4. desember 2018

Móðir er eitt alþjóðlegasta tákn sem til er og eitt af þeim fyrirbærum sem á er alþjóðlegur og almennur skilningur. Þessi skilningur lýsir sér meðal annars í tungumálinu okkar. Orðið yfir „móðir“ er eins á ótal mörgum tungumálum og segja má að mæður séu eitthvað sem allur heimurinn á sameiginlegt, allir eiga mæður, eru mæður eða þekkja mæður. Móðurhlutverkið (e. motherhood) er alls staðar, allt um kring, og er raunar svo sjálfsagt að erfitt getur reynst að skilgreina það.

Íslensk nútímamálsorðabók skilgreinir móðurhlutverkið sem „þær skyldur sem fylgja því að vera móðir.” Mæður til forna voru í guðatölu, sbr. María mey, og voru taldar með eindæmum góðar, hreinar og fórnfúsar. Femínískt fræðafólk hefur í gegnum tíðina haft orð á því að skilgreiningar á móðurhlutverkinu sniðgangi gjarnan upplifanir móður af hlutverkinu. Skilgreiningarnar snúist þannig fyrst og fremst um menningarleg lærð gildi, hegðun og færni sem konur þróuðu með sér og tengdust öll því að sinna þörfum og kröfum barna.

Téð fræðafólk sagði jafnframt feðraveldið alla tíð hafa skilgreint móðurhlutverkið með óraunhæfum stöðlum sem ómögulegt væri að lifa eftir og það væri gert til þess að gera konum erfitt uppdráttar. Rödd mæðra var sögð viljandi undanskilin og skilaboðin þannig að það væri einungis ein rétt leið til þess að sinna móðurhlutverkinu. Síðar meir breyttist sjónarhornið í fræðunum, mæður fengu rödd og talað var um ,,mæðrun” (e. mothering), sem sögn en ekki nafnorð í tilraun til að fanga þá staðreynd að móðurhlutverkið er gjörð en ekki skilgreining annarra á gjörðinni.

Ekki er hægt að tala um hugmyndir okkar um hin ýmsu hlutverk og staðalmyndir í samfélaginu án þess að minnast á dægurmenningu. Áhrifin sem ýmiss konar fjölmiðla- og dægurmenningarefni hefur á líf okkar, mótun skoðana okkar og hugmynda í formi allskyns birtingarmynda og dulinna skilaboða eru gríðarlega mikil. Þar birtist móðurhlutverkið víða þó það sé ekki alltaf aðal viðfangsefnið, mæður eru sýndar frá ýmsum hliðum og oftar en ekki eru höfundar eða frásagnaraðilar karlmenn.

Samfélagið gerir ráð fyrir því að móðurhlutverkið sé náttúrulegt og það sé konum sjálfgefið að annast börnin sín, að allar konur finni á einhverjum tímapunkti köllun sína í því að verða móðir og að allar mæður finni fyrir tengslum við börnin sín.

Þær mæður/konur sem ekki upplifa þessar tilfinningar eru jaðarsettar og dæmdar. Þetta birtist til dæmis í því þegar samfélagið úthúðar ungum konum, sem ekki hafa áhuga á að eignast börn, fyrir að fara í legnám. Jafnvel þegar kona viðrar þá skoðun að vilja ekki eignast börn, finnst fólki það knúið til þess að segja henni að hún hafi ekki rétt fyrir sér.

Móðurhlutverkið, eins og svo mörg önnur lífsins verkefni, getur verið flókið.

Þegar móðir ákveður að gefa ekki allt upp fyrir börnin sín, líkt og starfsferil, félagslíf, áfengi og tíma yfirhöfuð, gefur hún færi á að samfélagið dæmi hana fyrir það. Velji hún hins vegar að verja árum í barnauppeldi verður hún ekki síður skotmark.

Móðir sem tekur stutt fæðingarorlof og fer að vinna eftir þann tíma fær spurningar frá áhyggjufullum aðstandendum hvort það sé ekki hrikalega erfitt og hvort hvort hún þurfi virkilega að fara að vinna svona snemma. Hún er í gríð og erg minnt á það að þessi tími komi aldrei aftur, börnin stækka jú svo fljótt. Allt verður þetta til þess fallið að vekja upp sektarkennd og efa um ákvörðun sem móðir hefur ígrundað og tekið fyrir sig og sína fjölskyldu.

Móðir sem velur að vera heima með barninu sínu í lengri tíma er spurð hvort hún haldi þá vinnunni sinni. Henni er tjáð að hún verði að hafa eigin vinnu og tekjur – hvað ef makinn fer einhvern tímann frá henni? Þá er hún spurð hvað hún ætli svo að gera í fæðingarorlofinu þar sem gefið er í skyn að umönnun hvítvoðungs sé ekki verðugt starf sem slíkt – kemur konu allavega ekkert hærra upp metorðastigann. Ætlar kona, á tuttugustu og fyrstu öldinni, virkilega að vera heima, sjá um börn, elda mat og þvo þvott? Er hægt að vera femínisti og heimavinnandi húsmóðir? (höfundi er mjög í mun að vita).

mæður

Þegar kona verður móðir er hún fullsköpuð – er það ekki annars? Hún hefur alla kunnáttu og þekkingu þá og þegar, enda hlutverk sem bíður hverrar og einnar einustu okkar. Undirbúningurinn hefur staðið yfir allt okkar líf. Nú er bara að gangast við móðureðlinu.

Ljósmóðir fer jú yfir það helsta með nýbakaðri móður og eftir það heyrir samfélagið ekki af mæðrum sem vita ekkert hvað þær eru að gera. Helst vegna þess að engin móðir segir það upphátt. Trúið mér, engin móðir veit hvað hún er að gera þegar hún fær nýfætt barnið sitt í hendurnar.

Hlutverk nýbakaða föðursins er svo yfirleitt bara að vera til staðar fyrir móður. Ekki misskilja, það er gríðarlega mikilvægt hlutverk. Nýbakaðir feður upplifa sig samt oft útundan og án hlutverks. Þeir þurfa ekki að hafa öll svörin, þeir fá frelsi til að vita ekkert og standa sig vel ef þeir geta aðstoðað móðurina.

Samfélagið gerir þær kröfur að þú sért góð móðir og ef þú ert það þá, tja, flott! Þú ert mamma. Þú eldar mat. Þú heldur frekar hreinu heimili. Þú þværð þvott þegar þess þarf. Þú greiðir börnunum á morgnanna og kyssir þau góða nótt á kvöldin. Þú passar að allar jólagjafir séu keyptar, tekur þér veikindadaga í vinnunni þegar börnin þín eru lasin, manst eftir að kaupa afmælisgjöfina fyrir vin sonar þíns, þrífur baðherbergið og skipuleggur barnaafmælið.

Þú manst eftir að hringja í ömmurnar einu sinni í mánuði. Basic. Engin leið til að klífa neinn stiga. Óréttlætið er fólgið í því að þegar faðir fer the extra mile, þegar faðir tekur langt fæðingarorlof, verður heimavinnandi húsfaðir, fléttar stelpurnar sínar, tvítar um femínisma og eldar á virkum dögum er hann einhver HETJA.

,,Heppin þú, að eiga mann sem þvær þvott!”

Föður er hrósað taki hann helming verkefna tengd börnum og heimilishaldi á móti móður, en móðir sem tekur ekki allavega helminginn? Grimm og kaldrifjuð, ómóðurleg og ætti hreinlega ekki að vera að eignast börn ef hún hefur ekki tíma til að sinna þeim. Ímyndum okkur móður sem tekur aldrei veikindadaga frá vinnu vegna veikinda barna; ansi fá dæmi og þær mæður þurfa eflaust sífellt að útskýra og afsaka aðstæðurnar. Samanborið við föður sem tekur sér aldrei veikindadaga frá vinnu vegna veikinda barna; kannski ekki pabbi ársins en við kippum okkur ekki mikið upp við það. Hér gilda bara ekki sömu reglur.

Mæður hafa ekkert að vinna, og öllu að tapa. Feður, tja þeir hafa hins vegar ansi fáu að tapa og allt að vinna. Ósanngjarnt? Mjög.

Það er mikilvægt að það komi fram að hér er ekki við feður að sakast. Hér er ég að gagnrýna gildismat og kröfur samfélagsins á konur samanborið við menn. Ég elska þessa pabba. Hins vegar dreymir mig um að við gerum sömu kröfur á menn og konur, feður og mæður. Fyrirgefum óundirbúnum mæðrum líkt og óundirbúnum feðrum. Gefum feðrum sama rými heima fyrir og mæður fá.

Hættum að spurja mæður á barnum hvar barnið þeirra sé, nema við ætlum að spyrja feður að því sama. Hættum að segja að pabbar séu að passa börnin sín, nema við séum tilbúin að segja að mömmur séu að passa börnin sín þegar pabbinn fær að kíkja út.

Gerum ekki kröfur á að mæður taki veikindadagana. Feður græða samveru og tengslamyndun með börnunum sínum á veikindadögum og mæður verða fyrir vikið ekki jafn fjarverandi á vinnustöðum. Jöfnum ábyrgðina heima fyrir til að jafna ábyrgðina á vinnustöðum.

Einnig: kennum börnunum okkar öllum á þvottavél, að þrífa klósettið, skúra og að skipta um peru. Hrósum þeim líka jafnt fyrir að sinna þessum verkefnum. Það skiptir í alvöru öllu máli.

Fleiri greinar eftir Elínóru Guðmundsdóttur.

Verk eftir Unu Hallgrímsdóttur á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Karlmenn og kjöt

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Barneignir og tónlistabransinn: DJ mamma

næsta grein
Stillt og prúð á ferðalagi


Lesa meira um...

Mæður: Öllu að tapa, ekkert að vinna