29. nóvember 2018

Ég mjakast áfram í miðri mannþvögu í átt að lestinni. Götusalar arka hjá og þylja upp vöruframboð sitt eins og óperusöngvarar. Blaðasölumenn halda dagblaðinu á lofti og flytja morgunfréttirnar fyrir gesti og gangandi. Í kringum mig er líklega fleira fólk en íbúar Reykjavíkur til samans, enda eru rúmlega fjórar milljónir manna sem nota neðanjarðarlestina á degi hverjum.

Þegar mannþvagan hefur leitt mig að brautarpallinum staðnæmist ég í langri biðröð og virði fyrir mér samferðafólk mitt þennan morguninn.

Í kringum mig eru konur, einungis, af öllum stærðum og gerðum. Sumar eru klæddar í dragt, aðrar í skólabúning, enn aðrar eru í hversdagsklæðum, konur með börn, konur að lesa bækur, konur að mála sig og konur að flýta sér.

Hvergi er karlmann að sjá. Umferðarlögreglan sér til þess, þar sem hún stendur við appelsínugult hlið með áletruninni „Solo para mujeres y menores de 12 años,” „aðeins fyrir konur og börn yngri en 12 ára,” „aðgangur bannaður fyrir karlmenn og drengi 12 ára og eldri.“

Biðröðin við brautarpallinn mjakast hægt og rólega áfram og þegar lestin loksins kemur taka samferðakonur mínar sér stöðu og spyrna sér svo inn í lestarvagninn af öllum krafti líkt og langhlauparar á Ólympíuleikum. Líkami minn sogast inn í lestina og ég dreg inn andann þar sem ég stend þéttar upp við kynsystur mínar en þægilegt þykir.

Þegar ég kemst á áfangastað liggur leið mín aftur upp á yfirborðið, í sameiginlegt samfélag karla og kvenna í Mexíkóborg.

aðskilnaður kynjanna

AÐSKILNAÐUR KYNJANNA LAUSN VIÐ OFBELDI

Ofbeldi og áreitni gagnvart konum í almenningssamgöngum er algengt vandamál víða um heim. 

Samkvæmt rannsókn sem gerð var af Alheimsbankanum fyrir um ári síðan á áreitni gagnvart konum í almenningssamgöngum er ástandið einna verst í Mexíkóborg, þar sem 64 prósent kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu kynferðislegu ofbeldi í almenningssamgöngum.

Vandamálið er jafnframt alvarlegt á Vesturlöndum þar sem rúmlega helmingur kvenna finna fyrir óöryggi eða ótta í almenningssamgöngum.

Ýmsar leiðir hafa verið farnar til að bregðast við vandamálinu, líkt og í Mexíkó þar sem sérstakir vagnar eru fyrir konur, aðskilnaður kynjanna er einnig við lýði í almenningssamgöngum í Brasilíu, Egyptalandi, Indónesíu, Íran og Japan. Auk þess var lagt til að slíkt kerfi yrði tekið upp í Bretlandi fyrir rúmu ári síðan en tillagan hlaut gríðarlega gagnrýni þar sem gagnrýnisraddir bentu á að slíkar ráðstafanir ráðist ekki á rót vandans og fríi ofbeldismenn allri ábyrgð.

aðskilnaður kynjanna

„EKKI TAKA FLEIRI KONUR”

Raunveruleikinn í Mexíkóborg er súrrealískur. Dagarnir óútreiknanlegir. Ég hef búið í um tvö ár í Mexíkóborg og eitt sinn þegar ég var á rölti á Reforma, einni fjölförnustu götu borgarinnar, mætti ég til dæmis gæludýrinu Anastasíu, grísnum, sem var að leika sér við lemúrinn Símon frá Madagaskar.

Í Mexíkóborg getur maður verið hvaða týpa sem er, pönkari, gothari eða jafnvel skandinavískur hipster og fundið sína senu í borginni. Það getur verið æðislegt að vera ungur í borginni, listasenan lifandi, háskólalífið spennandi og úrvalið af áhugamálum mikið.

Dagarnir eru óútreiknanlegir. Ég þarf að hafa varann á, passa mig á karlmönnum og helst ekki vera í stuttu pilsi. Í Mexíkó, landinu öllu, getur verið hættulegt að vera kona þar sem ofbeldi og áreitni gagnvart konum er allt of algengt. Á hverjum degi hverfur kona í Mexíkó, ástríðuglæpir eru algengir en talið er að þrjár konur séu myrtar daglega af elskhuga sínum.

Í staðinn fyrir #metoo byltinguna sem á sér stað á Vesturlöndum berjast konur í Mexíkó fyrir ,,Ni una más”, ,,ekki eina í viðbót”. ,,Ekki taka fleiri konur frá okkur”, segja þær.

aðskilnaður kynjanna

ENDURHEIMTA LÍKAMA MEРSJÁLFSVÖRN

Einu sinni var ég á göngu um miðborgina og rambaði inn á La Gozadera, kaffihús og menningarhús, sem gefur feminískri menningu pláss. Fyrir utan kaffihúsið stóð glímukeppni yfir, svokallað lucha libre, mexíkósk glímulist. Keppendurnir voru konur og áhorfendurnir konur. Keppendurnir voru grimmar og fyndnar og áhorfendur veltust um af hlátri.

Inni á kaffihúsinu stóð yfir listsýning um kynfæri kvenna og kaffið sem var selt var keypt af kaffiekrum sem störfuðu eftir jafnréttisstefnu. Á einum veggnum voru auglýsingar fyrir ýmis félagsstörf og námskeið sem fram fóru í menningarhúsinu. Þar á meðal var auglýst námskeið í hnefaleikum og sjálfsvörn:

aðskilnaður kynjanna

„Komdu að æfa með okkur og njóttu þess að læra sjálfsvörn og aðferðir til að endurheimta líkama þinn. 40 pesóar hver tími.”

Næsta dag mætti ég á námskeiðið og lærði að verja mig í skemmtilegum félagsskap ólíkra kvenna. Markmið námskeiðsins var ekki síst að gefa konum færi á að öðlast öryggi og þann styrk sem þarf til að ganga úti á götu áhyggjulaus, útskýrði þjálfarinn fyrir hópnum. Við lærðum aðferðir til að verjast ofbeldimönnum og hvernig væri best berjast á móti sterkum karlmanni.

aðskilnaður kynjanna

Eftir tvo klukkutíma af sjálfsvarnartækni fór ég dauðþreytt í neðanjarðarlestina og velti fyrir mér hvort ég væri fullfær um að ganga áhyggjulaus um götur borgarinnar.

Þegar ég gekk inn í lestarvagninn var ég svo djúpt sokkin í hugsanir mínar að ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég hefði gengið inn í karlahluta lestarinnar. Ég leit í kringum mig og án þess að vera sérstaklega hrædd við hitt kynið fann ég hvernig ég varð samt hokin í baki og horfði niður á tær.

Varnarleysið algjört. 

Á innan við mínútu hafði ég málað samferðamenn mína sem ofbeldismenn og sjálfa mig sem fórnarlamb. Svo staðnæmdust augu mín hjá eldri manni með grátt hár sem gæti allt eins verið afi minn sem stóð með táningsstrák á aldri við litla bróður minn.

aðskilnaður kynjanna

AÐSKILNAÐUR KYNJANNA Í STAРSAMEININGAR

Það er erfitt að ímynda sér hvernig aðskilnaður kynjanna væri í íslensku samfélagi. Skemmtistaðir fyrir karla væru vinstra megin við Laugaveginn og konurnar færu hægra megin. Vesturbæjarlaugin yrði karlalaug og Sundhöllin kvennalaug.

En í samfélögum þar sem vandamálið er jafnstórt og raun ber vitni í Mexíkóborg er erfitt að sjá fyrir endann á því og sjálfsbjargarviðleitni tekur við.

Þegar jafnréttisbaráttan snýst um að lifa af, líkt og í Mexíkó, getur verið erfitt að takast á við rót vandans.

Aðskilnaður kynjanna í almenningssamgöngum, og svipaðar lausnir, geta mögulega virkað frá degi til dags en þær geta haft öfug áhrif til langs tíma og tvístrað samfélaginu í stað þess að sameina það. 

aðskilnaður kynjanna

Fleiri greinar eftir Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur.

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Kynsegin: Andlegar bitastærðir

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Stillt og prúð á ferðalagi

næsta grein
,,Ég vissi ekki betur“ - Kynfræðsla og gerendur


Lesa meira um...

Konur á móti körlum: Aðskilnaður kynjanna í Mexíkóborg