Kæra 16 ára Donna
Ég ætla að hafa þetta stutt því í minningunni þá varst þú ekkert rosalega þolinmóð.
Mig langar að byrja á því að segja þér að anda.
Ég veit að árið byrjaði ekki vel hjá þér og þú þurftir að kveðja afa Egil sem hafði, og hefur enn, áhrif á það hvernig þú ert sem manneskja.
Það er ótrúlega sárt að kveðja manneskju sem þú lítur svo mikið upp til og elskar.
Ég ætla ekki að skafa ofan af því en þetta verður eitt erfiðasta ár sem þú munt upplifa.
Í dag ert þú 26 ára og á þessum 10 árum ert þú búin að áorka svo miklu!
Á þessum 10 árum hefur þú upplifað margt – mikið af því erfitt en miklu meira af því er yndislegt og gott.
Langþráður draumur þinn að leika í bíómynd varð að veruleika og ekki nóg með það heldur heimsfrumsýndirðu bíómyndina í Suður-Kóreu.
Það tók sinn tíma en þú klárar skólann og færð stúdentshúfuna.
Á þessum 10 árum munt þú ekki bara áorka allt þetta en þú munt líka kynnast því að verða ástfangin og elska með öllu þínu hjarta en mikilvægast af öllu er að þú munt læra að elska sjálfa þig.
Það er samt margt sem hefur ekki breyst eins og t.d. hvað þú hatar að brjóta saman þvott og hvað þú elskar ís mikið þrátt fyrir að vera með mjólkuróþol…
Ef það er eitthvað sem ég vil að þú takir út úr þessu þá er það að njóta þín og hafa trú.
Trú að þú getir allt, trú að þetta verði betra.