13. ágúst 2020

Þegar við vorum beðnar um að skrifa stutta grein fyrir þessa útgáfu um „nauðgunarmenningu“ frá sjónarhorni kvenna af erlendum uppruna sem búsettar eru á Íslandi, vildum við nota tækifærið til að útskýra hinar margvíslegu tegundir varnarleysis og kúgunar sem konur af erlendum uppruna upplifa.

Konur sem ákveða að taka sig til og flytja hinumegin á hnöttinn til Íslands ættu ekki að vera álitnar varnarlausar þar sem sú ákvörðun krefst í sjálfri sér hugrekkis og þols. Hins vegar eru hlutir sem geta átt sér stað eftir komuna til Íslands sem gera okkur berskjaldaðar.

Ísland er talið fremst meðal jafningja þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Raunin hefur þó sýnt að konur af erlendum uppruna upplifa ekki alltaf sama jafnrétti og íslenskar kynsystur okkar. Í mörgum tilfellum er okkur ekki veitt næg vernd frá kynbundnu ofbeldi og jafnvel lagalegri mismunun, hvort sem það er á vinnustöðum eða innan ýmissa stofnanna sem eiga að stuðla að jafnrétti og öryggi.

Konur af erlendum uppruna geta upplifað kynbundið ofbeldi og mismunun á ýmsum vettvangi; innan fjölskyldna og menningarsamfélaga, á vinnustöðum eða almennt í samfélaginu. Við komumst að því við vinnu okkar í kring um #MeToo-sögurnar árið 2018 að gerendur ofbeldis eru meðal annars fólk sem er okkur náið, kunningjar, vinnuveitendur, vinnufélagar og fólk sem er okkur alveg ókunnugt. Við komumst einnig að því að varnarleysi kvenna gagnvart ofbeldi er oft aukið fyrir tilstilli stofnana innan stjórnkerfisins. Allt of oft hafa konur af erlendum uppruna látið í ljós að við höfum upplifað færri valmöguleika um hvernig við getum dvalið hér og dafnað.

Konur upplifa vandamál tengd mismunun og útilokun meðan þær reyna að aðlagast nýju lífi á Íslandi. Tungumálamismunun er kraftmikið tól sem margar konur segja að sé notað til að halda þeim á lægri þrepum samfélagsins þar sem þeim eru ekki veitt jöfn tækifæri til frekari frama á vinnumarkaði og til dæmis íslensku kynsystur okkar. Þessi sama tungumálamismunun hefur einnig verið notuð í tilfellum þar sem misnotkunin felur í sér að halda sumum okkar óupplýstum eða gefa okkur misvísandi upplýsingar um réttindi okkar.


Konur sem koma til okkar hjá W.O.M.E.N. í leit að stuðningi eða ráðgjöf lýsa upplifunum af mismunun sem hefur áhrif á tilfinningu þeirra fyrir eigin mikilvægi og valdeflingu. Á meðal frásagna frá #MeToo-byltingunni voru mörg tilfelli þar sem konum var haldið í stöðu þar sem þær upplifðu sig óverðugar og valdalausar. Tilfelli þar sem þær voru neyddar til að vinna og búa við aðstæður sem þær hefðu að öðrum kosti aldrei samþykkt. Til dæmis sögðu konur, sem var útvegað íbúðarhúsnæði í gegnum vinnu sína, frá berskjöldun sinni gagnvart mismunun, kynferðisofbeldi, öðru ofbeldi og jafnvel mansali þar sem búist var við að þær „borguðu“ fyrir húsnæðið með kynlífi. 

Auk þess standa konur af erlendum uppruna frammi fyrir fjárhagslegu óöryggi sem gæti orðið til þess að þær verði fyrir ofbeldi. Þær eru oft ráðnar í störf sem krefjast engrar sérþekkingar, eru fyrir neðan menntun þeirra og getu, illa borguð og óstöðug að því leyti að þau bjóða litla samfélagslega eða lagalega vernd. Nýleg rannsókn á ferðaþjónustu varpaði ljósi á upplýsingar um erlent starfsfólk, mikið af því konur, sem vinna óregluleg störf og stundum án viðunandi upplýsinga um réttindi sín. Rannsóknin lýsir tilfellum þar sem konur fengu ekki borgað og farið var fram hjá samningsbundum réttindum þeirra sem eiga sér stoð í íslenskum lögum. Slíkt vinnuumhverfi er mjög óöruggt og berskjaldar konur fyrir mismunun og jafnvel ofbeldi af hálfu vinnuveitenda.

Fyrir konur af erlendum uppruna sem eru þolendur ofbeldis er óöryggi þeirra aukið vegna skorts á lögbundinni vernd. Allt of oft stafar þessi skortur af lagalegri stöðu konunnar sem innflytjanda.

Til dæmis eru konur sem eru með dvalar- eða atvinnuleyfi sem tengist maka þeirra eða atvinnuveitanda oft hræddar við að biðja lögreglu, útlendingaeftirlit eða heilbrigðisyfirvöld um aðstoð af ótta við að verða sendar úr landi. 

Berskjöldun kvenna felst oft í því að þær hafa ýmist óviðunandi eða enga þekkingu á réttindum sínum. Konur hafa nálgast samtökin okkar í leit að aðstoð eða stuðningi til dæmis; þegar þær reyna að yfirgefa ofbeldissamband eða vinnustað, þegar þær ganga í gegnum skilnað eða eru í forsjárbaráttu, þegar þær borga skatta eða fást við húsnæðisvandræði. Í mörgum tilfellum höfum við komist að því að þessum konum er ekki boðið upp á túlkaþjónustu, þeim eru veittar upplýsingar sem þær skilja ekki eða eru einfaldlega rangar. Þessar konur eru í aðstæðum sem krefjast mikils styrks en eru skildar eftir í varnarlausri stöðu þar sem þær eru einangraðar og þeim ógnað. Það er okkur þungbært að greina frá því að allt of oft halda konur halda kyrru fyrir eða snúa til baka í ofbeldisfullar aðstæður sem þær hafa reynt að forðast.


Berskjöldunartilfinning kvenna magnast upp í gegnum kyn- og kynþáttabundna mismunun. Oft verða konur einangraðar, sem gerir það að verkum að þær trúa ekki að ofbeldið eða mismununin gegn þeim sé viðurkennd eða tekið alvarlega.

Margar konur hafa lýst ofbeldi af hendi maka sem var aldrei tekið alvarlega af lögreglu, heilbrigðisstarfsfólki, skólastjórnendum og/eða barnaverndaryfirvöldum. Konurnar útskýra að oft sé mismununin og skorturinn á stuðningi sem þær upplifa rakin til „menningarlegs“ mismunar. Stofnanabundnir og kerfislægir fordómar geta komið í veg fyrir að yfirvöld átti sig á, og taki alvarlega, hinar mismunandi birtingarmyndir kynþáttabundins og kynbundins ofbeldis sem konur af erlendum uppruna verða fyrir. Þetta er vandamál sem er ekki einskorðað við Ísland en þetta er eitthvað sem við á Íslandi getum gert eitthvað í. 

Öll atriðin sem við nefnum hér eru dæmi um hvernig konur verða berskjaldaðar og geta auðveldlega orðið að fórnarlömbum ýmiss konar ofbeldis, áreitis og kynferðisofbeldis. Ekki því þær eru varnarlausar að eðlisfari heldur af því þær lifa í þeirri trú að leiðir til verndar og stuðnings séu takmarkaðar. Hvað getum við gert til að breyta þessu?

Því meira sem við hlustum á konur af erlendum uppruna í umræðum um hvernig við sjáum jafnrétti kynjanna og viðurkenningu á „nauðgunarmenningu“, því betri verðum við í að koma í veg fyrir að þessir glæpir verði framdir.

Þegar við sem samfélag metum raunverulega raddir og hugmyndir kvenna af erlendum uppruna og nýtum samtímis styrk þeirra og ákveðni, munum við skapa kraftmeira, opnara og raunverulegra jafnrétti hér á Íslandi. 




— — —

1 Halldórsdóttir og  Júlíusdóttir. 2020. „Aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustuSjónarhorn stéttarfélaga og starfsfólks.“ Rannsóknamiðstöð ferðamála sótt 20.07.2020 af http://www.rmf.is/static/research/files/rmf_adstaedurerlendsstarfsfolks_2020_lokapdf

— — —

Nichole Leigh Mosty er formaður og stjórnarmeðlimur W.O.M.E.N, samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Hún er með B.Ed í leikskólakennslufræði og M.Ed frá Háskóla Íslands í kennslu- og uppeldisfræði, með áherslu á bókmenntir og tungumál.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Þú ert ekki aktívisti: Frá íslenskri konu sem ,,lítur ekki út eins og íslensk kona“

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Kynbundið ofbeldi: Birtingarmyndir hlutgervingar kvenna

næsta grein
Exótískur dans: Þitt eigið kynferðislega tjáningarfrelsi


Lesa meira um...

Hvernig verður man berskjölduð? Hinar margvíslegu tegundir varnarleysis og kúgunar sem konur af erlendum uppruna upplifa.