13. ágúst 2020

Ofbeldi á aldrei rétt á sér og er aldrei þolendum að kenna, eða hvað?

Svo virðist sem samfélagið sé ekki á sama máli. Þær konur sem vilja dansa í erótískum stíl, verða fyrir sí endurteknum fordómum og áreitni fyrir það eitt að kjósa hvernig þær vilja tjá sig. Við viljum fara ofan í saumana á því hvers vegna okkur finnst nauðsynlegt að hefja umræðu um fordóma í garð fólks sem vill tjá sig á kynferðislegan hátt, í þeirri von um að opna augu samfélagsins og fá það til að sjá málefnið í réttu ljósi; sem frelsi til þess að fá að velja án þess að verða fyrir fordómum og áreitni. Þar sem við erum súlu- og exótískir dansarar þá viljum við aðeins fræða samfélagið með því að segja frá okkar upplifunum, sem og að lýsa því ofbeldi og áreitni sem við verðum fyrir. 

Dans í exótískum stíl (e. exotic dance) einblínir á kynþokkafullar hreyfingar á strippara hælum (e. stripper heels) og getur innihaldið súlu, stól eða einungis gólfið, svo eitthvað sé nefnt. Dansarinn getur verið í mismiklum fatnaði og snýst stíllinn ekkert endilega um að fjarlægja hann af sér. Nektardans (e. stripping) snýst allra helst um að sýna líkamann með því að fjarlæga af sér fatnað með kynþokkafullum hreyfingum og strípidaður (e. striptease) leggur meira upp úr því að daðra í kringum það. Sjá má strípidaður í listforminu Burlesque þar sem daður, stríðni og húmor eru í lykilhlutverki. Með súlu dansinum (e. pole dancing) er hægt að samtvinna hvaða dansform sem er með því að nota súlu. Dansinn getur verið kynþokkafullur, einblínt einungis á íþróttalegu hliðina eða bæði.

Það að tileinka sér þessi dansform krefst aga, metnaðar og hæfni til að ná almennilegum tökum á því og má rekja uppruna þeirra allra til nektardansins. 

Við sem kjósum að tjá okkur á eftirfarandi hátt verðum því miður fyrir alls kyns fordómum og áreitni sem rekja má til kynlífsiðnaðarins (e. sex work). Mikil skömm ríkir yfir konum sem starfa í iðnaðinum og fyrir það eitt að hafa hvatir eða vilja til að tjá sig kynferðislega. Sem súlu- og exótískir dansarar erum við að upplifa ákveðna fordóma og áreitni frá almenningi með því sýna á sviði, sem og annars staðar, þar með talið óviðeigandi athugasemdir um líkama okkar, að við höfum enga sjálfsvirðingu, fyrrum makar að bæla niður hvatir okkar og vilja til að dansa kynferðislega. Við fáum ítrekað þær spurningar hvort við höfum leyfi frá maka til að sýna eða dansa á ákveðinn hátt ásamt því að þurfa að kljást við eltihrella eftir sýningar o.fl. 


Við höfum einnig orðið vitni að því að konur hafa mikinn áhuga og vilja til þess að tjá sig kynferðislega með dansi en þora því ekki. Við höfum tekið eftir því að þær eiga erfitt með að snerta sjálfa sig, horfa á sig í spegli og stirðna í dansi. Við fáum reglulega að heyra það að þær þurfi nú að læra nokkur dansspor til að gleðja maka sinn, oftast nær um karlmann að ræða. Okkur finnst eins og þessi setning sé notuð sem ákveðið „leyfi“ til að fá að tjá sig kynferðislega, eins og að karlmaðurinn hafi eitthvað vald yfir því.

Við viljum taka það fram að þú, sem kona, átt fullann rétt á því að tjá þig kynferðislega og þarft ekki að búa til afsökun eða fá leyfi fyrir því. Ef þú ert í sambandi þar sem þú þarft að fá leyfi fyrir því að tjá þig á ákveðinn hátt, gæti það verið merki um eitruð samskipti sem ber að taka alvarlega.

Þetta á að vera spurning um frelsi til að fá að velja en ekki að gefa frá okkur allt vald til karlmanna. 

Þeir ýmsu fordómar sem við, konur sem kjósum að tjá okkur kynferðislega, þurfum að þola snúast oftast nær um það að við séum athyglisjúkar og leitumst eftir samþykki frá karlmanni. Það að eina ástæða þess að kona kýs að tjá sig kynferðislega sé sú að vilja heilla karlmenn er ekki aðeins fráleit og lítilækkandi, heldur einnig hættulegt og því miður mjög algengt. Til að vitna í nauðgunarmenninguna, gefur þetta hegðunarmynstur í skyn að ef kona sýnir svo lítið sem eitthvað merki um kynferðislega tjáningu við hreyfingu í dansi, í klæðnaði eða við það eitt að vera með píku, þá er hún vísvitandi að sækjast í athygli frá karlmönnum og „því er þá í lagi að áreita hana kynferðislega“.

Við erum að upplifa það að samfélagið hefur litla sem enga samkennd til kvenna sem tjá sig kynferðislega og því eru fordómar og áreitni gagnvart þeim tekinn sem gott og gilt. Að því sögðu, þá þarf samfélagið að taka virkan þátt í að fá fræðslu til endurmenntunar á því sviði. Það geta ýmist orðið til fordómar innan í okkur frá uppeldisárunum út frá skömmum á borð við „svona gera góðar stúlkur ekki“ eða „engin kona með sjálfsvirðingu dansar svona“ og eiga því ekki skilið virðingu eða tilvist innan samfélagsins.

Þegar uppi er staðið má álykta svo að slíkir fordómar snúast um að ávíta konur fyrir það eitt að vilja stjórna eiginn líkama, eða á annan hátt en karlmenn virðast gera.

Þegar fjallað er um fordóma gagnvart exótískum dansi og frelsi til kynferðislegra tjáningar er nauðsynlegt að horfa til uppruna þess, sem eru störf í kynlífsiðnaðinum, þar með talinn nektardansinn. Fordómarnir sem súlu- og exótískir dansarar upplifa er brotabrot af þeirri mismunun sem starfsfólk í kynlífsiðnaðinum verður fyrir á hverjum degi. Kynlífsiðnaðurinn hér á landi er ólöglegur sem setur starfsmenn þess í mikla hættu á að verða fyrir ofbeldi í starfi, ásamt því að gera yfirvöldum erfiðara fyrir að greina tilfelli um mannsal inn í landið. Það ýtir einnig undir fordóma og fær almenning til að sjá erótískt dansform sem eitthvað skítugt og forboðið. 


Við viljum taka það fram að við styðjum fólk sem kýs að starfa í kynlífsiðnaðinum, og eru það þau skilaboð sem okkur finnst vera ábótavant í samfélaginu, að það á að ríkja valfrelsi sem engum ætti að vera mismunað út frá — hvort sem um er að ræða starf í kynlífsiðnaðinum eða ekki. Með því að afnema þau lög, sem varða störf í kynlífsiðnaðinum, hefði það í för með sér öruggara starfsumhverfi, betri vinnukjör og -skilyrði fyrir starfsfólkið, sem að upplifir nú mikla hræðslu í starfi sínu.

Ein okkar hefur starfað sem nektardansari erlendis og langar að greina frá sinni upplifun þar.

Hún nefnir að þessir staðir séu aðallega miðaðir að gagnkynhneigðum karlmönnum og oftast reknir af slíkum.

Þeir ákveða því hvort þú teljist nógu „flott“ til þess að fá að dansa á þeirra stað. Þú græðir lítið á því að dansa einungis á sviðinu og til þess að fá eitthvað út úr vöktunum, neyðist þú til að selja drykki og einkadansa með því að „tæla“ (e. hustle) viðskiptavinina. „Það sem hvatti mig áfram í starfinu var ástríða mín til dansins en á sama tíma ertu að berskjalda þig mjög mikið, sem oft á tíðum leiðir til þess að þú verðir fyrir kynferðislegri áreitni, sem á alls ekki að eiga rétt á sér“.

Þú ert með lítil sem enginn réttindi til að verjast áreiti eða ofbeldi né ert í einhverjum rétti til að tilkynna slíkt. Þú þarft oft að takast á við harðorða fordóma og útskúfun í samfélaginu og við það er verið að senda skýr skilaboð að kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart starfsmönnum í kynlífsiðnaðinum eigi rétt á sér, sem er skelfilegt viðhorf.

Það getur myndast ákveðinn ótti við það að þekkja manneskju sem velur sér starfsframa í kynlífsiðnaðinum, og þá sérstaklega vegna þeirra áhættu sem getur fylgt starfinu. Við viljum því trúa að sá ótti komi frá góðum stað. Okkur finnst, að í stað þess að niðurlægja og útskúfa þeim manneskjum, þá væri réttara að beina orkunni í að breyta lögunum og vinnuaðstæðunum. Spurningin snýr ekki að því hvort kynlífsiðnaðurinn á að eiga rétt á sér eða ekki, því væri skynsamara að horfast í augu við raunveruleikann, að þessi starfstétt er til.

Með því að banna umræddar stéttir er verið að setja viðkvæma hópa samfélagsins í gífurlega hættu, sem neyðast þá til að sinna störfunum á skaðlegan og hættulegan máta.

Okkur langar því að vekja athygli á samtökum sem nefnast Rauða Regnhlífin (e. Red Umbrella Project) sem samanstendur af hópi aðgerðarsinna sem berjast fyrir réttindum þeirra sem starfa í kynlífsiðnaðinum og lagabreytingum. Okkur finnst viðhorf hins almenna borgara gefa til kynna að um sé að ræða svívirðileg störf sem aðeins afbrotafólk kýs að starfa við. Sú sýn er bæði óréttlát og veruleikafirrt sem enginn sannleikur býr á bakvið. Með því að útskúfa starfsfólk í kynlífsiðnaðinum þá er samfélagið að afsala sér þeirri ábyrgð að sjá þau sem einstaklinga með jöfn réttindi og fyndist okkur því skilvirkara að stuðla að jafnrétti og gæta hagsmuna þeirra en að bendla við glæpastarfsemi.


Sjálfar höfum við upplifað hversu valdeflandi og gefandi erótísk dansform er, óháð því hvernig valdaójafnvægi myndast oft á nektardansstöðunum — við erum með fulla stjórn á því hvernig við beitum líkama okkar. Það að vilja tjá sig kynferðislega og líða vel með það er eitt form af sjálfsást. Þetta er þitt ferðalag til að kanna þínar eigin upplifanir og leiðir að kynferðislegri tjáningu og hvernig þú, sem kona, vilt bera þær fram. Ekki láta neinn taka það frá þér.

Dans í exótískum stíl miðast að því að ná valdi yfir eigin líkama og snýst, undir engum kringumstæðum, um það að fullnægja þörfum karlmannsins.

Þetta er þitt frelsi til þess að vera eins og þú vilt vera og koma fram.

Okkur fannst ástæða til að hefja þessa þörfu umræðu og viljum við gjarnan fá athugasemdir hvað málefnið varðar.



— Ef þið viljið afla ykkur frekar upplýsinga um samtök Rauðu Regnhlífarinnar, þá má nálgast þær á Facebook síðunni: https://www.facebook.com/raudaregnhlifin

— Ef þið viljið rýna enn frekar í og fræðast um þá fordóma sem starfskona í kynlífsiðnaðinum á Íslandi verður fyrir þá viljum við vekja athygli á hlaðvarps þættinum “Anton the Escort”: https://open.spotify.com

— Ef þið viljið horfast í augu við frekari fordóma og viðhorf til nektardansara sem og upplifanir þeirra víðsvegar um heiminn þá mælum við með hlaðvarpinu “Yes, a stripper Podcast”: https://open.spotify.com













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Hvernig verður man berskjölduð? Hinar margvíslegu tegundir varnarleysis og kúgunar sem konur af erlendum uppruna upplifa.

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Sequeerity

næsta grein
Kynferðisofbeldi: -Dagur í lífi konu-


Lesa meira um...

Exótískur dans: Þitt eigið kynferðislega tjáningarfrelsi