4. mars 2019

— TW —

Þegar þema Vía (áður Flóru) um virðingu birtist höfundi var hlutgerving kvenna það fyrsta sem kom upp í hugann. Hlutgerving kvenna og virðing tengjast með þeim hætti að það væri að öllum líkindum ekki komið fram við konur eins og hluti ef raunveruleg virðing væri borin fyrir þeim. Öll kyn geta verið hlutgerð, líkt og sést oft í auglýsingum sem dæmi, en svo virðist sem konur séu í meira mæli hlutgerðar en önnur kyn.

Auk þess er hlutgerving kvenna, þá sérstaklega í tengingu við kynbundið ofbeldi, mjög inngróin í samfélagslegri hegðun — #metoo-hreyfingin, sem er enn að eiga sér stað, sýnir meðal annars hversu útbreitt og normalíserað kynbundið ofbeldi hefur verið í gegnum tíðina og er enn þann dag í dag.

Markmið greinarinnar er að sýna fram á hinar ýmsu birtingarmyndir hlutgervingar kvenna í samfélaginu og tengsl hennar við kynbundið ofbeldi, annars vegar í fréttamiðlum landsins og hins vegar í dómaframkvæmd á Íslandi. Taka ber fram að öll kyn geta verið hlutgerð og jafnframt verið gerendur og þolendur í málum er varða kynbundið ofbeldi.

hlutgerving

FRÉTTAMIÐLAR

Hér verða tekin nokkur dæmi um fréttir er varða hlutgervingu kvenna í tengslum við kynbundið ofbeldi í þeim tilgangi að sýna rauðan þráð sem liggur í gegnum fréttirnar og sýnir samfélagslega hegðun sem getur aðeins verið skilgreind sem algjört virðingarleysi gagnvart konum.

Á fréttamiðlinum Vísi birtist frétt 25. apríl 2018, með fyrirsögnina: Kynferðisleg gremja kann að hafa plagað árásarmanninn í Toronto. Um er að ræða karl sem ók á gangandi vegfarendur með þeim afleiðingum að tíu þeirra létu lífið. Hann var hluti af svokallaðri Incel hreyfingu, þar sem karlar safnast saman og telja að það halli á þá með ósanngjörnum hætti því þeir séu „[…] vandræðalegir og ómyndarlegir gagnkynhneigðir karlmenn“.1

Hreyfingin trúir því jafnframt að heimurinn skuldi þeim kynlíf, réttara sagt að konur skuldi þeim kynlíf.

Umræddur árásarmaður tilkynnti stuttlega fyrir hryðjuverkið að árásin hvíldi á öllum þeim konur sem hefðu hafnað honum.

Í hinu umtalaða Klaustursmáli haustið 2018 greindu fréttamiðlar frá því hvernig lýðræðiskjörnir þingmenn líktu þingkonu við skrokk sem typpið á karli „dugði loksins í“. Tal þeirra um að stunda kynlíf með konunni hljóðaði að sama skapi líkt og hún skuldaði þeim kynlíf eða þá að hennar einu not væru að uppfylla þarfir þessara karla.2

Á fréttamiðlinum mbl.is birtist frétt þann 17. febrúar 2019 með fyrirsögninni: Áttu að vera „til reiðu“ fyrir presta. Þar er gerð grein fyrir skýrslu Mauru O‘Donoghue, frá árinu 1994, sem gerir grein fyrir því hvernig nunnur á tíunda áratugnum í Afríku áttu að vera til staðar til að uppfylla kynferðislegar langanir presta. Prestarnir vildu ekki stunda kynlíf með heimakonum af ótta við að smitast af HIV, sem var í útbreiðslu á umræddum tíma. Þar af leiðandi var það talið nauðsynlegt að prestarnir hefðu aðgang að nunnunum til að uppfylla þarfir sínar.3

DÓMAFRAMKVÆMD

Nauðgun og önnur brot sem falla undir kynbundið ofbeldi sýna algjört virðingarleysi gagnvart þolanda, sama hvaða kyn á í hlut — en hér verður einungis gerð grein fyrir kynbundnu ofbeldi gegn konum í samræmi við efni greinarinnar.

Virðingarleysi og hlutgerving kvenna eru áberandi í dómum um kynbundið ofbeldi. Þegar litið er yfir flesta, ef ekki alla dóma um kynbundið ofbeldi, liggur rauður þráður í gegnum þá sem varpar ljósi á gífurlegt virðingarleysi af hendi karla gegn konum, sem svo spilar inn í hlutgervingu kvenna. Hlutgerving kvenna tengist kynbundnu ofbeldi að því leyti að karlar sem beita kynbundnu ofbeldi eru að koma fram við konur, ekki sem einstaklinga eða með virðingu, heldur fremur sem kjötstykki eða hlut sem þeir nota til að uppfylla þarfir sínar óháð vilja þeirra kvenna sem þeir brjóta gegn.

Hlutgerving birtist einnig í hinni svokölluðu klámvæðingu. Með hugtakinu klámvæðing, er átt við þegar einkenni eða hegðun sem birtist í klámi kemur fram í daglegu lífi eða menningu sem viðurkennt og jafnvel dáð fyrirbæri — í þeim skilningi að hegðun í klámi verði eins konar viðmið þegar kemur til dæmis að kynlífi.4

Breyting hefur átt sér stað í kynlífshegðun einstaklinga með klámvæðingunni, sérstaklega meðal yngri einstaklinga.5 Það fer varla á milli mála að virðingarleysi gagnvart konum er áberandi þegar kemur að klámi, einnig að konur séu í miklum mæli hlutgerðar í klámi. Í rannsókninni Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála og tillögur, eftir Hildi Fjólu Antonsdóttur, kemur fram í viðtali við ákæranda að honum þætti virðingarleysi gagnvart þolendum sérstaklega áberandi hjá ungum gerendum hvað varðar nauðgunarmál — líkt og gerendur kæmu fram við þolendur sem kjötstykki fremur en manneskjur.

Margir viðmælendanna í rannsókninni, sem voru aðilar sem vinna með og koma að nauðgunarmálum, töldu að klámvæðingin væri helsta ástæða umræddrar breytingar á kynlífshegðun einstaklinga.6

Það má velta því fyrir sér hvort kynbundið ofbeldi og hlutgerving kvenna væru jafn algeng vandamál og raun ber vitni ef konur væru séðar sem manneskjur og virðing fyrir þeim væri til staðar.

Það er sama hvert er litið — í hverjum krók og kima samfélagsins er hægt að finna og varpa ljósi á virðingarleysi gagnvart konum og hlutgervinguna sem þær þurfa að þola. Virðingarleysi getur birst á vinnustöðum, í opinberum rýmum og í hversdagslegu lífi. Oftar en ekki kemur í ljós ítrekað virðingarleysi gagnvart konum þegar atvik eru skoðuð í stærra samhengi. Þessi örfáu ofangreindu dæmi um birtingarmyndir hlutgervingar kvenna eru aðeins brot af heildarmyndinni, en þau gefa einhverja sýn á þann sorglega veruleika sem við búum í.

Virðingarleysi er rauði þráðurinn í hlutgervingu kvenna. Þetta er sannleikur sem horfast þarf í augu við — því aðeins ef vandamál er viðurkennt er hægt að leysa það. Samfélagsleg hegðun þarf að breytast, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heim og halda verður umræðunni áfram, því að öðru leyti mun þetta gleymast og að lokum verða grafið enn á ný.— — —

1 Stefán Ó. Jónsson: „Kynferðisleg gremja kann að hafa plagað árásarmanninn“, http://www.visir.is.

2 „Þarna kom loksins skrokkur sem typpið á mér dugði í“ http://stundin.is.

3 „Áttu að vera „til reiðu“ fyrir presta“, http://www.mbl.is.

4 Gender and Media. Representing, Producing, Consuming, bls. 13. Tonny Krijnen og Sofie Van Bauwel.

5 Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála og tillögur, bls. 13. Hildur Fjóla Antonsdóttir, EDDA — öndvegissetur í samvinnu við innanríkisráðuneytið, 2014.

6 Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála og tillögur, bls. 13. Hildur Fjóla Antonsdóttir, EDDA — öndvegissetur í samvinnu við innanríkisráðuneytið, 2014.

Fleiri greinar eftir Ingibjörgu Ruth Gulin.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Er hægt að aðskilja list frá listamanni?

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Sóley Tómasdóttir – Muna: Loka gluggum og sleppa áreitni!

næsta grein
Kvenleiki: Vald í nýju bleiku ljósi


Lesa meira um...

Kynbundið ofbeldi: Birtingarmyndir hlutgervingar kvenna