4. desember 2018

Greinin Karlmenn og kjöt birtist upphaflega á Facebook-hópnum Vegan Ísland.



Vegna mikillar umræðu og vitundarvakningar seinustu árin hefur orðið sprenging í veganisma á Íslandi og í heiminum. Allir eru að tala um veganisma og margir eru að gerast vegan. Allir, nema karlmenn. Af einhverri undarlegri ástæðu hefur lengi verið álitið karlmannlegt að borða kjöt.

Karlmenn borða kjöt, konur borða salat.

Karlmenn vilja ekki borða gras — „Það verður enginn saddur af kanínufóðri“. Kjöt er styrkur, vöðvar og karlmennska. Eða hvað? Hvaðan kemur sú hugmynd? Hver er ástæða þess að miklu færri karlmenn en konur velja að vera vegan? Hver eru áhrif þessarar hugmyndar á samfélagið og karlmennina sjálfa?

Þann 1. október 2018 voru samtökin Reykjavík Save Movement stofnuð. Save Movement eru alþjóðleg samtök sem standa með dýrum á leið í slátrun og sýna þeim samstöðu. Samtökin auglýstu fyrstu samstöðuvökuna fyrir utan Sláturfélag Suðurlands á föstudeginum í sömu viku. Samstöðuvökur eru friðsælir viðburðir þar sem staðið er með húsdýrum á leið til slátrunar til að vekja athygli á því sem fer fram við framleiðslu dýraafurða. Að fá Save Movement til Íslands var tímabært og þarft. En það fannst ekki öllum.

Facebook-viðburður samstöðuvökunnar fór eins og eldur í sinu um internetið og var deilt með ýmsum háðsþráðum hér og þar. Yfir 250 einstaklingar melduðu sig á viðburðinn og fljótt fóru að koma inn þræðir á viðburðarsíðuna sem voru allt annað en vegan. Yfirgnæfandi meirihluti þessara þráða var frá karlmönnum.

Einn þessara karlmanna gekk meira að segja svo langt að stofna til mótmæla gegn samstöðuvökunni. Svo fór að einungis 13 aðgerðarsinnar mættu á samstöðuvökuna fyrir dýrin en um 40 unglingar (mikill meirihluti ungir karlmenn) mættu hinsvegar á mótmælin gegn samstöðuvökunni með pallbíl, grill fyrir pylsur og beikon og háværa tónlist.

karlmenn og kjöt

Talið er að um 65-78% allra sem eru vegan séu kvenkyns. Og samkvæmt könnunum eru 80% af vegan aktivistum líka kvenmenn þrátt fyrir að „þekktustu“ aktivistarnir séu oftast karlmenn. Aðeins 14% af þátttakendum í Veganúar um allan heim eru karlmenn. Meðlimir Facebook-hópsins Vegan Ísland eru síðan 63.1% kvenmenn, 36.6% karlmenn og 0.3% skilgreina sig sem annað. Hafa verður þó í huga að á Vegan Ísland eru ekki allir vegan og mun fleiri kjötétandi karlmenn sækja síðuna til að „fylgjast með umræðunni og leiðrétta misskilning“ heldur en kvenmenn.

Í flestum tilfellum eru það karlmenn sem hrópa gegn veganisma á netinu. Við sjáum það helst í athugasemdakerfum fjölmiðlanna.

„Kjötneysla hefur verið tengd við hvíta, gagnkynhneigða karlmennsku svo lengi að hún er orðin órjúfanlegur hluti af henni“ — Professor Laura Wrigh 1

Nú þegar þessi orð eru skrifuð eru 1.286 einstaklingar varanlega bannaðir á Vegan Ísland. Fólk er til dæmis bannað ef það hefur ítrekað uppi háð gagnvart veganisma eða hvetur á einhvern hátt til neyslu dýraafurða. Langflestir þeirra eru karlkyns. Ég þori að fullyrða að 90% af þeim séu íslenskir karlmenn og strákar. Gott hlutfall af hinum 10% eru síðan erlendir spammarar og gervifólk.


„Hatur á grænmetisfæði sem og þeim sem neyta þess er algengt og viðurkennt vegna þess að hatrið á rætur sínar að rekja til eitraðrar karlmennsku og ofbeldismenningar.“ — Zach Ienatsch 2


Hvers vegna erum við karlmenn svona? Þessi hegðun á sér hliðstæðu í mörgum öðrum réttindabaráttum. Hvað veldur því að við karlmenn streitumst svona á móti, hæðumst að og sýnum jafnvel árásarhegðun í orði? Er þetta vörn? Erum við hræddir við eitthvað?

Er vegið að karlmennsku okkar með því að segja að neysla dýraafurða sé röng? Er þetta bara enn eitt svokallaða „kvenhlutverkið“ sem við ætlum að halda fjarlægð við vegna uppgerðra staðalímynda og hópþrýstings? Er okkur kennt þetta? Er lausnin, eins og annars staðar, að kenna komandi kynslóð nýja siði og meiri samkennd? En til að kenna, þurfum við þá ekki líka að læra?


„Margir karlmenn skilgreina sjálfsmynd sína út frá kjöti og kjötáti. Þeir menn sem ríghalda í staðalímyndir karlmennskunnar og eru ófærir um að sjá að kyneinkenni og hlutverk eru búin til af samfélaginu, virðast eiga í meiri vandræðum með að sýna dýrum samúð þar sem slík samúð er í mótsögn við ríkjandi fyrirmynd karlmennskunnar.“ — Dr Richard Twine 3


Það er ekki hægt að tala um karlmennsku án þess að tala um jafnrétti kynjanna. Það er eins ekki hægt að tala um kjötmenningu án þess að tala um hlutgervingu. Í könnun sem var gerð á yfir 700 nemum við háskóla í Texas var niðurstaðan sú að tenging var á milli þess að vera kjötæta og karlremba.

Eins var tenging á milli þess að hafa samkennd með dýrunum og þeirra sem vildu meira jafnrétti. „Með öðrum orðum sýna þessir einstaklingar tilhneigingu til að aðhyllast frekar hefðbundin kynhlutverk og kvenfyrirlitningu heldur en jafnréttissjónarmið óháð tegundum (e. vegalitarian) eða viðhorf sem hafin eru yfir viðteknar kynjahugmyndir.“ segir Ashley Allcorn, annar höfundur könnunarinnar. 4

Svo verður þetta allt enn flóknara þegar við komumst að því að framleiðsla á dýraafurðum felst að mestu leyti í því að nýta og kvelja kvendýr á meðan karldýrin eru svo gott sem óþörf. Í eggjaiðnaðinum er t.d. karlungum hent í gasklefa (tætara í öðrum löndum) eftir að hafa verið aðskildir frá kvenungunum strax í útungun. Í mjólkuriðnaðinum eru karlkálfar annað hvort skotnir og hent í ruslið, nema þeir séu „heppnir“ og fái að lifa í nokkrar vikur eða mánuði sem sæðisgjafar eða nýttir í ungnautakjöt.

Nú er ég karlmaður og er búinn að vera vegan í nokkur ár. Eftir að ég gerðist vegan var ég oft spurður — af karlmönnum — hvort að konan mín hafi dregið mig í þetta. Það var akkúrat öfugt! Ég hef nokkrum sinnum verið kallaður aumingi eða „kelling“ vegna þess að ég vel að borða ekki kjöt. Ég get ekki orðið lasinn eða kvartað yfir kulda án þess að karlmennskan mín sé tekin til skoðunar út frá veganisma.

Það er af einhverjum ástæðum grjóthörð tenging á milli þess að borða kjöt og að vera blóðheitur karlmaður. Þessu þurfum við að breyta.

Á sunnudögum tala ég stundum við íslenska karlmenn á Cube of Truth-viðburðunum. Flestir eru sammála um að það sé rangt hvernig við förum með dýr. Þegar ég spyr þá hvað sé helst að stoppa þá í að gerast vegan nefna þeir oftast að „kjöt sé svo ógeðslega gott“. Í þau skipti sem ég næ að grafa dýpra þá kemur hins vegar í ljós að vandinn liggur helst í félagslegum stuðningi úr nærumhverfi þeirra. Þeir vilja ekki verða fyrir háði sjálfir.

En hvað segir það okkur um raunverulega karlmennsku ef við getum ekki staðið fyrir framan vini, kunningja, fjölskyldu eða vinnufélaga og sagst stoltir sneiða hjá dýraafurðum og bera hag dýra fyrir brjósti? Hvað segir það okkur síðan um þrýstinginn í vinahópnum þeirra eða fjölskyldu?

Ef að karlmenn vilja ekki gerast vegan fyrir dýrin þá ætti heilsan að vera næsta alvarlega umhugsunarefnið. Helstu dánarorsakir karlmanna á Íslandi eru krabbamein og svo hjarta- og æðasjúkdómar. (Helsta dánarorsök ungra karlmanna er sjálfsvíg sem gefur kannski aðra, dekkri og sorglegri mynd af því hvar karlmenn eru staddir í dag. Og það sem verra er er að kjötát hefur verið tengt við þunglyndi.) Hvað varðar krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma er mataræðið mjög stór partur, ef ekki sá stærsti.

Eitt fyrsta merki hjarta- og æðasjúkdóma er t.d. risvandamál. Mettaða fitan, kólesterólið, choline-ið, TMAO og hormónin í dýraafurðum hefur samkvæmt öllum helstu rannsóknum afar slæm áhrif á kerfið okkar og dregur okkur á endanum til dauða og er bara önnur birtingarmynd þess hvernig karlmennskan getur bókstaflega drepið okkur. Þess má geta að vegan heilfæði er eina mataræðið sem hefur vísindalega verið sýnt fram á að snúi við hjartasúkdómum.

Svo eru fáir hlutir sem talað er jafn mikið um í samhengi við karlmennsku og testosterón. Samkvæmt rannsóknum eru vegan einstaklingar með 15% meira testosterón í blóðinu en kjötætur. (Hins vegar koma um 30% af utanaðkomandi estrógeni úr kjötinu sem við borðum og hin 60-80% koma úr mjólkurafurðum). Vegan einstaklingar eru einnig með meira blóðprótín heldur en meðalkjötætan.

Ein frægasta línan í stórkarlamyndinni Escape Plan með Arnold Schwarzenegger og Sylvester Stallone gerist í miðjum bardaga þar sem Arnold segir eftir kjaftshögg frá Stallone: „You hit like a vegetarian. You can do better than that“. Grænmetisæta er hér notað sem móðgun. Grænmetisætur eru veikburða og geta ekki slegið frá sér. Á svipaðan hátt er nú komið fram nýyrði yfir karlmenn sem velja grænmetisfæði og aðra „kvenlega“ hluti. Þeir eru kallaði sojastrákar eða Soy Boys. Að vera sojastrákur er álitið slæmt. Þú ert ekki karlmaður ef þú ert sojastrákur. Þú ert beta.

En Arnold sá fljótlega að sér og eftir að hann kynntist kostum plöntufæðis kom hann fram í auglýsingu James Cameron um veganisma og sagði þar: „Ef þeir vilja halda því fram að kjötát auki styrk þinn, ekki kaupa það!“ 5 Eins eru sojastrákar byrjaðir að eigna sér uppnefnið og snúa merkingu þess við.

Það er í rauninni drullufínt að vera sojastrákur.

Nú eru íþróttamenn í hrönnum að gerast vegan fyrir styrk, snerpu, léttleika, betri hvíld og minni bólgur. Margir NBA (Kyrie Irving) og NFL (David Carter) spilarar eru orðnir vegan. Lewis Hamilton, F1-meistari er vegan og segir það hafa haft mikil áhrif á frammistöðu sína. Hlauparinn og „íþróttamaður aldarinnar“ Carl Lewis er vegan. Ólympísku lyftingamennirnir Kendrick Farris og Clarance Kennedy eru vegan. Sterkasti maður Þýskalands er vegan. Últramaraþonhlauparinn (6 og hálft maraþon á einum degi) Scott Jurek er vegan. Ég gæti haldið áfram. Allt eru þetta nautsterkir (andlega og líkamlega) sojastrákar sem sýna að við þurfum ekki dýraafurðir til þess að ná árangri. Þvert á móti skilar það bættum árangri að gerast vegan!

Karlmenn! Hér, eins og annars staðar, getum við gert svo miklu betur. Betur fyrir dýrin, okkur sjálfa, samfélagið og umhverfið. Endurskilgreinum hvað það þýðir að vera karlmaður.

Finnum styrkinn í hlutunum sem skipta okkur máli og fjarlægjum okkur frá neikvæðum hópþrýstingi og staðalímyndum byggðum á gömlum hefðum og úreltum sjónarmiðum.

Hvað er karlmannlegra en að sýna samkennd? Hvað er karlmannlegra en að styðja vini sína og náunga ef þeir velja ofbeldislaust líf? Hvað er karlmannlegra en að hjálpa þeim sem minna mega sín? Hvað er karlmannlegra en að ljá málleysingjunum rödd sína? Hvað er karlmannlegra en að vera ekki sama?


,,Síðan hvenær er það að velja auðveldu leiðina fram yfir réttu leiðina skilgreining á karlmennsku?“ — Daniel Kucan 6





— — —

Tilvitnanir á upprunalegu tungumáli:

1 „The consumption of meat is so clearly aligned with white, heterosexual masculinity as to be, at his point, inseparable from it.“ — Professor Laura Wrigh

2 „Passionate hatred for plant-based diets and the people who practice them is common and accepted because it is rooted in toxic masculinity and a culture of violence.“ — Zach Ienatsch

3 „Meat remains for many men a stable, if arbitrary, hook on which to hang their gender identity. Men who are invested in inflexible models of masculinity as opposed to seeing gender identity as socially constructed and changeable, tend to have more problem with the idea of compassion to other animals, as historically that has been antithetical to dominant models of masculinity.” — Dr Richard Twine

4 „In other words, (they) tend to support traditional roles and sexist attitudes versus vegalitarian or gender transcendent attitudes.“ — Ashley Allcorn

5 „If they tell you to eat meat to be strong, don’t buy it!“ — Arnold Schwarzenegger

6 „Since when is doing what’s easy, as opposed to doing what’s right, the definition of masculinity?“ — Daniel Kucan

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Skoðanaskipti: Hver má hafa skoðun á hverju?

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Með fullri virðingu fyrir heilbrigðisstarfsfólki

næsta grein
Mæður: Öllu að tapa, ekkert að vinna


Lesa meira um...

Karlmenn og kjöt