Við lifum á tímum stöðugra breytinga, við erum sífellt að verða opnari fyrir fjölbreytileika og erum í auknum mæli að opna á málefni og ræða hluti sem hingað til hefur ekki þótt við hæfi að tala um.
Fólk er frjálsara gagnvart kynhneigð og kynþáttum, fordómar fara minnkandi og fólk hefur almennt fengið meira frelsi til þess að lifa sínu lífi eftir eigin sannfæringu. Umræða um ofbeldi og áreitni er opnari en áður og þeir sem fyrir því verða hafa loks fengið meira rými til að tjá sig um sína upplifun. Við höfum barist fyrir jafnrétti og miklum framförum hefur verið náð, en það er þó enn langt í land.
Ég hef ríka réttlætiskennd og tók því fagnandi að vera boðið tækifæri til þess að leggja örlítið á vogarskálarnar hvað varðar þá baráttu að uppræta kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. En þegar ég fór að hugsa þetta lengra fékk ég bakþanka, ég passa ekki inn í þær kröfur sem samfélagið gerir til okkar og fékk efasemdir um að mark yrði tekið á mér. En allar skoðanir, fordómar og fáfræði sem eru rótgróin í samfélag okkar haldast óbreytt svo lengi sem enginn stendur upp og talar. Það er á okkar ábyrgð að fræða. Ég ætla ekki að vera í felum. Allar breytingar byrja á einu skrefi.
Ég hef lengi búið við fordóma og niðurlægingu, ég hef í langan tíma ekki passað inn í ramman sem samfélagið hefur mótað og gerir kröfur til. Ég er fíkill og hef undanfarin ár notað vímuefni í æð. Ég hef þar af leiðandi verið útsettari fyrir ofbeldi og áreitni.
Þegar þetta er skrifað hef ég verið án vímuefna í tæplega þrjár vikur og stefni á inniliggjandi meðferð á næstu dögum. Ég hef margoft reynt að ná bata, ég þrái að eiga fallegra líf en það eru meðal annars minningar um ofbeldi sem mér hefur ekki tekist að ýta frá mér sem koma mér alltaf aftur út að nota.
Það er vitað mál að konur og menn sem stríða við þennan sjúkdóm lenda oftar í ofbeldi og oft á tíðum á grófari hátt en þau sem ekki glíma við áfengis- og vímuefnafíkn. Þrátt fyrir það fær okkar rödd sjaldnast að heyrast, en í dag fæ ég tækifæri. Tækifæri til þess að tjá mig og opna á þetta málefni og fyrir það er ég þakklát.
Ég var sautján ára gömul á ferðalagi í Noregi, nánar tiltekið í Lillehammer. Lillehammer er fallegur háskólabær og íbúafjöldi þar er um 28.000 manns. Það þurfti ekki nema einn af þessum 28.000 íbúum til þess að marka sár á sálina mína sem mun líklega fylgja mér að eilífu. Ég kynntist manni og ég taldi hann vera vin minn, við höfðum eytt nokkrum tíma saman og yfirleitt skemmt okkur ágætlega. Hann vann sér inn traust og ég var glöð að vera komin með félaga. Í mínum huga var þetta bara vinskapur. Ég ætlaði mér aldrei að taka samband okkar á næsta stig, en hann var ekki sammála mér, hann vildi eitthvað meira og tók neitun ekki sem svar.
Ég held að tilfinningin sem ég upplifði þegar ég lá grátandi á gólfinu með hann ofan á mér muni fylgja mér lengi. Ég hef lært að lifa með því en sársaukinn verður alltaf til staðar. Þessi maður nauðgaði mér, honum fannst ekkert að því, hann sá ekkert rangt við það sem hann gerði en ég hef borið þetta með mér allar götur síðan.
Ég lá á spítala þessa nótt, ég kom varla upp orði, ég grét í fangi systur minnar og fjölskyldan mín tók næsta flug út til þess að styðja við bakið á mér.
Við tóku yfirheyrslur, læknaskoðanir, lyfjameðferð þar sem gerandinn var smitaður af lifrabólgu, sálfræðitímar og innlagnir á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Það tók mig marga mánuði að ná jafnvægi á ný en með miklum stuðningi og hjálp úr ýmsum áttum tókst mér að fóta mig aftur. Allt þar til að ég fékk bréf heim til Íslands þar sem mér var tjáð að málið yrði fellt niður á þeim grundvelli að ég hafi ekki verið með marbletti og að þetta hefði verið kynlíf án samþykkis en ekki nauðgun.
Það var stuttu eftir þetta sem ég missti tökin, líf mitt snerist fljótlega eingöngu um næsta skammt, mér var sama um allt, mér fannst heimurinn hafa brugðist mér, ég var farin að skaða sjálfa mig nánast daglega og fíkniefnin voru flótti. Loksins fann ég ró, ég þurfti ekki að hugsa, ég fann ekki til, mér leið vel.
Á þessum tíma gat ég að sjálfsögðu ekki ímyndað mér að ég myndi nokkurn tímann standa í þeim sporum sem ég er í í dag. Fíkniefnin brugðust mér fljótlega og ég fann mig skyndilega í heimi þar sem engar reglur gilda.
Í heimi þar sem ofbeldi er partur af daglegu lífi. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef horft upp á ofbeldi og áreitni, ég veit ekki hversu oft ég hef verið beitt ofbeldi og ég veit ekki hversu langan tíma það mun taka eða hvort ég muni jafna mig að fullu en ég ætla mér að læra að lifa með þessari reynslu, ég ætla ekki að leyfa þessum mönnum að skemma meira fyrir mér.
Veruleiki kvenna sem eru með fíknisjúkdóm er eitthvað sem ég mun aldrei geta útskýrt að fullu með orðum. Hér er ég ekki að gera lítið úr því ofbeldi sem karlar verða fyrir en ég get eingöngu talað út frá minni reynslu.
Mín upplifun er sú að konur í þessari stöðu hafa minni rétt til að tjá sig, við erum álitnar hafa minni tilverurétt og þurfum oft að sætta okkur við að sitja undir svívirðingum, áreitni, ofbeldi og niðurlægingu til þess að fá efnin sem við þurfum til að þrauka daginn.
Eftir því sem ég varð veikari, fíknin varð sterkari og líkami minn varð háðari þurfti ég sífellt að ganga lengra til þess að útvega mér efni.
Ég vildi að ég ætti nógu sterk orð til þess að lýsa áhrifunum sem kynferðislegt ofbeldi hefur haft á líf mitt, ég fæ martraðir, ég fæ endurupplifanir, ég græt og ég skelf. Ég held að ég geti sagt með fullnustu að ekkert hafi haft jafn víðtæk áhrif á líf mitt og kynferðislegt ofbeldi. Ég hef fallið aftur og aftur ofan í þá gryfju að byrja að nota fíkniefni til þess að reyna að slökkva á þessum hugsunum.
Daglega brjótast um í mér ótal tilfinningar í garð þeirra manna sem hafa nýtt sér ástand mitt síðustu árin, ég á erfitt með að ná utan um það hvernig fólk getur hugsað svona, ég skil ekki hvað býr að baki. Mér þykir ósanngjarnt að hugsa til þess að líklega muna þeir ekki eftir mér, hvað þá að þetta hafi áhrif á líf þeirra. Menn sem ég hef haldið að ég gæti treyst, jafnvel talið vini mína hafa notfært sér neyðina sem ég var stödd í.
Mér þykir sárt að hugsa til þess hvernig ég hef þurft að sætta mig við ofbeldi, hvernig ég hef oft ekki einu sinni getað neitað sökum of mikillar vímuefnaneyslu. Ég hef kennt sjálfri mér um. Ég hef séð eftir að hafa notað of mikið af efnum, ég hef séð eftir að hafa treyst þeim, ég hef séð eftir því að hafa sett mig inn í aðstæður sem ég hefði jafnvel átt að sjá fyrir að færu illa.
En ég ber ekki ábyrgð á því að einhver ákveði að nýta sér neyðina sem hefur einkennt líf mitt að undanförnu, ég ber ekki ábyrgð á því að fólk ákveði að brjóta á mér. Ég mun þurfa mikla aðstoð sem ég ætla mér að sækja. Í framtíðinni vil ég hjálpa öðrum sem hafa svipaða sögu að segja, ég ætla mér að nýta þessa reynslu til góðs. Ég ætla að standa uppi sem sigurvegari.
Ofbeldi á ekki að vera afleiðing þess að neyta hugbreytandi efna, ofbeldi er alltaf á ábyrgð þeirra sem beita því. Það er manneskjan sem beitir ofbeldi sem tekur ákvörðun, sama hvort hún er allsgáð eða ekki. Það er sama í hvernig ástandi fórnalambið er, ofbeldi er aldrei réttlætanlegt.
Ég vona að það færist í aukana að konur sem þjást af fíknsjúkdómi fái rödd, að við fáum rými til að tjá okkur, að það sé ekki alltaf bara talað fyrir okkur.
Þó svo að við notum vímuefni þá höfum við tilfinningar, við höfum tilverurétt, við eigum að geta haft möguleika í réttarkerfinu jafnvel þó svo við höfum verið undir áhrifum þegar ofbeldið átti sér stað. Við eigum að fá að taka pláss.
Ofbeldi er ekki afleiðing af neyslu en neysla getur verið afleiðing ofbeldis.
Það er mín von að fólk fari að opna hugann fyrir þessum málaflokki. Það er mikilvægt. Við erum ekki minna virði en þeir sem fara alla jafna allsgáðir í gegnum lífið.
Hjálpumst að við að gera heiminn að betri stað, fyrir alla.