5. mars 2019

Það getur verið flókið að aðskilja list frá skapara hennar. Árið 1951 birtist smásagan Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns í tímaritinu Líf og List. Í smásögunni, sem samin er af Ástu Sigurðardóttur, kynnast lesendur ungri stúlku sem álitin er boðflenna í heimaboði. Hún er litin illum augum, kölluð skækja og er að lokum hent úr boðinu vegna ósæmilegrar hegðunar.

Stúlkan, sem er illa farin, ráfar alein um götur Reykjavíkur, uppfull af sorg og vonleysi, þar til eldri karlmaður á vegi hennar aumkar sig yfir henni og býður henni heim til sín. Í heimahúsum mannsins veitist maðurinn hins vegar að stúlkunni og nauðgar henni. Stúlkan er því enn á ný hrakin út á kuldaleg strætin þar til hún finnur að lokum skjól í ólæstri bifreið hvar hún dvelur fram til morguns.

Birting Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns vakti ómælda athygli á sínum tíma. Það þóttu í fyrsta lagi tíðindi að birta smásögu eftir kvenrithöfund, en fyrst og fremst þótti mörgum umræðuefni sögunnar bæði óþægilegt og ósvífið, en sagan tekur á málefnum líkt og kynferðisofbeldi og drusluskömmun — málefni sem lítið var rætt um á þessum tíma og þykja jafnvel óþægileg enn í dag.

Það vakti þó einnig athygli almennings að aðalpersóna Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns hét Ásta, líkt og höfundur. Vegna þess var lengi talið að sagan innihéldi raunverulega frásögn úr lífi Ástu og höfundurinn því litin hornauga þar sem mörgum reyndist ógerlegt að aðskilja listamanninn og höfundinn Ástu frá aðalpersónunni Ástu.

aðskilja list

Það er ekki endilega við samtímamenn Ástu Sigurðardóttur að sakast, að ákvörðun hennar um að nefna aðalpersónu Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns eftir sjálfri sér, hafi myndað óljós skil á milli höfundar og skáldverks sem og vakið upp forundran almennings.

Okkur er tamt að leitast eftir tengslum á milli listaverks og listamanns og vangaveltur um tengsl listamannsins við listina eru síður en svo úreltar.

Jafnvel mætti segja að þær hafi sjaldan átt jafn mikinn rétt á sér og í dag, þá sérstaklega í ljósi hreyfinga á borð við #MeToo sem beindu athygli okkar að listamönnum sem eru siðferðislega vafasamir. Sögur af kynferðisofbeldi, kynferðislegri áreitni, stjórnun, virðingarleysi og gerendameðvirkni innan leiklistar-, kvikmynda- og tónlistarsenunnar (svo fátt eitt sé nefnt) fóru að birtast í hrönnum og vörpuðu síauknu ljósi á þá valdníðslu sem leyndist bak við lukt tjöld. Og á sama tíma vakna spurningar um möguleikann á að aðskilja listina frá þessum vafasama listafólki.

Happasælir leikarar reyndust afbrotamenn og skugga tók hægt og bítandi að falla á áður ástsæl verk þeirra. Samhliða þessum afhjúpunum tók að myndast togstreita í hugum listunnenda: get ég enn haft unun af listaverki þrátt fyrir misgjörðir höfundar þess? Er hægt að aðskilja listafólk og list þeirra? Líkt og í tilviki Ástu Sigurðardóttur, þar sem lesendum þótti óljóst hvar skilin á milli höfundar og aðalpersónu lágu, reynist mörgum erfitt að ákvarða hversu mikla hlutdeild listamaður á í upplifun okkar af listaverki hans.

Umræður um persónulega hlutdeild listamanns í listaverki sínu eru, eins og dæmið um Ástu sýnir og sannar, alls ekki nýjar af nálinni. Árið 1967 birti franski bókmenntafræðingurinn Roland Barthes ritgerð sína „Dauði höfundarins“. Í ritgerðinni segist Barthes mótfallinn þeirri aðferðafræði gagnrýnenda er felst í því að reiða sig á vitneskju um höfundinn til að ákvarða túlkun á verkum hans.

Samkvæmt Barthes á höfundur ekki að hafa vald yfir túlkun áheyranda á verkum sínum heldur fellur það í hendur áheyranda að túlka upplifun sína af verki höfundar, og finna í því merkingu sem er óháð túlkun höfundarins sjálfs af eigin verki. Í grunninn á því engu að skipta hver höfundur er eða hvað höfundurinn ætlaði list sinni — höfundurinn er aðskilinn verkinu og í þokkabót dauður!

Af niðurstöðum Barthes að dæma ætti ekki að liggja nokkur vafi um hvar hlutdeild listamanna liggur í verkum þeirra, hún er einfaldlega ekki til staðar! En er málið virkilega svo einfalt? Vitaskuld er freistandi að styðjast við kenningar Barthes og líta svo á að listaverk, skáldsögur, kvikmyndir og ljóð birtist sjónum okkar algjörlega óháð höfundi þeirra — en raunin er sú að höfundar spila oftar en ekki stórt hlutverk í upplifun okkar af verkum þeirra.

Jafnvel þótt höfundur eigi ekki að ákvarða túlkun á verkum sínum virðist persóna höfundar engu að síður vera ráðandi í markaðsetningu verka sinna.

Það er varla hægt að aðskilja list og skapara listar þegar brjóstmyndir af höfundum prýða kápur nýjustu skáldverka þeirra, tónlistarútgáfa er auglýst á persónulegum samfélagsmiðlum tónlistarmanna og kvikmyndir eru markaðssettar út frá velgengni aðalleikara sinna. Við erum einnig í sífelldri snertingu við fólkið sem stendur á bak við listaverkin þar sem tilurð margvíslegra fréttaveitna gerir okkur kleift að komast í meiri nálægð við listamenn en áður.

Listunnendur eru varir um hjúskaparstöðu, trú, skólagöngu, ættartengsl, geðheilbrigði, pólitíska afstöðu og jafnvel uppáhalds mat listamanna — en hvaða áhrif hefur slíkt upplýsingaflæði á upplifun okkar á list þeirra? Þá sérstaklega þegar við verðum vör við að listamaður á bakvið uppáhaldsverk okkar hefur framið ósiðferðilegar gjörðir eða stutt við hatursfulla orðræðu?

Upplifun okkar af listaverki ræðst alltaf af þeim upplýsingum sem við höfum um verkið. Stundum stendur okkur til boða að forðast upplýsingar um viss verk og aðskilja listina skapara þeirra þannig — við getum til dæmis valið að lesa ekki umsögn gagnrýnenda á myndlistarsýningu sem okkur hugnast að sjá, eða við getum sleppt því að athuga hvað vefleitarniðurstöður segja til um uppáhalds tónlistarmanninn okkar. Með því að forðast markvisst upplýsingar um viss verk erum við ef til vill að leitast eftir því að upplifa list á tærari hátt, en jafnvel þótt við reynum að setja upplýsingaflæðinu vissar hömlur getum við ekki alltaf stjórnað því hvaða upplýsingar verða á vegi okkar.

Við gætum til dæmis verið stödd í matarboði þegar vinkona okkar segir frá því hvernig kunnur listamaður beitti hana andlegu ofbeldi í samskiptum þeirra, eða við heyrum óvart fréttatilkynningu í útvarpinu, einn sunnudagsmorguninn, um ofbeldi sem þekktur leikari beitti maka sinn. Að sama skapi geta þó fréttir um listamann aukið ánægju okkar á verki — við gætum til dæmis komist á snoðir um femíniskan aktívisma listamanns eða þá lært um það mótlæti sem listamaðurinn sigraðist á, til að koma list sinni á framfæri, þrátt fyrir að vera mismunað af ríkjandi valdaelítu.

En segjum sem svo að einstaklingur komist hjá því að afla sér einhverra upplýsinga um listamann eða listaverk hans, gæti sá einstaklingur upplifað listaverkið á tæran máta? Væri upplifun hans af verkinu ekki alltaf mótuð af hans eigin lífsreynslu eða þá kyni, stétt, aldri, fjölskylduhögum, samskiptum við annað fólk eða út frá þeim smekk sem hann hefur myndað sér á bókum, kvikmyndum eða öðrum listaverkum? Það er víst að upplifun einstaklingsins verður aldrei tær. Það er ekki hægt að aðskilja listina frá neinu eða neinum.

Í vissum verkum reynist okkur ef til vill auðveldara að aðskilja utanaðkomandi upplýsingar frá verkinu sjálfu, einfaldlega því verkið minnir okkur ekki sjálfkrafa á listamanninn.

Í öðrum tilfellum getur aðskilnaðurinn þó reynst erfiðari þar sem efni verksins ber með sér skýrari áminningu um listamannninn og þá, ef svo á við, ósiðferðilegar gjörðir hans. Tökum dæmi um tvo tónlistarmenn: annar er poppstjarna sem hefur verið ákærður fyrir kynferðisafbrot og semur texta um greddu og fýsnir sínar, en hinn er klassískt tónskáld sem sakaður hefur verið um heimilisofbeldi án þess að tónsmíði hans gefi það til kynna.

Áminning um gjörðir listamannsins gæti því verið sterkari í list poppstjörnunnar en tónskáldsins þótt þeir hafi báðir verið ákærðir fyrir saknæmt brot.

En af hverju þurfum við að pæla í þessu? Málið er að það er mikilvægt að velta fyrir sér afstöðu okkar gagnvart list og listamönnum, þá sérstaklega ef við erum að hugsa um að fjárfesta í verki eftir listamann sem hefur gerst uppvís um ósiðferðilegt athæfi.

Því er nauðsynlegt, í umræðu okkar um að aðskilja listamanninn og listina, að líta til þess hver það er sem hagnast fjárhagslega á því að við veitum vissum verkum athygli.

Því þó við reynum eftir bestu getu að aðskilja lisaverk og ósiðferðilegar gjörðir listamanns sem við viljum kaupa og njóta, þá verður ekki komist hjá þeirri staðreynd að þrátt fyrir huglægan aðskilnað okkar á verki og listamanni er það enn listamaðurinn sem græðir fjárhagslega á athygli okkar. Við þurfum nefnilega að muna að athygli okkar skiptir máli og að fólk, sem hefur ákvörðunarvald í því hvaða tónlist er gefin út eða þá hvaða kvikmynd er framleidd, fylgist með því hvert athygli okkar beinist og tekur fjárhagslegar ákvarðanir út frá henni.

Þessi hugsun á einnig við hvað varðar listamenn sem eru dauðir og græða því ekki persónulega á athygli okkar. Þrátt fyrir að fjárhagslegur ávinningur þeirra listamanna sé enginn erum við engu að síður að senda skilaboð til ríkjandi valdastrúktúrs um að við séum viljug til að neyta, kaupa og njóta efnis eftir listamenn sem haga sér á ósiðferðilegan máta. Þegar við höldum áfram að styðja og kaupa verk listamann sem gerst hefur sekur um ósiðferðilegar gjörðir sendum við þau skilaboð að það sé bara allt í lagi að haga sér ósiðferðilega, eins lengi og afurð listamannsins er góð. Og þá verðum við að muna að athygli okkar hefur áhrif á það sem er framleitt í dag sem og í framtíðinni.

En hvað getum við gert? Er í lagi að njóta listaverks og samþykkja jákvæð hrif þess ef við munum að halda til hliðsjónar öllum þeim neikvæðu upplýsingum sem fylgja því? Eða ættum við að taka til róttækra aðgerða og hreinsa söfn, sögubækur, leikskrár og kvikmyndarúllur af öllum áminningum um siðferðislega vafasama listamenn og verk þeirra? Væri það einu sinni hægt? Myndi það kannski einungis þjóna þeim tilgangi að friða okkar eigin samvisku, fremur en að valdefla þolendur ósiðferðilegrar hegðunar listamannanna?

Þegar einhver stígur af hugrekki fram á sjónarsviðið og segir reynslusögu sína af ósiðferðilegri framkomu listamanns eða þegar slælegar upplýsingar koma fram í rannsóknum á listamanni eða í gegnum fréttaveitur — er engin leið til að loka aftur á þær upplýsingar.

Upplýsingarnar hafa komið fram og munu hafa áhrif á upplifun okkar af vissum verkum. Fólk hefur rétt á því að deila reynslu sinni og áföllum og það er einnig okkar réttur að hlusta á frásagnir annarra og meta út frá því hvaða áhrif þær hafa á upplifun okkar af list. Við þurfum að vera gagnrýnin á það hvernig og hvort við leyfum vissum upplýsingum að hafa áhrif á upplifun okkar. Hvert tilfelli er öðruvísi og hvert einasta mál hefur að geyma mismunandi anga sem taka þarf tillit til. Brot geta verið af mismunandi stærðargráðum og haft mismunandi afleiðingar fyrir þolendur.

Það er víst að vondir einstaklingar geta skapað góða list en út frá þeirri fullyrðingu verðum við að muna mikilvægi þess að uppgötvun þeirra ósiðferðilegra gjörða er listamaður framdi þarf að hafa afleiðingar. Listamaður sem gerst hefur sekur um ósiðferðilegar gjörðir getur ekki búist við því að fólk vilji ekki aðskilja list hans frá verkum hans. Fölskva mun slá á verk hans og upplifun fólks af því mun litast af nýjum upplýsingunum.

Í slíkum aðstæðum undirstrikast mikilvægi þess að við tökum ábyrgð á hlutverki okkar sem neytendur. Við þurfum að vera vör um þær upplýsingar sem við höfum aðgengi að og meðtaka þær á gagnrýninn hátt.

Það að reyna að aðskilja listamann frá list sinni í dag er að firra sig ábyrgð í því hlutverki sem við gegnum.

Það erum við sem neytum og kaupum og þar með höfum við val til að sýna hvort við viljum styðja við ríkjandi menningu þar sem listamenn hafa í sífellu komist upp með að haga sér á ósiðferðilegan máta án þess að list þeirra eða frægð beri skaða af. Ef okkur er annt um það hvaða list er sköpuð og framleidd verðum við að vera meðvituð um það hverju við veitum athygli.

Fleiri greinar eftir Steinunni Ólínu Hafliðadóttur.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Að virða fyrir sér virðingu

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Íslenskar listakonur: Þær voru svo margar ― þetta voru ekkert bara þessir karlar

næsta grein
Kynbundið ofbeldi: Birtingarmyndir hlutgervingar kvenna


Lesa meira um...

Er hægt að aðskilja list frá listamanni?