Ég verð oft svo reið. Eða kannski frekar eirðarlaus. Sorgmædd. Það er oft svo ósköp ósanngjarnt að vera kona.
Ég er ung kona. Ég upplifi eitthvað form af kynferðislegri áreitni næstum daglega. Þetta er misalvarlegt eftir atvikum en samt alltaf jafn ömurlegt. Út frá þessu endalausa, ónauðsynlega og ótrúlega leiðinlega vandamáli skapaði ég þetta verk.
Á efri hluta verksins safnaði ég fréttafyrirsögnum um kynferðisofbeldi, sem var sorglega auðvelt. Ég setti inn leitarorð á okkar helstu fréttamiðla og það birtist mér hafsjór af atvikum. Á endanum var ég komin með um 200 fyrirsagnir sem ég valdi úr enn stærri súpu af fyrirsögnum um allskonar ofbeldi og ég var ekki búin að fletta lengra aftur í tímann en í maí 2018…
Sú staðreynd er hryllileg út af fyrir sig.
Á neðri parti verksins eru setningar frá sjálfri mér og öðrum stelpum sem voru svo hugrakkar að senda mér. Þetta eru setningar sem sagðar hafa verið við eða um okkur eða við höfum heyrt einhvern segja um aðrar stelpur. Allt frá „viðreynslu“, búningsklefatali, hótunum og áreitni, að setningum sem sagðar voru fyrir, eftir eða á meðan kynferðisofbeldi átti sér stað.
Fyrir miðju er sjálfsmynd. Með henni segi ég það að ÉG og ÉG EIN hef stjórn á mínum eigin líkama. Enginn annar. Ég valdi stellinguna hennar Venusar, sem á tímabili í sögunni var eina konan sem var í lagi að mála án klæða, gyðja frjósemi, þokka og hreinleika. En ég er mín eigin gyðja. Ekki gyðja frjósemi eða hreinleika. Ég er ég og ég er sterk og ég er falleg og það er nóg og það sama á við um allar aðrar konur, þið eruð ykkar eigin gyðjur líka!
Við verðum að muna það því að þetta er raunveruleikinn. Alvöru fyrirsagnir, alvöru setningar, alvöru brotaþolar, alvöru fólk. Maður verður svo ónæmur fyrir öllu þessu ofbeldi því þetta er því miður hversdagslegt. Ný fyrirsögn á hverjum degi, komment um rassinn á þér í vinnunni og einhverjir strákar að tala um einhverja easy, nasty gellu frá Borgarnesi fyrir aftan mann í strætó.