13. ágúst 2020

Sem kona af lituðum kynþætti er það að vera fædd og uppalin í samfélagi sem er að mestum hluta hvítt, og að hafa búið á Íslandi í 20 ár, á margan hátt áhugavert. Jákvæð ímynd Íslands sem jafnréttislands hefur leitt marga til að trúa því að algeru jafnrétti hafi verið náð í samfélaginu, að rasismi „sé ekki til“ og margir Íslendingar halda því fram að þeir „sjái ekki lit“.

Og já, já, það má segja að Ísland sé nokkuð framarlega í femínisma, miðað við mörg lönd, en hversu aðgengileg er sú hreyfing fyrir konur sem tilheyra minnihlutahópum hér á landi?

Hvernig hefur femínistahreyfingin, og þá í raun hvítur femínismi, hjálpað fólki eins og mér á Íslandi? Svarið er hún hefur ekki gert það og mun ekki gera það fyrr en Ísland, sem land, horfist í augu við rasismann sem grasserar hérna bæði kerfisbundið og í samfélaginu.

En hvað nákvæmlega er rasismi? Upplifir hvítt, íslenskt fólk rasisma? Rasismi er sú trú að ákveðinn kynþáttur sé öðrum æðri, oftast æðri minnihlutahópum eða hópum á jaðrinum. Rasískar gjörðir eru meðal annars, en þó ekki eingöngu, mismunun, fordómar og öðrun – svo ekki sé minnst á að hugmyndafræðilegur rasismi og rasískar gjörðir eru margs konar. Á meðan hvítt fólk (hvítir Íslendingar) getur á vissan hátt upplifað einhverja mismunun eða fordóma gegn þeim í lífinu, þá upplifir það þá ekki á sama hátt og minnihlutahópar gera. Upplifanir þess leiða ekki til þess að það standi kerfisbundið og langvarandi höllum fæti eingöngu sökum litarhafts þess. Í raun græðir það á því sem kallast hvít forréttindi eða hvítt valdakerfi. Sökum þessa er viðsnúinn rasismi (e. reverse racism) mýta. 


Eins og ég nefndi áður er ég kona af lituðum kynþætti sem er fædd og uppalin á Íslandi og ég get með sanni sagt að ég hef lent í óteljandi rasískum uppákomum hér á landi. Bæði frá vinum og ókunnugum, allt frá smáreiti til haturs. Ég þurfti að læra að láta þetta ekki á mig fá, að láta eins og ekkert hafi gerst, af ótta við að enginn myndi skilja mig og ég yrði kölluð damatísk eða sökuð um að taka öllu of alvarlega. Í stað þess að standa með sjálfri mér og verja mig var ég þögul til að láta hvítu samferðafólki mínu ekki líða óþægilega.

Ég hef einhvernveginn bælt þessar trámatísku reynslur frá unga aldri, sem er alls ekki heilbrigð leið til að takast á við hlutina, en reiðin er enn til staðar. Sársaukinn, reiðin, bugunin. Þetta er allt enn til staðar. Það að verða aftur heil og vinna bug á þessu er hægara sagt en gert.

Ég áttaði mig á því að með því að þegja og láta vini mína komast upp með rasíska orðræðu og hegðun, var ég að stuðla að því að þeir yrðu áfram rasískir við fleira fólk. Það tók mig langan tíma að læra að standa með sjálfri mér og ég vissi að ég gæti ekki látið svona hegðun líðast svo ég yrði að segja hingað og ekki lengra. Ég gat ekki bara setið þögul og leyft fólki að halda áfram að nota rasísk níðyrði og segja rasíska brandara, hvort sem var við mig eða annað fólk af lituðum kynþætti. Þetta eru aldrei bara orð eða bara brandari. Þetta er alltaf mun meira en það. 

Þetta þýðir þó ekki að ég finni ekki lengur fyrir rasisma og lendi ekki í rasískum uppákomum. Í næstum hvert sinn sem ég hætti mér út úr húsi lendi ég í alla vega einni lúmskri rasískri uppákomu – það mætti segja að það sé óhjákvæmilegt. 

Í kjölfar morðsins á George Floyd, sem hefur vakið almenning til meðvitundar um mikilvægi BLM, hef ég því miður orðið vitni að mörgum innantómum aðgerðum frá hvítum Íslendingum. Ég hef persónulega séð tvær birtingarmyndir.

Sú fyrri er „hoppa á trendið og gleyma því í næstu viku“. Dæmi um þetta er til að mynda að deila svörtum kassa á Instagram án þess að vita hvað það þýddi eða að sjá og hugsanlega lesa andrasíska pósta á instagram en halda áfram að segja n-orðið og syngja það í lögum (allir sem eru ekki svartir ættu að vita að það er ALDREI í lagi fyrir þá að segja það).

Seinni birtingarmyndin er „ég er að deila þessu svo nú hef ég gert minn skerf“ þar sem fólk býst við verðlaunum eða í það minnsta klappi á bakið fyrir að deila einhverju á samfélagsmiðlasíður sínar sem „lítur vel út“ en heldur áfram að þegja í hinu raunverulega lífi. Þetta kallast uppgerðarsamstaða (e. Performative allyship) og virkar ekki en er þess heldur skaðleg og getur skaðað þau sem hún á að styðja.


Á meðan það er frábært að íslenskt samfélag hafi orðið meira vart við mismununina sem svart fólk lifir við í Bandaíkjunum þá hefur það ekki beint samúðinni að svörtum bræðrum okkar og systrum á Íslandi, þar sem kröfunar eru meiri sökum ómeðvitaðrar mismununar.

Eins og vinur minn Jonathan sagði: ,,Hvernig ætlarðu að vera aktívisti fyrir alþjóðleg málefni þegar þú getur ekki einu sinni séð vandamálin í þínum eigin bakgarði?“

Að öllu þessu sögðu, hvað gerum við svo? Hvað meira getum við gert? Svarið er, við getum gert endalaust meira. Það er svo margt fleira að læra og svo mörg vandamál að leysa. Ein af leiðunum sem við getum notað til að berjast gegn rasisma er að byrja á okkur sjálfum. Við þurfum að staldra við og athuga okkar eigin ómeðvituðu fordóma, að bera ábyrgð á gjörðum okkar, að læra af þeim og tala fyrir því sem er rétt. Tala fyrir jafnrétti og gegn misrétti gegn minnihlutahópum og jaðarhópum. 

Að brjóta niður hið hvíta valdakerfi tekur langan tíma en með því að nota hvítu forréttindin til að hjálpa svörtu fólki, með því að hjálpa okkur að láta í okkur heyrast, gætum við tekið eitt skref nær jöfnu og réttlátu samfélagi. Ef ekki á meðan við lifum, þá í það minnsta fyrir kynslóðina sem á eftir okkur kemur. 

Standið með okkur. Berjist með okkur, ekki fyrir okkur. Hlustið á það sem við höfum að segja frekar en hvítt fólk þegar það kemur að málefnum sem snerta okkur.

“We can disagree and still love each other, unless your disagreement is rooted in my oppression and denial of my humanity and right to exist.”
– James Baldwin

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Donna Cruz skrifar: „Bréf til 16 ára mín“

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Forréttindapési

næsta grein
Hvernig verður man berskjölduð? Hinar margvíslegu tegundir varnarleysis og kúgunar sem konur af erlendum uppruna upplifa.


Lesa meira um...

Þú ert ekki aktívisti: Frá íslenskri konu sem ,,lítur ekki út eins og íslensk kona“