3. desember 2018

— TW —

Þegar ég var lítil stelpa þá var ég ótrúlega stillt og prúð. Ég setti gífurlegar kröfur á sjálfa mig og mantran mín var: „Ég verð að vera fullkomin“ í alveg ótrúlega mörg ár.

Þegar ég varð táningskona þá var líkt og ég hefði sofið undir fullu tungli, farið með allskyns þulur og beðið kosmósinn að hjálpa mér að brjótast út úr þessari spennitreyju sem samfélagið var búið að setja mig í.

Umbyltingin mín á unglingsárunum stafaði þó minna af því að ég hafi farið með galdraþulur undir fullu tungli heldur meira af því að ég varð fyrir ógeðslegu kynferðisofbeldi á þessum árum.

Eftir menntaskóla hafði ég gífurlega þörf fyrir að fara út í heim og reyna að púsla sjálfri mér saman eftir mín áföll á unglingsárunum. Ég var á útopnu og tilbúin í að prófa allt sem gæti hjálpað mér að finna leiðina til baka í kjarnann í sjálfri mér. Ég fór í allskonar ferðalög, hið klassíska bakpokaferðalag með tveimur vinkonum, tvo mismunandi lýðháskóla, styttri ferðalög og skiptinemadvöl.

ein til indlands

Árið 2016 fann ég svo mikla þörf fyrir að tengjast inn á við. Ég fékk sterka tilfinningu fyrir því að ég yrði að fara ein til Indlands.

Þegar ég byrjaði að segja nánustu fjölskyldu frá því að ég ætlaði ein til Indlands, þá voru viðbrögðin: ,,Æ en það er svo hættulegt fyrir konur, við elskum þig og viljum fá þig heila heim.“

Auðvitað er frábært að eiga fólk að sem að elskar mann svona mikið. En ég get þó ekki komist hjá því að pæla: Hver hefðu viðbrögðin hjá fólki verið ef ég hefði verið karlmaður að tilkynna slíka ferð? Ég hefði að öllum líkindum aldrei fengið predikun um að þetta væri hættulegt eða að ég gæti verið drepin.

Mjög leiðinlegt en þó sannleikur: Þetta er það sem fór í gegnum hausinn á mér: „Það er búið að nauðga mér, beita mig ógeðslegu kynferðisofbeldi og misnota mig sem barn. Það sem ég óttaðist mest er þegar búið að gera mér.“

Ég var ekki hrædd.

Á þessum tíma kom sú hugmynd að ég ætlaði aldrei að láta neitt stoppa mig. Sérstaklega ekki þá staðreynd að ég er kona sem bý í feðraveldisheimi. Þessi hugmynd byrjaði að krauma undir húðinni fór út í blóðrásina og dreifði sér út um allan líkamann. Þangað til að hún tók yfir.

Ég hélt fast í þá hugmynd að ég ætlaði ein til Indlands. Þegar ég byrjaði að skipuleggja ferðina þá stóð ég mig samt að því að gúgla „safe places for women india“ — langflestar leitirnar mínar samanstóðu af þessum orðum.

Þegar ég kom ein til Indlands þá kynntist ég allskonar týpum af ólíkum ferðalöngum. Þegar ég gaf mig á tal við karlkyns ferðalanga þá varð ég oft öfundsjúk. Þeir pældu aldrei í því hvert þeir ferðuðust með öryggi að fyrirrúmi, þeir voru aldrei hræddir í næturrútunum. Þeir gengu um berir að ofan, meðan ég eyddi oft miklum pælingum í hvernig ég gæti bæði lifað af 40 stiga hita og líka hulið mig alla.

Ég tók upp á því að raka af mér hárið árið 2010 og það varð mitt ,,safe point“ í öllum mínum ferðalögum, sérstaklega á Indlandi — ég fékk yfirleitt að heyra frá karlmönnum að ég væri nú miklu fallegri ef ég væri með hár.

Ég gerði allt sem ég gat til að vera sem minnst kvenleg í augum Indverja. Ég leyfi mér að efast um að karlkyns ferðalangur velti sér mikið upp úr því hvort útlit hans geti haft áhrif á öryggi hans á ferðalögum. Ég vil skjóta því inn í að ég hef ferðast ein til Indlands með hár á hausnum og upplifði mikinn mun. Enn fleiri augngotur, menn að tilkynna manni að maður væri fallegur, hvort maður vildi giftast, menn að flauta á eftir manni og allt þar fram eftir götunum.

Árið 2017 fór ég ein til Sri Lanka. Á því ferðalagi kynntist ég ungum manni að nafni Alexander (í dag er hann kærasti minn og barnsfaðir). Við gáfum okkur á tal saman og ákváðum að ferðast saman upp í frumskóginn. Ég hefði aldrei þorað að fara þangað ein en vegna þess að ég var með hvítum manni sem var með skegg og stór þá þorði ég að fara.

Þvílíkur munur að ferðast með karlmanni! Þegar við vorum tvö saman þá var líkt og ég fengi allt annars konar virðingu frá öðrum karlmönnum.

Þeir töluðu við mig líkt og jafningja. Ég var aldrei hrædd og hitti ótrúlega áhugavert fólk sem ég hefði aldrei þorað að gefa mig á tal við ef ég hefði bara verið ein.

Mér er afar minnisstætt eitt skipti þegar ég þurfti að bregða mér frá til að fara á klósettið og þá beið Alexander eftir mér. Ég skaust inn á næsta gistiheimili og fékk þar hjálp frá ungum strák, kannski hefur hann verið 15 ára. Eftir að ég fékk afnot af klósettinu, þá þakkaði ég kærlega fyrir og bjó mig undir að halda áfram.

Þessi ungi piltur eltir mig og segir svo:
„Sex.“
Ég verð kjaftstopp, sný mér við og bið hann um að endurtaka sig.
„Can me and you have sex?“
Það þurfti semsagt ekki meira en 5 mínútur til þess að verða gerð að hvítri pornókonu aftur.

Ég hef þurft að halda mér vakandi í heila nótt í næturrútu vegna þess að ung indversk kona hafði heyrt bílstjóra rútunnar tala um hvernig þeir vildu nauðga mér. Þessir menn gengu mjög oft framhjá rúminu mínu og sögðu setningar á borð við: „Miss, why are you not closing your eyes og glottu svo út í eitt.

Lengi vel gerði ég mjög lítið úr þessu og þorði ekki að tala um þetta því mér fannst þetta vera á mína ábyrgð.

Þetta eru tvö dæmi af svo allt of mörgum sem ég geymi í bakpokanum mínum. Ég hef líka fengið að heyra að þetta sé allt mér að kenna, því ég sé svo vitlaus að halda að ég geti ferðast ein til Indlands.

Takk nauðgunarmenning fyrir þau fallegu orð.

Þessi pistill er alls ekki skrifaður til að forða ungum konum frá því að ferðast einar, þvert á móti óska ég þess að hver og ein ung kona upplifi allskyns ævintýri, sigri heiminn og fari ein til Indlands ef hún vill. er skrifaður í þeim tilgangi að benda á hversu fokking ósanngjarnt það er að við konur getum ekki búið við sama öryggi og karlmenn gera. Engin kona á nokkurn tíma að þurfa að gefa draumana sína upp á bátinn vegna meingallaðs kerfis. Þessar frábæru feminísku byltingar hafa virkilega klofið fjöll en við megum alls ekki sofna á verðinum — við eigum enn langt í land.

Elsku baráttusystur, höldum þessari baráttu áfram, alltaf! Því við höfum sýnt það og sannað að við virkilega getum klofið ÖLL fjöll, ekkert fjall mun nokkurn tíma stöðva okkur.

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Mæður: Öllu að tapa, ekkert að vinna

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Konur á móti körlum: Aðskilnaður kynjanna í Mexíkóborg

næsta grein
Eiga gerendur afturkvæmt: Rými til ábyrgðar


Lesa meira um...

Stillt og prúð á ferðalagi