmin var svo mikil.

En ég ætla að leyfa þessum status að hanga þarna inni. Því hann er mikilvægur. Hann minnir mig á, árlega, að það er hægt að skipta um skoðun.

Að skipta um skoðun

Við verðum fyrir líkamlegum áhrifum þegar eitthvað stríðir gegn þeim skoðunum/hugmyndum sem við teljum órjúfanlegan part af sjálfsmynd okkar. Pólitískar skoðanir eru eflaust besta dæmið. Þegar rök eru færð gegn þessum kjarna-hugmyndum upplifum við það sem persónulega árás.

Á árum áður, þegar við lentum upp á kant við náttúrulega óvætti á borð við tígrisdýr og ljón, sendi taugakerfið þau skilaboð til heilans að nú sé nauðsyn að tífalda varnirnar. Það sem heilinn veit ekki er að okkur stendur ekki ógn af tígrisdýrum né ljónum (allavega ekki hversdagslega). Bara orð. Sem mynda  hugmyndir. Hugmyndir sem geta vissulega verið stórhættulegar, en það sem hættulegra er er að grafa hausinn í sandinn og neita að hlusta.

“The Backfire Effect”

“The Backfire Effect” er hugtak sem fæddist út frá rannsókn sem var gerð árið 2010. Samkvæmt þeirri rannsókn viljum við svo heitt halda í ákveðnar hugmyndir að við neitum stundum að skipta um skoðun. Allir sem hafa einhver tímann tekist á um pólitik yfir vínglasi ættu að kannast við þetta. Jafnvel þó vísindin staðfesti að við höfum rangt fyrir okkur erum við gjörn á að halda enn frekar í þær kjarna-hugmyndir sem við teljum part af okkar sjálfsmynd. Við jafnvel festum þær enn frekar í sessi hjá sjálfum okkur. Gott dæmi er rannsókn sem var gerð á foreldrum sem bólusetja ekki börnin sín af ótta við einhverfu. Foreldrum var skipt niður og helmingur þeirra spurður: hversu líkleg eruð þið til að bólusetja barnið ykkar? Annar helmingurinn fékk gögn sem vörpuðu ljósi á að bólusetning veldur ekki einhverfu í börnum. Hinn helmingurinn fékk engin slík gögn.Þegar kom að spurningunni kom í ljós að sá helmingur sem fékk gögnin var nú sannfærður um að bólusetning veldur ekki einhverfu.

En samt sem áður voru þau enn harðari á því að bólusetja ekki börnin sín! Það að “vita betur” varð í raun til þess að þau sátu enn fastar á sínum skoðunum og hugmyndum um bólusetningar, þau fundu bara ný rök sem “styrktu” í raun trú þeirra. Þessi útkoma kallast “The Backfire Effect” og er hún algengari í svona samskiptum en við gerum okkur grein fyrir.


Áhrifin á Íslandi

Flest skiptum við reglulega um skoðun á ýmsum málum. En eins og áður kom fram skipta ekki allar skoðanir jafn miklu máli. Stóru málin, líkt og pulsa eða pylsa, eru ekki jafn eldfim umræða og kjötát eða veganismi. (Og já, ég er að djóka með stóru málin, það vita allir að maður segir pylsa því það er rétt íslenska. Ef þú segir pulsa þá ertu líklega heilaþveginn af dönskum framburði og þarft að líta í eigin barm. Ég googlaði það. Og nei ég mun ekki skipta um skoðun.)

Hérlendis mátti fyrir nokkrum árum sjá þessi áhrif kristallast í umræðunni sem skapaðist út frá Metoo hreyfingunni. Konur kröfðust samfélagslegra breytinga til að vernda þær gegn alls kyns hrotta. Hljómar vel! Hver gæti verið á móti því?

Það kom í ljós að fullt af fólki var það. Aðallega þeir sem upplifðu einhvers konar árás á sína eigin persónu og brugðust illa við. Fólk sem taldi sig góðar manneskjur, en upplifðu að þessi herferð stríddi gegn sinni skilgreiningu á hvað góð manneskja er. Þar af leiðandi neitaði þetta góða fólk að íhuga skoðanaskipti og í framhaldinu fæddist sú fleyga setning: Það má ekkert lengur! Uppi voru raunverulegar áhyggjur af því að þessi stefna myndi setja fólki svo miklar skorður í samskiptum að í versta falli gætu Íslendingar dáið út því enginn þyrði að tala saman lengur. Ef það má ekki slá létt á rass kvenna, smella rennblautum kossum á samstarfsfélaga eða koma með kynferðislega brandara á vinnustað, hvernig í ósköpunum eigum við að geta fjölgað okkur?

Ég held að núna, þegar flest kurl eru komin til grafar og önnur mál eru í skotsigtinu (Black Lives Matter, Covid19, afkoma Icelandair o.fl.), sjáum við að hugmyndin á bakvið Metoo var bara frekar góð. Og eflaust er hægt að finna pláss fyrir þá steingervinga sem sem eru ósammála (og vilja enn klípa og kyssa aðra í óþökk) á Þjóðminjasafninu í deildinni „Hin íslenska karlremba“. 

Kostir þess að standa á sínum skoðunum

Auðvitað eigum við ekki að skipta um skoðun við minnsta tilefni. Að hafa skoðanir tengir okkur við aðra sem eru á sama máli og þannig verður líf okkar bærilegra. Við erum hópverur og það er ekki auðvelt að eiga náið samband við einhvern sem er alveg á hinum pólnum þegar kemur að mikilvægu málunum.

Auðvitað er nauðsynlegt að taka skýra afstöðu en það er jafn nauðsynlegt að endurskoða þá afstöðu reglulega. Með því að hlusta á mótrök og ræða við þá sem eru okkur ósammála, án þess að leyfa tilfinningum að taka völdin, getum við meðvitað mótað okkur skoðanir. Það er í lagi að segja: Ég er ekki viss um að ég sé sammála, en ég skil hvað þú ert að segja og þarf að hugsa/kynna mér málið frekar.


Mín skoðun

Ef ég ætti eina ósk væri það að sem flestir kynntu sér “The Backfire Effect”. Um leið og þú verður meðvitaður um starfsemi heilans í ógnandi aðstæðum geturðu í það minnsta reynt að mynda þér skoðanir út frá rökhugsun en ekki ótta. Ég vil ítreka að ég er ekki að segja að fólk eigi ekki að hafa formfastar skoðanir. En það takmarkar okkur sjálf og möguleika okkar að tengjast nýju fólki, læra nýja hluti og bæta okkur sem manneskjur ef við neitum að uppfæra heimsmynd okkar reglulega. Við þurfum stundum að sýna hugrekki og viðurkenna að kannski höfðum við rangt fyrir okkur og þar af leiðandi höfum við skipt um skoðun.

…Og þessvegna sakna ég ekki beikons.



P.s. Vefsíðan “The Oatmeal” setti nýlega þetta hugtak í stuttan, skemmtilegan og einfaldan búning fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér “The Backfire Effect”. Greinin er myndskeytt.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Dýrin í skóginum

næsta grein
,,Það þýðir ekkert að berjast fyrir jafnrétti ef allir fá síðan ekki að vera með”


Lesa meira um...

Veganismi: Skoðanaskipti