2. desember 2018

GET ÉG GERT KRÖFU UM KERFISBREYTINGU EF ÉG VEIT EKKI FULLKOMLEGA HVERNIG KERFIÐ VIRKAR?


Mér finnst ég alltaf vera að tala um kerfið. Það er alltaf verið að tala um kerfið. Og í öllum þeim feminísku verkefnum sem ég hef unnið að undanfarin ár hefur alltaf verið minnst á kerfið. Jafnvel þótt verkefnin séu margvísleg og þau snerti á mismunandi málaflokkum virðist sem viss rauður þráður leiði þau saman: hvort sem talað er um mikilvægi aukinnar fræðslu á vissum sviðum, bent sé á valdaójöfnuð minnihlutahópa eða áhersla lögð á eignarrétt kvenna yfir sínum eigin líkama, bera verkefnin með sér sömu orðræðuna: „þetta er kerfisbundið vandamál“.

Bónir um kerfisbreytingar hafa birst í formi undirskriftalista, mótmæla, opinna bréfa eða á fundum með fólki sem hefur vald til breytinga. Okkur er flestum ljóst að til þess að um raunverulegar breytingar sé að ræða verða breytingarnar að vera á kerfinu sem slíku. 

Það er sjálfsagt að halda að með kerfisbreytingum fáist margar úrlausnir og það er mér ljóst að endurtekin krafa um breytingar innan kerfisins eigi rétt á sér. Ég ætla þó að segja ykkur frá vissu óöryggi sem hreiðraði um sig innra með mér um daginn vegna skyndilegrar vangaveltu. Vangaveltan hljóðaði sem svo: „Hvernig geturðu gert kröfu um kerfisbreytingu þegar þú veist ekki upp á hár hvernig kerfið er uppsett?“ 

Þessar vangaveltur uxu innra með mér eftir því sem á leið og ég fylltist efa um réttmæti krafa minna — er ég bara að öskra út í bláinn, teymd áfram af feminískri hjarðhegðun? Og hvernig get ég kvartað undan einhverju ef ég er ókunnug vissum lagasetningum undanfarinna ára? Ekki hef ég lagt stund á laganám eða setið yfir öllum þeim lagabreytingum eða samtölum sem fara fram á Alþingi eða innan stofnanna. 

Það eina sem ég gat verið hundrað prósent viss um var hvernig kerfið lætur mér líða.

kerfisbreytingar

Mér varð ljóst að óöryggi mitt var tilkomið vegna þeirra skoðana að tilfinningar séu lítils metnar þegar viss málefni koma til tals. Tilfinningar og líðan virðast ekki eiga heima í tali réttmætra krafa um kerfisbreytingu. Tilfinningar eru sagðar í mótsögn við rökvísi; þeim er stefnt saman líkt og hugtökin séu á einhvern hátt ósamrýmanleg. Og sjáið til, ég er skíthrædd við að afstaða mín teljist verðlaus vegna þess eins að hún virðist of tilfinningaleg — en af hverju í ósköpunum er það? 

Tilfinningar hafa sérstaklega verið notaðar gegn fólki sem mótmælir stöðu þolenda í kerfinu sem og öðru kynjabundnu misrétti.

Ég hef bæði heyrt út undan mér, lesið, séð og orðið fyrir orðræðu sem gefur í skyn að femínistar séu ófærir um að leggja rétt mat á úrskurði vissra kynferðisafbrotamála, eða misrétti í samfélaginu, þar sem þeir séu leiddir áfram af tilfinningalegum, og þar með annarlegum, hvötum. Staðalmyndin um reiða femínistann lýsir þessu vel þar sem staðalmyndin felur í sér að femínistinn reiðist yfir öllu og engu án þess að neitt málefnalegt búi að baki, að fyrir honum vaki lítið annað en hefndargirni sem sprottin sé upp úr djúpstæðri andúð (e. ressentiment).

Með þessari staðalmynd er reynt að gera lítið úr femínismanum og smætta viðkomandi niður í tilfinningar á borð við reiði. Reiðin á að lýsa stjórnleysi og vanhugsun femínistans því svo virðist sem tilfinningasemi sé til marks um að einstaklingur sé ekki hæfur til að færa rök fyrir máli sínu. Þetta er auðvitað gömul retórík. Femínistar hafa alltaf verið móðursjúkir og heimtufrekir, taugaveiklaðir og veruleikafirrtir. „Vertu nú ekkert að æsa þig, þegar maður skoðar tölfræðina er þetta alls ekkert svona slæmt. Slappaðu bara af.“ 

kerfisbreyting

Tilfinningar hafa lengi verið settar undir hatt hins kvenlega og reglan virðist vera sú að samfélagið flokki hið kvenlega sem hið óæðra. Þessi misflokkun tilfinninga gerir það að verkum að karlmenn hafa lengi forðast að tjá tilfinningar sínar eða þá sýna merki um vanlíðan, en þetta viðmót veldur því að margir karlmenn bæla niður tilfinningar sínar fremur en að leita sér aðstoðar. Femínistar hafa lengi barist gegn þessu viðmóti þar sem hræðsla karlmanna við að sýna varnarleysi sitt er úrelt og skaðleg hugmynd feðraveldisins, og hún getur haft mjög voveiflegar afleiðingar. 

Í þessu samhengi er áhugavert að líta til þess hvernig tilfinningar og kerfið haldast í hendur. Kerfið, og þá lagarammi þess, er sett upp sem svart á hvítu, einn eða núll. Kerfið rúmar engar tilfinningar, engin róf, enga spennu. Rökvísi kerfisins er byggð á tvíundum; af/á, inni/úti, ríkisborgari/útlendingur, karl/kona, barn/fullorðinn og svo framvegis. Vitanlega er kerfið sífellt í mótun og breytingar eiga sér stað innan þess, en samtímis stendur sjálf formgerð kerfisins óhagganleg.

Það kann að vera að það sé einmitt vegna þessarar formgerðar og óhagganleika hennar sem við virðumst standa frammi fyrir miklum vegartálmum hvað viðkemur vissum kerfisbreytingum. Við höfum horft upp á baráttur er snúa að bættri úrvinnslu kynferðisbrotamála, eignarrétti kvenna á líkama sínum, og rétt kvennastétta til sanngjarna launa, smættaðar niður í eitthvað tilfinningalegtí fjölmiðlum — líkt og baráttan sé óþörf og einungis sprottin út frá óréttmætum og verðlausum tilfinningum kvenna um stöðu sína, tilfinningum sem eiga sér ekki stoðir í staðreynda-raunveruleika. Tilfinningalegar kröfur geta virst ósamrýmanlegar kerfinu

Það voru í upphafi karlmenn sem skrifuðu lögin og mótuðu réttarvenjur — gæti verið að þess vegna virki það sem svo að kerfið gefi ekki rými fyrir tilfinningar? 

En út frá því verðum við að muna, verð égað muna í mínu óöryggi, að tilfinningar eiga rétt á sér. Raunar eru tilfinningar ekki aðeins réttmættar heldur eru þær bráðnauðsynlegar — þegar síðasti tilfinningasnefillinn hefur verið hreinsaður af röksemdafærslunni blasir við að án tilfinninganna eru rökin sjálf gjörsamlega merkingarlaus. 

kerfisbreytingar

Jafnvel þótt ég verði ekki vör við hverja einustu kerfisbreytingu eða því fullkunnug hvernig úrvinnsla hvers tiltekins kynferðisofbeldismáls fer fram samkvæmt vissum lagalegum stöðlum, þá er ég fullfær um að meta það réttilega að útkoma þessara mála, sem og staða þolenda og annarra minnihlutahópa innan kerfisins, lætur mér líða illa. Þessi vanlíðan er til marks um að kerfisbreytingar þurfi að eiga sér stað.

Staða minnihlutahópa innan kerfisins lætur mér líða illa þar sem endrum og eins sýna úrvinnslur mála að ég, sem kona, er ekki enn verðug vissra réttinda — að ég sem þolandi á engrar úrlausnar von í því að sækja réttar míns gagnvart geranda mínum o.s.fr.v.. Það væri fáránlegt að halda því fram að unnt sé að horfa á mál sem viðkoma réttindabaráttu tilfinningalausum augum.

Tilfinningar í réttindabaráttu eiga ekki að valda okkur hugarangri, eða þá notast gegn okkur, heldur fremur þjóna sem staðfesting á því að við vitum með sanni að eitthvað er það sem veldur okkur óróleika, angist, reiði, sorg, uppgjöf eða von — og að aðgerða sé þörf ef okkur á að leyfast að líða vel. Að halda öðru fram er helber rökleysa.

kerfisbreytingar

Fleiri greinar eftir Steinunni Ólínu Hafliðadóttur.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein


Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Er hægt að aðskilja list frá listamanni?

næsta grein
Íslenska sem annað mál: Grein með hreim


Lesa meira um...

Kerfisbreytingar: Tilfinningalegar hömlur gagnvart kerfinu