13. ágúst 2020

TW

Allt frá dögun Druslugöngunnar á Íslandi hef ég persónulega átt í flóknu sambandi við hreyfinguna. Hugmyndin sjálf er mér ekki að neinu leyti fjarstæðukennd. Ég viðurkenni kynbundið ofbeldi, sem afleiðingu feðraveldisins og nauðgunarmenningar. Andstaða mín við öflin sem halda konum niðri með ofbeldi er skilyrðislaus. Ég hef alla tíð og mun að eilífu standa við hlið kynsystra minna. Ég mun segja varðhundum og áhangendum feðraveldisins, að misgjörðir þeirra gegn hvaða konu sem er, séu misgjörðir gegn mér. Þeir munu ekki fá að tala öðruvísi um mig en aðrar konur. Ef hún er drusla, þá er ég drusla.

En í framkvæmd hefur Druslugangan verið mér utan seilingar. Óöryggið á ekki endilega upptök hjá skipuleggjendum göngunnar eða opinberum styrktaraðilum, heldur stafar það fremur af valkvæðum aðgerðum þeirra sem sækja hana ár hvert. Öskrum þeirra sem ekki gefa frá sér hljóð þó börn í landinu lifi undir fátæktarmörkum. Tárum þeirra sem horfa þurrum augum á brottvísun hælisleitenda. Áheyrn þeirra sem ekki hlusta á bænir transfólks. En álit mitt á söfnuðinum hefur enn ekki stöðvað mig frá því að mæta, öskra og gráta. Ég finn þó að útrétt hönd mín er orðin þreytt á því að vera slegin burt.

Nauðgun er ekki eingöngu kynferðisofbeldi, heldur misnotkun valds. Valdið getur falist í kyni, kynvitund, aldri, líkamlegri eða andlegri getu, efnahag og félagslegri stöðu, svo eitthvað sé nefnt. Það getur líka falist í kynþáttamisrétti.

Þegar fleiri en einn þessarra þátta kemur við sögu margfaldast valdið, og nauðgun verður fyrst og fremst að aðferð við að tryggja líkamleg, sálfræðileg og kynferðisleg yfirráð. Af þessum sökum þjónar ofbeldi gegn konum misyfirgripsmiklu hlutverki eftir samfélögum og misþýðingarmiklu hlutverki eftir aðstæðum.

Í dag eru tæplega 10 milljónir kvenna og stúlkna á flótta undan fátækt, stríðsátökum og umhverfisógnum. Brothætt réttarstaða flóttafólks gerir það að verkum að hlutaðeigandi konur eru upp á náð og miskunn landamæravarða komnar. Í landamærastöðvum lágtekjuríkja þurfa þær að greiða fyrir mat, skjól og ferðaskírteini með vændi. Í Evrópu eru nauðganir hluti af afmanneskjuvæðingu hælisleitenda. Í varðhaldsgeymslum innflytjendayfirvalda í Bandaríkjunum er valdamisvægið á milli starfsfólks þeirra og óskráðu innflytjendanna slíkt að árin 2012-2016 (ath. áður en ástandið versnaði við kosningu Donalds Trump til forseta) var skýrt frá tilfellum rúmlega 1.000 kynferðisárása, meira en 400 þvingaðra kynferðissambanda, tæplega 200 kynferðisáreita og 380 líkamlegrar eða kynferðislegrar misnotkunar. 

Fyrir utan að fjöldi tilkynninga gefur sjaldnast raunverulega mynd af umfangi kynferðisbrota, þá er kynferðisofbeldi gegn börnum í innflytjendavarðhaldi enn faldara og þolendurnir segja oft ekki frá fyrr en á fullorðinsaldri, þ.e.a.s. þau sem ekki eru send aftur til upprunalands síns. Af öllum öryggisyfirvöldum Bandaríkjanna (Department of Homeland Security) beintust flestar kvartanir um kynferðisofbeldi gegn innflytjenda- og tollgæslunni, næst á undan tolla- og landamæragæslunni. Það er engin tilviljun.


Sem annað dæmi um kynferðisofbeldi í skjóli valdaójafnvægis kynþátta má nefna áreiti á vinnustöðum þar sem meirihluti starfliðsins eru konur af erlendum uppruna. Meina ég þá stéttir á borð við ræstitækna, mötuneytisstarfsfólk og umönnunaraðila.

Ekki er nóg með að þessi hópur kvenna sé bundinn takmörkunum tungumálsins, og í efnahagslega viðkvæmri stöðu, þar sem hver launuð mínúta er nauðsynleg við að bera björg í bú, heldur á vinnan sér oft stað í einangrun, utan hefðbundinna opnunartíma eða innan veggja heimilisins.

Þá leiðir skortur innfluttra kvenna á félagslegu baklandi til aukinnar tíðni ofbeldis af höndum maka, en 45% dveljenda í Kvennaathvarfinu eiga rætur að rekja annað en til Íslands, þrátt fyrir að vera aðeins u.þ.b. 15% af kvenþjóðinni. Markverð skekkja talnanna stafar þó einnig af því að íslenskar konur eiga í önnur hús að venda.

Að mínu mati er nauðgun frelsissvipting, vegna þess að þolandinn er sviptur frelsi yfir eigin líkama og kynferði. En utan þess eiga nauðganir sér oft stað við þær aðstæður að þolandinn er fastur á ákveðnum stað og þar af leiðandi tilvalið fórnarlamb. Algengasta form frelsisviptingar er fangelsun ríkisvalds. Í mörgum fjölmenningarríkjum eru einstaklingar af lituðum kynþætti fangelsaðir hlutfallslega oftar og lengur en hvítir samborgarar þeirra, enda glæpir yfirleitt afleiðing fátæktar og ójafnra tækifæra. Konur af öðrum kynþætti en hvítum eru þannig teknar úr samfélaginu og verða réttarkerfinu að bráð. Réttargæslumenn hafa fulla stjórn á öllum athöfnum fangakvennanna, m.a. hvenær þær borða, sofa, baðast og létta af sér, hve mikið þær vinna, hvert þær mega fara, hverja þær umgangast og hversu oft þær fá að sjá fjölskyldur sínar eða hitta lögfræðinga. Þar að auki hafa þeir vald til að beita umframrefsingum, einkum einangrunarúrræðum. Fangaverðir þurfa því ekki að seilast langt eftir valdinu til að nauðga án afleiðinga.

Víða um heim, einkum í ríkjum þar sem meirihluti þjóðarinnar er ekki hvítur, eru konur einnig fangelsaðar með ólögmætum hætti, eða fyrir brot gegn lögum sem byggja á kúgun kvenna. Konur sæta þannig refsingu fyrir pólitískan aktívisma eða andspyrnu við óréttlæti. Í þeim tilvikum er kynbundið ofbeldi notað sem aðferð við andlegt niðurbrot, og takmarkast ekki við þolandann, heldur samfélag kvenréttindasinna. Á sama hátt er kynferðisofbeldi í vopnuðum átökum, nýlendunámi og tilfærslu þjóðflokka árangursríkt tæki við að valda ótta og knýja til undirgefni. Konur eru ávallt í einna veikastri stöðu sökum kynbundins ofbeldis.


Markmið mitt með þessari skelfilegu upptalningu aðstæðna, þar sem konur af öðrum kynþætti en hvítum eru líklegri til að sæta kynferðisofbeldi vegna stöðu sinnar í heiminum, er svo sannarlega ekki að rökstyðja hvers vegna sumar nauðganir séu alvarlegri en aðrar.

Kynferðisofbeldi er alltaf kynferðisofbeldi. En aðdragandi þess og afleiðingar geta verið ólíkar eftir samfélögum og því hverjir eiga í hlut. Viss samfélög hunsa eða verðlauna kynbundið ofbeldi, og það hefur áhrif á hvers konar aðstoð konum stendur til boða. Þá hafa réttarúrræði og möguleikar á að ná fram réttlæti gagnvart gerendum sínum óneitanlega áhrif á vegferð þolenda til heilunar. 

Hvað varðar stöðu bæði geranda og þolanda getur kynþáttahyggja, eða önnur valdamisbeiting, margfaldað áfallið sem nauðgun er. Hvítur femínismi og forréttindablinda margra íslenskra kvenna á flækjustig kynferðisofbeldis hefur í gegnum tíðina valdið því að ég vantreysti hreyfingum og verkefnum, á borð við Druslugönguna, MeToo og Áfallasögur kvenna. Vantraust mitt hefur hingað til ekki að hindrað mig að fullu leyti frá þátttöku, en ég veit ekki hve lengi í viðbót ég get sýnt sjálfskipaðri fáfræði og eiginhagsmunastefnu hvítra kvenna umburðarlyndi.

Þolinmæði mín er á þrotum.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Staðalímynd

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
BROTNAR GREINAR

næsta grein
Kynbundið ofbeldi: Karlmenn eru með allt þetta vald


Lesa meira um...

Hvítur femínismi: Veggir Valds