“If there is not the intentional and action-based inclusion of women of color, then feminism is simply white supremacy in heels.” – Rachel Cargle

Hver okkar á ekki vinkonu sem er femínisti, gallharður femínisti, en setur samt spurningamerki á réttmæti reiði svartra, og stuðningsmanna þeirra, á þessum síðustu og verstu tímum? Þessi vinkona segir eitthvað eins og „ekki allir hvítir…“ eða „öll líf eru mikilvæg…“ eða, „af hverju getur þetta svarta fólk ekki hætt að rústa eigin hverfum og hætt að væla?“ Jafnvel, „hvítt fólk er líka drepið af lögreglunni…“ og svo mætti lengi telja. 

Þessi hvíta vinkona/vinur gæti þjáðst af því sem kallast hvít viðkvæmni. Hún er alvarlegur fylgikvilli hvíta valdakerfisins sem við lifum og hrærumst í og virðist eitt helsta vopn hvítra kvenna gegn baráttunni og sjálfum sér. Okkur hefur verið talin trú um að gott fólk séu ekki rasistar. Auðvitað ekki! Okkur hefur verið talin trú um að rasistar séu reiðir miðaldra karlmenn með skalla, og jafnvel hvíta hettu á höfðinu eða hakakross í vasanum. Rasistar eiga að hata brúnt fólk eins og djöfullinn. Því engin góð manneskja er rasisti. Hljómar þetta ekki þægilega? Næstum of þægilega? 

Nú ætla ég að varpa fram skelfilegri, en fullkomlega raunverulegri, staðreynd: „Við sem ölumst upp í hvítu valdakerfi erum öll rasistar.“ Nú hugsar þú mögulega, „Nei það getur engan veginn verið! Ég styð mannréttindi 100%!“ En ekki panikka, það er ekki hægt að alast upp í hvítu valdakerfi án þess að innlima rasisma inn í ómeðvitaðan hugsunarhátt. Sama hversu mikið fólk hefur lært eða kynnt sér málin, þá breytir það því ekki að við öll erum alin upp í kerfi sem byggir á yfirburðum hvítra og undirokun litaðs fólks.

Andrasistinn og fræðikonan Jane Elliot segir til að mynda að ef einhver hvítur, sem elst upp í okkar samfélagi og skólakerfi, sé ekki rasisti, sé það kraftaverk. Enda er heimssagan kennd þannig. Hvítir karlmenn eru gerendurnir, bjargvættirnir, uppfinningamennirnir og allt hitt. Við lærum ekki um skaðleika þrælahalds og nýlenduhyggju. Við lærum að Kristófer Kólumbus hafi fundið Ameríku því hann var svo klár og flottur. Þjóðarmorð hans á frumbyggjum Ameríku er mjög lítið nefnt, ef eitthvað. 

Vandamálið liggur einnig í því að samfélagið okkar frekar aðskilið. Flestir hvítir þekkja fáa svarta. Flestir hvítir eiga aðallega hvíta vini, hvítar fjölskyldur, vinna á hvítum vinnustöðum, ganga í hvíta skóla. Og þegar við þekkjum fáa brúna og heyrum bara um þá í formum staðalmynda, er ekki skrítið að við ölum með okkur skrítnar skoðanir. Ekki af því við hötum brúnt fólk heldur af því samfélagið okkar þrífst á jaðarsetningu og undirokun brúnna og hefur gert frá nýlendutímum. 

Og hvað gerist þegar við, hvítar afurðir hins hvíta valdakerfis, lærum um femínisma? Notum það sem dæmi um hvernig okkur eru kennd útilokandi fræði.

Hvítur femínismi

Femínismi, eins og við þekkjum hann, er hreyfing sem hófst með súffragettum á 20. öld. Hann hefur gengið í bylgjum með mismunandi áherslum og dottið í og úr tísku yfir langt skeið. Hreyfingin einbeitti sér að því að konur fengju jöfn mannréttindi á við karlmenn hvers tíma, en hefur réttilega verið gagnrýndur á síðustu árum fyrir útilokun sína á svörtum konum, samkynhneigðum, transkonum og öðrum jaðarsettum hópum kvenna, en hreyfingin var upphaflega sérstaklega sniðin að hvítum miðstéttarkonum. 

Skoðum bókina The Routledge Companion to Feminism and Postfeminism, sem er ætlað að vera grunnrit um femínisma og póstfemínisma. Aftan á henni stendur: „Fyrir hinn almenna lesenda sem og nemendur á öllum stigum. Ómetanlegur leiðarvísir fyrir hvern sem hefur áhuga á femínisma, sögu hans og framtíð.“ Í bókinni er farið yfir sögu hreyfingarinnar frá upphafi til ársins 2006 en áhugavert er að ekki er minnst á svartar konur eða aðra kynþætti en hvíta fyrr en á blaðsíðu 27, þegar búið er að fara yfir upphaf femínisma, fyrstu bylgju femínisma og aðra bylgju femínisma. Í kaflabút á bls. 27 í kaflanum „Diverging Views“, sem er innan við blaðsíðu langur, er minnst á jaðarsetningu svartra og samkynhneigðra kvenna og að þær hefðu ekki verið velkomnar í hreyfingu meginstraumsfemínisma þrátt fyrir að hafa verið harðar baráttukonur fyrir kvenréttindum frá upphafi. Nafn kaflans, Diverging Views, eða Sjónarhorn sem bregða frá heildinni, gefur til kynna að femínismi sé og verði miðstéttarhreyfing hvítra, gagnkynhneigðra kvenna og hinar laumi sér aðeins með. Þannig tekur bókin sjálf, sem er skilgreind sem grunnrit til að fræðast um femínisma,  þátt í „öðrun“ kvenna sem tilheyra jaðarhópum. Ekkert er svo talað um konur með fatlanir, transkonur, feitar konur eða aðra jaðarsetta hópa. 

Nútímasöguskoðun er gjörn á að útiloka og gleyma hlut hvítra kvenna í þrælahaldi og rasisma en í sannleika sagt erfðu hvítar konur oft fremur þræla en lönd og peninga, og beittu alveg jafn mikilli kúgun og karlmennirnir. Sama söguskoðun gleymir að horfa til þess hvernig femínisminn útilokar bæði hlut svartra kvenna sem lögðu hönd á plóg til að ná fram jafnrétti sem og hvernig hvítar millistéttarkonur, útilokuðu konur sem voru ekki hvítar og börðust eingöngu fyrir eigin réttindum.

Annað dæmi um útilokun í formi gleymsku: Í fræðibókinni What A Girl Wants frá 2006 vitnar höfundur í fyrirsagnir samtíma síns, til að mynda í grein um launamun kynjanna þar sem segir „Í gegnum níunda og tíunda áratuginn voru konur af öllum stéttum samfélagsins – fátækar, miðstéttar-, og ríkar – hægt og bítandi að vinna á karlkyns samferðamenn sína á vinnumarkaðinum. Í kringum 1995 þénuðu konur meira en 75 sent fyrir hvern dollara á tímann sem menn unnu sér inn.“ Ekkert er minnst á kynþátt í þessari samantekt höfundar á því sem femínisminn hefur áorkað. Ekki er heldur nefnt að konur sem eru ekki hvítar þéna mun minna á tímann en hvítar konur, sem þéna þó ekki það sama og karlar. 

Hreyfingin er lítið sem ekkert gagnrýnd fyrir þessa útilokun af hálfu meginstraumsfemínismans, af þessum sömu hvítu konum sem græða á femínismanum en skilja konur sem tilheyra minnihlutahópum eftir. Árið 1970 kom greinin „Double Jeopardy“ eftir Francis Beale út í safnritinu Sisterhood is Powerful. Í grein Beale er fjallað um þá tvöföldu byrgði kynþáttar og kvenleika sem svartar konur þurfa að bera. Í henni talar Beale um það sem hún kallar „baráttu svartra kvenna upp á líf og dauða til að öðlast algert frelsi frá hvítu miðstéttar kvenréttindabaráttunni,“ og segir að „þar til kvenréttindabaráttan fer að beita sér gegn heimsvaldastefnu og andrasískum hugmyndum mun hún ekki eiga neitt sameiginlegt með baráttu svartra kvenna.“ 

Öðrun kvenna

Simone de Beauvoir skrifaði The Second Sex árið 1949 og skilgreindi konuna sem samfélagslega tilbúið hitt (e. other), og lagði grunninn fyrir mikið af feminískum fræðiskrifum áttunda áratugarins. Hún skrifaði „Þú fæðist ekki, heldur verður, kona. Það eru ekki líffræðileg, sálfræðileg eða fjárhagsleg örlög sem bera ábyrgð á uppfinningu fígúrunnar sem hin kvenkyns mannvera er í samfélaginu. Það er öll samfélagsgerðin sem hefur skapað þessa veru, millibilsveru á milli karls og geldings, sem er lýst sem kvenlegri.“ 

Þessi öðrun konunnar er grundvöllur fyrir sköpun viðfanga, þar sem sjálfið getur eingöngu verið skilgreint í samhengi við eitthvað sem er andstæða þess. Þar sem karlmenn hafa tekið sjálfið fyrir þá sjálfa, og gert konuna að eilífu „öðru“, hefur skilgreiningin kona ekkert gildi. Hún er eingöngu tilbúin fantasía karlmanna. Og þar sem allar samfélagslegar birtingarmyndir konunnar sem við eigum, hvort sem það er í goðsögum, trú, bókmenntum eða poppmenningu, eru búnar til af karlmönnum hafa konurnar sjálfar lært þessar skilgreiningar og lært að „láta sig dreyma í gegnum drauma karlmanna.“ Konan er þar með þvinguð til að samþykkja sjálfa sig sem aðra, fyrir karlmenn. Hún gerir sjálfa sig að viðfangi og gefur frá sér sjálfræði sitt. 

Árið 1970 varð sprenging í femínískum fræðiskrifum eftir uppgang annarar bylgju femínismans frá 1963. Mörg þeirra lykilfræðirita sem við notumst við í dag komu út og viðhorfsbreyting var frá annarri bylgjunni. Kate Millett gaf út Sexual Politics, Shulamith Firestone The Dialectic of Sex og Robin Morgan ritstýrði ritsafninu Sisterhood is Powerful, en þessar bækur komu allar út í Bandaríkjunum. 

Fyrstu bylgju femínistinn Betty Friedan, sem skrifaði The Feminine Mystique, hafði verið ósammála öðrunarkenningu Beauvoir og taldi lausnina á kúgun kvenna vera að finna innan ríkjandi valdakerfis. Ólíkt verkum Friedan áttu bæði Sexual Politics og The Dialectic of Sex rætur sínar í róttækum femínisma. Bók Millett gerði bæði frasann kynjapólitík (e. sexual politics) vinsælan og víkkaði út hugmyndina um feðraveldið. Millett kallar feðraveldið pólítískt valdakerfi og grunnform kúgunar. Án þess væri ekki hægt að stunda aðra kúgun, svo sem kúgun og öðrun á grundvelli kynþáttar, pólitískra skoðana og samfélagsstöðu. Hún segir feðraveldi aðallega haldast við völd sökum hugmyndafræðilegrar stjórnunnar, það er, vegna þess að feðraveldið skilgreinir allt samfélagið og allar okkar hugmyndir.

Líkt og Beauvoir hélt fram segir Millett að konur hafi líkamnað (e. internalized) hugmyndafræði kvenleikans, og þannig tekið sér stöðu sem óæðri karlmönnum. Þegar hugmyndafræðileg kúgun virkar ekki mun feðraveldið, rétt eins og hið hvíta valdakerfi þegar kemur að rasisma eða nýlenduhyggju, grípa til líkamlegs valds – ofbeldis. Feðraveldið gæti ekki verið til staðar ef ekki væri fyrir hið hvíta valdakerfi, vestræn forræðis- og yfirburðahyggja er sterkur hlekkur í völdum feðraveldisins. 

Svarti rithöfundurinn Audre Lorde skrifar í ritgerð sinni „The Master’s Tools Will Never Dismantle the Master’s House“ að það sé ekki hægt að koma af stað raunverulegri samfélagslegri breytingu á meðan litið er á rasisma í gegnum linsu feðraveldisins. Allar jaðarsettar konur þurfa að standa saman og fræða sig um kúgun hverrar annarar. Það að þvinga minnihlutahópa til að nota tól kúgara sinna til að berjast fyrir réttindum sínum er, samkvæmt henni, akkúrat aðferð kúgarana til að halda minnihlutahópum niðri. Hún skrifar að verkfæri húsbóndans munu aldrei jafna hús hans við jörðu. Þau geti leyft okkur að vinna hann tímabundið á hans forsendum en þau muni aldrei koma af stað raunverulegri breytingu. Hún fjallar einnig um þennan tvöfalda veruleika svartra kvenna, samband miðjunnar og jaðarsins þar sem svartar konur tileinka sér tungumál og siði kúgarans. 

bell hooks bendir einnig á þetta jaðarsamband og að mismunun kynjanna hafi, þrátt fyrir að vera kerfisbundin, aldrei ákvarðað algerlega örlög allra kvenna til jafns. Hún bendir einnig á að hin kúguðu viðföng, sem vinna innan valdakerfis feðraveldisins (og um leið hins hvíta valdakerfis) til að ná og viðhalda völdum, nái ekki endilega fram markmiðum femínisma. Það getur nýst sem táknrænt vald, en er ekki nóg til þess að ögra núverandi valdakerfum. Þeir einstaklingar sem tilheyra minnihlutahópum en vinna innan valdakerfisins hafa niðurrífandi (e. distructive) áhrif, þar sem staða þeirra getur eingöngu gagnast til að viðhalda núverandi valdakerfi eða hugsanlega unnið gegn femínískri baráttu í heild.

Samtvinnun mismunabreyta

Árið 1984 skapaði bandaríski félagsfræðingurinn Kimberlé Crenshaw hugtakið samtvinnun mismunabreyta (e. intersectionality). Hugtakið er í dag nokkuð mikið notað í femínískum og hinsegin fræðum, en hefur þó ekki algerlega verið tekið inn í meginstrauminn. Grunnhugmyndin á bak við samtvinnun mismunabreyta er sú að hver manneskja sé ekki endilega aðeins partur af einum jaðarsettum hóp, heldur hugsanlega mörgum samtímis. Samtvinnun þessarra jaðarsetninga af völdum fleiri en eins kúgandi þáttar hafi mikil áhrif á líf manneskjunnar. Má segja að Crenshaw hafi gefið því nafn, sem svartar fræðikonur höfðu áður bent á í skrifum sínum um jaðarsettar konur og femínisma. Hugtakið nýtist vel til að skilja margslungið eðli stigveldis hins hvíta valdakerfis. Hugtakið gerir það að verkum að vídd skapast í umræðuna um jaðarsetningu svo það verður ekki jafn auðvelt að staðsetja fólk innan pýramída stigveldisins. Hvítar konur hafa til dæmis forréttindi fram yfir svartar konur og svartir karlar meira vald en svartar konur, en þó ekki til jafns á við hvíta karla. Aðrar mismunabreytur eins og hinseginleiki og fatlanir geta svo einnig spilað inn í. 

Bandaríski félagsfræðingurinn Patricia Hill Collins hefur sérhæft sig í sögu svartra í Bandaríkjunum með sérstakri áherslu á konur. Í bók hennar Black Feminist Thought: Knowledge, Conciousness, and the Politics of Empowerment frá árinu 1990 fjallar hún ítarlega um svartar konur og undirskipun í sögulegu samhengi ásamt hugmyndum um kynferði, aktívisma, þekkingarfræði og vald. Í bókinni tengir Collins saman samfélag og skrif svartra kvenna á bókmenntafræðilegan hátt og vinnur með hugtak Crenshaw um samtvinnun mismunabreyta. Collins fjallar um svörtu konuna sem „hitt“ (e. other) og hina hefðbundnu tvískiptingu, svart og hvítt – og hvernig þessi hugtök gætu ekki virkað ein og sér, þar sem hvítt þarf svart til þess að geta staðsett sig. Rétt eins og karlmenn þurfa konur til að vera hitt þarf hvítleikinn hina svörtu.

Hið svarta er hitt þegar kemur að hvítum. Sjálfið er hinna hvítu að skapa. Hinir svörtu verða að vera tilbúningur hinna hvítu. Þeir hvítu skapa hugmyndirnar um þá svörtu, svartir verða að gangast inn á staðalmyndir og hugmyndir kúgarans. Þessi þvingaða sköpun sjálfsins er í beinu samhengi við kröfur kúgarans, hvítra og karlmanna. 

Collins segir líf svartra kvenna vera eilífar samningaviðræður sem miða að því að samrýma þversagnir þeirra eigin skilgreindu sjálfsímyndir sem svartar konur og hlutgervingu þeirra sem „hitt“. Collins telur að með því að stuðla að valdeflingu svartra kvenna í gegnum sjálfsskilgreiningar geti það hjálpað til við að streitast á móti ráðandi hugmyndafræði. 

Hlustum á raddir hinna kúguðu

Kona, í augum meginstraumsfemínismans, er hvít, eins og margar svartar baráttukonur hafa bent á, og til að fræðast meira um svartan femínisma þarf að líta til rita sem sérstaklega taka fram að þau einbeiti sér að svörtum femínisma. Meginstraumsskólar kenna okkur ekki svartan femínisma, við þurfum að leita að fræðum um hann upp á eigin spýtur. 

Jafnvel þó við séum ekki að reyna að vera rasistar, ekki að reyna að vera leiðinleg og útilokandi, þá er virkilega skaðlegt að gleyma því að til séu fleiri en hvítir. Við segjumst berjast fyrir baráttu kvenna en við meinum í raun hvítra kvenna. Ekki af því við hötum brúnar konur, heldur af því við gleymum að þær eru til og að þær glíma við öðruvísi, og töluvert meiri, kúgun en hvítar konur. Gerum betur, hlustum á brúnar konur, jaðarsettar konur. Reynum að lesa til að víkka sjóndeildarhringinn okkar. Verum betri með því að hjálpa fleirum en bara okkur sjálfum. Bjóðum fleiri velkomna í baráttuna og berjumst sjálfar. Það er ekki okkur að kenna að við höfum alist upp í hvítu valdakerfi en það er á okkar ábyrgð að fræðast og hlusta á raddir hinna kúguðu.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Lygin um land hinna frjálsu