Í nútíma samfélagi er feitt fólk jaðarsettur hópur sem verður fyrir kerfisbundinni mismunun. Rannsóknir sl. sex áratuga hafa leitt það í ljós. Þegar við sjáum feita manneskju hefur samfélagið skilyrt okkur til að dæma hana út frá staðalmyndum s.s. að hún sé löt, gráðug, óaðlaðandi, heimsk og siðferðislega óæðri. Umhverfið ýtir undir þessar staðalmyndir með því að sýna feitt fólk í þessu neikvæða ljósi í fjölmiðlum, oft á þann hátt að það vekji upp viðbjóðstilfinningu og reiði meðal neytenda efnisins. Eftir að Alþjóða Heilbrigðisstofnun skilgreindi offitu sem faraldur árið 2000, varð hinn feiti líkami einnig byrði á heilbrigðiskerfinu og samfélaginu öllu. Feitt fólk er hið fullkomna dæmi um hinn óhlýðna borgara sem mætir útskúfun samfélagsins fyrir meinta óhlýðni. Samfélagsleg orðræða þess eðlis dynur á okkur úr öllum áttum, alla daga og hefur gert í áratugi.
Og við vitum að þegar jaðarsettur hópur verður fyrir kerfisbundnu ofbeldi er gatan greið fyrir ofbeldi af öðrum tegundum svo sem ofbeldi í nánum samböndum og kynferðisofbeldi.
Lítið sem ekkert hefur þó verið rætt um feitt fólk og einstakar birtingarmyndir ofbeldis gagnvart þeim. Ein af ástæðum þess er að innræting fitufordóma á sér stað í miklum mæli meðal þolenda ofbeldisins. Feitu fólki hefur verið talin trú um að það sé síður mennskt, það eigi ekki tilkall til sömu virðingar og annað fólk og að það geti einungis sjálfu sér um kennt. Þannig hefur gerendum tekist að þagga niður í feitum þolendum sínum með því að beita samfélaginu öllu og viðhorfi þess fyrir sig. Jaðarsetning vegna holdafars verkar sem aukalag á það kynbundna ofbeldi sem konur verða fyrir rétt eins og þegar kemur að jaðarsetningu á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, fötlunar, uppruna, stéttar, kynþáttar og húðlitar.
Feitar konur í nánum samböndum verða oft fyrir líkamssmánun af hálfu maka sinna. Andlega ofbeldið lýsir sér oft þannig að þær eru kallaðar feitar og ógeðslegar og að enginn annar gæti mögulega viljað þær vegna þess. Það getur haft þau áhrif að nær ógerlegt er fyrir feitar konur að flýja ofbeldissambandið enda er því miður sannleikskorn í orðum gerandans. Samfélagið lítur svo sannarlega á feitar konur sem ógeðslegar og óaðlaðandi. Oft reyna gerendur einnig að stjórna fæðuinntöku og hreyfingu maka sinna í því skyni að aga líkama þeirra eftir þeirra höfði og tala opinskátt um kynferðislega aðlöðun sína að konum sem eru nær „fyrirmyndar”-líkama samfélagsins.
Ástæðan fyrir því að þessi tegund ofbeldis er jafn falin og raun ber vitni er sú að það er samfélagslega samþykkt að telja ofbeldið ,,hjálplegt”.
Það er auðvelt fyrir gerandann að smána líkama feits þolanda síns þegar samfélagið viðurkennir ekki bara smánunina heldur fagnar henni því hún gæti haft þau áhrif að hinn feiti einstaklingur „taki sig loksins á”. Í skýrslu Kvennaathvarfsins frá árinu 2018 um líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis og persónuleikaeinkenni ofbeldismanna kom fram að gerendur hefðu notað holdafar þolendanna sem afsökun fyrir ofbeldinu.
Þegar kemur að kynferðisofbeldi sjáum við sömu þemu hjá feitum konum og fötluðum konum. Feitar konur hafa, rétt eins og fatlaðar, verið afkynjaðar af samfélaginu. Á sama tíma og þær eru álitnar viðbjóðslegar og fráhrindandi hafa þær einnig verið blætis- og hlutgerðar og má sjá merki þess í ákveðnum tegundum klámefnis sem einblínir á feitar konur. Þetta hefur m.a. þær afleiðingar að feitum þolendum kynferðisofbeldis er síður trúað því þær eru álitnar of óaðlaðandi til að nokkur myndi vilja stunda kynlíf með þeim.
Í þeim fáu tilfellum sem þeim er trúað, mæta þær því viðmóti að þær eigi að telja sig heppnar að einhver skuli hafa álitið þær nógu aðlaðandi til að nauðga þeim.
Það er því ekki erfitt að ímynda sér af hverju þær eiga sérstaklega erfitt með að stíga fram. Hér kemur einnig stofnanabundið ofbeldi inn í, en lögregla og réttarkerfið er ólíklegra til að taka kærur þessara þolenda alvarlega og fylgja þeim eftir. Hér verður að taka fram að kynferðisofbeldi snýst ekki um kynlíf né kynferðislega aðlöðun heldur vald gerandans yfir þolandanum og því eru jaðarsettir hópar sérstaklega viðkvæmir fyrir kynferðisofbeldi.
Önnur tegund kynferðisofbeldis sem feitar konur verða fyrir kallast „hogging” á ensku. Um er að ræða skipulagt kynferðisofbeldi þar sem hópar karlmanna í skemmtanaleit sækja bari eða skemmtanir í þeim eina tilgangi að fá feita konu til að stunda kynlíf með sér, og gera þeir jafnvel veðmál um hver geti „náð“ feitustu konunni. „Kynlífið” sjálft einkennist svo af því að þeir smána og niðra þolandann á meðan á því stendur. Í viðtölum sem framkvæmd hafa verið með gerendum þesskonar ofbeldis hefur komið fram að þeir deili síðan sögum sínum eða taka kynlífið upp á myndband, að konunni óafvitandi, og sýna vinum sínum til að fá virðingu meðal þeirra.
Sá sem getur sýnt fram á að hafa sofið hjá feitustu konunni eða að hafa komið verst fram við hana vinnur, stundum peningaverðlaun.
Hogging er notað af hópum karlmanna til að styrkja tengsl sín og nánd en gerendur tala um þessa tegund ofbeldis sem tengslamyndandi upplifun sín á milli. Ein birtingarmynd hogging er kennd við íþróttina ródeó og vil ég vara eindregið við lýsingum sem hér á eftir koma. Á það við um þegar gerandinn fer heim með feitri konu. Við fyrstu sýn lítur út fyrir að um sé hefðbundið kynlíf að ræða. Hann bindur hana á höndum og fótum við rúmið með hennar leyfi. Hann byrjar síðan að stunda kynlíf með henni aftan frá en hoppar síðan óvænt á bak konunnar, kallar síðan á vini sína sem eru yfirleitt í felum nálægt og reynir að halda sér á baki konunnar meðan hún reynir að losa sig. Á meðan standa vinir hans hjá, hlæja og taka myndir. Þeir karlmenn sem taka þátt í þessum athöfnum réttlæta gjörðir sínar með þeirri röksemdarfærslu að feitar konur séu útlitslega afbrigðilegar og þær eigi meðferðina því skilið. Þær eru taldar vera til í hvað sem er og þær séu örvæntingarfullar eftir kynlífi sökum útlitslegs afbrigðileika þeirra.
Lítið hefur heyrst frá þolendum þessa fitufordómafulla kynferðisofbeldis. Það er ekki vegna þess að þær eru ekki til heldur er nærri óyfirstíganlegt að stíga fram með reynslu sína í því fituhatandi samfélagi sem við búum í. Fitufordómar, afmennskun feits fólks og ljót framkoma er samfélagslega samþykkt og réttlætt. Okkur hefur ekki tekist að skapa umhverfi sem veitir feitum konum pláss og leyfi til að tjá sig um reynslu sína. Þolendurnir eru þarna úti. Gerendurnir eru þarna úti líka, við vitum það því þeir hafa verið óhræddir við að stíga fram og taka þátt í viðtölum við rannsakendur og blaðafólk um ofbeldið. Þeim finnst það bara fyndið.
Við verðum sem samfélag að samþykkja og viðurkenna feitt fólk, og sérstaklega feitar konur, sem jaðarsettan hóp sem þarf að hlúa sérstaklega að.
Ofbeldi gagnvart þessum hóp tekur á sig mynd sem ekki sést meðal annarra jaðarsettra hópa og við munum aldrei ná að rífa feðraveldið og nauðgunarmenninguna upp með rótum án þess að þekkja allar birtingarmyndirnar, hjálpa þolendum að bera kennsl á ofbeldið sem þeir hafa orðið fyrir og halda gerendum ábyrgum fyrir gjörðum sínum.
Tara Margrét Vilhjálmsdóttir er félagsráðgjafa og forman Samtaka um líkamsvirðingu.