15. september 2018

Árið 2011, áður en ég fór út í barneignir, byrjaði ég að dj-a ásamt vinkonu minni, Lovísu Arnardóttur, og komum við fram undir nafninu Kanilsnældur

Fyrsta gigg Kanilsnældna var fyrir fullum stað á Faktory og eftir það fór boltinn að rúlla. Við fengum fleiri og fleiri gigg og komum m.a. fram á Núna Now, hátíð Vestur-Íslendinga í Winnipeg í Kanada, á Secret Solstice og Sónar Reykjavík. Við Lovísa spiluðum líka í sitthvoru lagi, og í gegnum árin hef ég sjálf spilað víða í Evrópu og Tókýó. Okkur gekk vel að gigga og kunnum vel við okkur bakvið dj-borðið. 

barneign

Fyrir tveimur árum pissaði ég á prik og fékk þau gleðitíðindi að ég ætti von á barni. Á þeim tíma var ég að spila um þrjú gigg á viku, en þar sem meðgangan reyndist mér erfið og ég fékk meðgöngueitrun varð ég fljótlega að setja græjurnar til hliðar. Síðasta giggið mitt fyrir fæðingu var off venue á Iceland Airwaves á Palóma. 

Það var erfiðasta gigg sem ég hef upplifað, en það var um leið mjög valdeflandi að spila með kúluna út í loftið og finna barnið sparka allan tímann í takt við tónana. 

Eftir fæðingu Snæfríðar Bjartar gat ég ekki beðið eftir að taka aftur í græjurnar og fyrsta giggið var með Lovísu á Boston. Þarna stóð ég, vansvefta og með mjólk flæðandi úr brjóstunum tæpum 2 mánuðum eftir barneign. Skemmst er frá því að segja að ég varð að fara fyrr heim þar sem að brjóstin mín voru farin að leka svo mikið og ég, óreynd móðirin, kunni ekki að mjólka mig í vaskinn.

Nú, rúmu ári síðar, hefur barnið stálpast og er komið af brjósti, ég er komin úr barneignarfríi, en ég hef þó ekki spilað mörg gigg á þessum tíma. Þrátt fyrir að hafa haft samband við bókara og leitast eftir því að spila. Ég hef ekki fengið svör, hvorki já né nei. Ástæðan fyrir því er mér hulin gáta, en það er nánast eins og að við það að eignast barn og takast á við móðurhlutverkið verði kona ósýnileg.

Það er kannski allt í lagi að hafa orð á því að plötusnúðasenan, eins og svo margar, þykir karllæg og konur hafa átt erfitt uppdráttar við að koma sér á framfæri. Sárast er að orðsporið sem man var búin að byggja upp hrynur, og upplifunin er eins og að vera dæmd úr leik. 

barneign

Þegar kona fer í barneignafrí frá spilamennsku er það eins og að spila Hættuspilið, þú gætir hitt Sigga Sýru og endað aftur á byrjunarreit. 

Það er erfitt að greina það hvernig hægt sé að leysa þetta vandamál, en fyrsta skrefið er mögulega að ræða að þetta sé vandamál. Ég veit líka að ég er ekki eina konan í tónlistarbransanum sem hefur upplifað svipaða hluti. Það myndi vafalaust hjálpa ef bókarar á skemmtistöðum væru meðvitaðir um vandann og reyndu á einhvern hátt að hjálpa til með því að heyra í konum, að minnsta kosti svara símanum þegar þær hafa samband eftir barneignarleyfi. 

Þannig að hæ ég er ennþá að spila, hringið í mig!

barneign

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Kyngervi: Mikið er hún þá fín og sæt

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
,,Þér er boðið í partý, en samt ekki alveg“

næsta grein
Íslenskar listakonur: Þær voru svo margar ― þetta voru ekkert bara þessir karlar


Lesa meira um...

Barneignir og tónlistabransinn: DJ mamma