5. desember 2018

— TW —

Yfirleitt finnst mér ég hafa ótrúlega margt að segja um femínisma. En öðru hverju bara alls ekki. Stundum er ég alls ekki í skapi fyrir rökræður, skilgreiningar og að vera kölluð „pc“ — eins og ég hafi ekki sjálfstæðar skoðanir og fylgi bara boðorðum réttlætisriddara í blindni. Ég reyni eftir bestu getu að fylgja femínískum gildum en geri mér fulla grein fyrir því að ég er ekki fullkominn femínisti — hvernig get ég það þegar ég er alin upp í samfélagi feðraveldisins sem nærist á nauðgunarmenningu, gerendameðvirkni og ójafnrétti?

Feðraveldi. Nauðgunarmenning. Femínismi. Stór orð sem ögra og hræða. Orð sem fá fólk til þess að ranghvolfa augunum og hætta að hlusta/lesa. En af hverju finnst fólki þau svona fráhrindandi og eru þau eins gildishlaðin og mistúlkandi og fólk vill meina? Ég er ekki viss — en mér finnst ýmislegt.

skilgreining

Mér finnst það almenn skynsemi að vera femínisti, styðja jafnrétti kynjanna og leggja áherslu á að útrýma mismunun. Það fólk sem ég spyr hvort séu femínistar og eiga erfitt með að svara játandi, segja ýmist að „það fari eftir því hvernig femínismi sé skilgreindur“ og eins að „það sé ekki víst hvort það megi skilgreina sig sem femínista án þess að vera eldheitur aktívisti“.

En málið er að það er ekki til innrömmuð yfirlýsing með 100 reglum sem þú þarft að fylgja í einu og öllu og þá ertu femínisti — og mér finnst skilgreiningar femínisma ekki vera flóknari en svo; hugmyndafræði/stefna sem snýr að bættu jafnrétti, þar sem áhersla er lögð á jöfn tækifæri og lífsgæði allra kynja.

Við getum öll gert mistök en lykilatriðið er að átta sig á þeim, viðurkenna þau, taka ábyrgð og gera betur næst.

Óöryggi og vanþekking ýta undir hræðslu og fordóma og koma í veg fyrir að við viðurkennum þegar okkur verður á og lærum af reynslunni. Gagnrýnin hugsun og fræðsla er okkar besta vopn gegn hvers kyns fordómum. Ekki bara fordómum gegn femínisma. Lesum okkur til áður en við drögum ályktun í skyndi. Skoðum allar hliðar og spyrjum sjálf okkur „af hverju?“ og „af hverju ekki?“.

Æfum okkur í því að hlusta á hvað aðrir hafa að segja og vöndum okkur í samskiptum. Við þurfum ekki alltaf að vera sammála. Femínistar eru jafn ólíkir og þeir eru margir, þó svo að meginmarkmið þeirra sé það sama — jafnrétti.

Mér finnst feðraveldið glatað. Það er staðreynd að völdin hafa legið hjá körlum í gegnum tíðina. Þeir sáu fyrir fjölskyldunni, réðu yfir peningum heimilisins og tóku langflestar ákvarðanir varðandi sig, eiginkonu og börn.

En feðraveldið á ekki við um vald allra feðra né að allir feður séu vondir. Alls ekki! Feðraveldið er íhaldssamur samfélags- og menningarstrúktúr þar sem körlum er gert hærra undir höfði, þar sem karlmennska er talin æðri en kvenleiki. Feðraveldi lýsir kerfi sem rígheldur í fyrirframákveðnar og fastmótaðar staðalímyndir fortíðar, stuðlar að tvíhyggju og útilokar önnur kyn en karlkyn og kvenkyn.

Feðraveldið lifir á gamaldags kynjahlutverkum og valdaójafnvægi sem hamlar einstaklingum að vera þeir sjálfir. Feðraveldið er kveikja kynbundins ofbeldis og feðraveldið veldur því að enn þann dag í dag er ofbeldi normalíserað. Það er svo stór hluti af okkar menningu og lífi að man hefur varla undan að bregðast við og mótmæla.

Það má vel vera að feðraveldið hafi ekki eins mikil ítök hér og annars staðar í heiminum, en annað vandamál þarf ekki að útiloka hitt og samhliða femínískri baráttu hér á landi getum við unnið að bættu jafnrétti annars staðar.

Mér finnst að við ættum öll að vera duglegri að taka afstöðu. Það eitt er stórt skref.  Verum femínistar. Segjum upphátt ef okkur misbýður vegna orðræðunnar eða gjörða. Drögum vandamálið úr skugga þagnarinnar og ræðum hlutina. Stingum á ljót feðraveldiskýli og sótthreinsum þau með femínisma.

Tileinkum okkur samkennd (e. empathy), lærum og æfum okkur í því að setja okkur í spor annarra og hlusta. Hættum að upphefja ofbeldi og hírarkíu (e. hierarchy) í daglegu lífi. Tölum og hlustum. Við þurfum ekki að bera virðingu fyrir skoðunum annarra, en berum virðingu fyrir hvert öðru, við erum öll mennsk.

Mér finnst ömurlegt að við sættum okkur enn við samfélag þar sem nauðgunarmenning lifir góðu lífi; Menningu sem viðheldur og ýtir undir kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn konum. Við sem samfélag látum eins og það sé eðlilegt að einstaklingar nauðgi, að það sé náttúrulegur hluti af mannlegu eðli.

Við ölum börnin okkar upp við þann veruleika að yfirgnæfandi líkur séu á því að þeim eða einhverjum þeim nákomin verði nauðgað. Við kennum börnunum okkar aðferðir til þess að komast hjá því að vera nauðgað í stað þess að kenna þeim að nauðga ekki.

Mér finnst að við ættum að einblína á rót vandans — það er enn verið að beita ofbeldi. Nauðgunarmenning er ekki einstaklingsvandamál þar sem lausnin er að framleiða nærbuxur, límmiða og pillur sem eiga að koma í veg fyrir að þér verði nauðgað. Nei, við þurfum að koma í veg fyrir ofbeldið áður en það er framkvæmt.

Það er svo bilað að normið sé að hvetja stelpur (og fólk) til að passa sig („ekki drekka of mikið eða þiggja drykk frá ókunnugum“, „viltu ekki bara taka leigubíl heim, ég skal borga hann“, „ekki senda myndir af þér ef þú vilt ekki að þeim sé dreift“ eða „passaðu þig á leiðinni heim, veldu fjölfarnar og upplýstar götur“ o.s.frv.). Ég skil hvers vegna, við viljum passa upp á börnin okkar.

En pössum frekar upp á alla litlu gerendurna, þ.e. áður en þeir verða gerendur. Pössum að samfélagið kenni ekki börnunum okkar að nauðga — kennum þeim að samskipti og virðing séu lífsnauðsynleg tól gegn ofbeldi. Hægt er að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi með bættri fræðslu, betri samskiptum og með því að gera greinarmun á ofbeldi og kynlífi.

Kynlíf er kynlíf, ofbeldi er ofbeldi, tæklum það sem slíkt. Það eina sem kemur í veg fyrir nauðgun er að sleppa því að nauðga.

Gerendameðvirkni finnst mér lýsa sér í algengum viðbrögum samfélagsins þegar brotaþolar stíga fram og segja frá ofbeldi. Hún speglast í því að fólk á erfitt með að trúa því að gerandi hafi brotið af sér, og telur sér trú um að þolandi sé (af einhverjum óskiljanlegum ástæðum) að ljúga. Gerandi fær að njóta vafans á kostnað þolanda. („En hann er svo góður gaur“, „Sér hún ekki bara eftir því að hafa farið heim með honum“ eða „er hún ekki bara að kæra til þess að græða pening“.)

Mér finnst eitt skýrasta dæmi gerandameðvirkni vera umfjöllun fjölmiðla um þekkta ofbeldismenn; þar sem þeir eru vegsamaðir fyrir persónulega sigra í stað þess að þeim sé gefið svigrúm til þess að sjá að sér og takast á við afleiðingar brota sinna. Í stað þess að gera sér grein fyrir áhrifum umfjöllunar á brotaþola að persónugera nauðgunarmenningu í pistli um umdeilda menn.

Mér finnst skrímslavæðing vera sú tilhneiging okkar að hugsa um gerendur sem viðbjóðsleg skrímsli vegna alvarleika brotanna. Dæmigerð staðalímynd nauðgara er ókunnugur, vondur maður í myrku húsasundi sem ræðst á einsamar konur að kvöldi til. Raunveruleikinn er sá að gerandi er í fæstum tilfellum staðalímyndin af nauðgara. Gerandi er í flestum tilvikum þolandanum kunnugur – vinur, fjölskyldumeðlimur, maki, kunningi, vinnufélagi o.s.frv. Mannkyninu er ekki skipt upp í tvær fylkingar; gerendur vs. þolendur. Við getum öll farið yfir strikið og með því að vera meðvituð um okkar eigin gjörðir getum við saman myndað eina fylkingu, gegn ofbeldi (afsakið klisjurnar, samt ekki).

Skrímslavæðing getur komið í veg fyrir að þolendur segi frá vegna tengsla við gerandann sem og gert gerendum erfitt fyrir að axla ábyrgð af hræðslu við útskúfun úr samfélaginu.

Það hefur margt gott gerst í femínískri baráttu síðastliðin ár. Samfélagið er mun meðvitaðra og það er alltaf gott að fá klapp á bakið af og til. Stígamót, Kvennaathvarfið, Druslugangan, Femínistafélög í skólum, Kvennahreyfingar stjórnmálaflokkanna, W.O.M.E.N. Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtökin ’78 og svo ótal mörg önnur samtök hafa unnið fullt af sigrum — en það er ekki nóg.

Við urðum flest vör við femínísku byltinguna #metoo sem hófst fyrir ári síðan og kollvarpaði þeirri hugmynd sem samfélagið hafði um veruleika kvenna — þ.e. þeirri hugmynd sem karlar höfðu um veruleika kvenna. Allflestar konur tengdu við frásagnirnar en stór hluti þeirra karla sem ég þekki og kannast við voru hissa á fjölda þeirra kvenna sem stigu fram og þ.a.l. áttuðu sig ekki á alvarleika vandamálsins sem kynbundið ofbeldi er.

Fjöldi þeirra kvenna sem stigu fram og sögðu sína sögu sýnir hversu langt við erum komin í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, en á sama tíma hversu hræðilega stutt.
Mér finnst ýmislegt.

Mér finnst glatað að það séu ekki allir femínistar —
því annars værum komin lengra.

Mér finnst samt stórkostlegt að til séu femínistar —
og þess vegna höfum við náð svona langt.

Mér finnst frábært að fólk sé alls konar. Alls konar femínistar;  Skvísufemínistar, rokkfemínistar og hipsterfemínistar. Mjúkir femínistar og harðir, hægri sinnaðir femínistar og vinstri sinnaðir femínistar. Bókafemínistar og bankafemínistar. Öfgafemínistar…

Ég er afurð feðraveldisins, en sem femínisti er ég að reyna að brjótast undan krafti þess. Mér verður á í messunni. Ég hugsa t.d. oft ósjálfrátt um konu þegar ég heyri orðið leikskólakennari og mér dettur fyrst í hug karl þegar ég hugsa um bifvélavirkja og sjómenn. Ég dæmi stundum annað fólk fyrir það eitt að vera eins og það er og fara út fyrir rammann.

Ég viðurkenndi ekki fyrir sjálfri mér kynferðisofbeldið sem ég varð fyrir, fyrr en nokkrum árum seinna og enn kenni ég sjálfri mér stundum um að hafa verið nauðgað. Ég skammast mín af og til fyrir að hafa boðið honum í heimsókn og fyrir að líða eins og mér líður.
En það er valdeflandi að vita um alla hina femínistana og sjálf reyni ég að vinna úr samviskubitinu sem ég fæ fyrir að vera ekki 100% femínisti. Við gerum öll mistök, stundum reynum við að ögra og skellum upp varnarhjúp. En það vinnst ekkert með því að afneita feilsporum og hrökkva í vörn. Grípum mistökin og lærum af þeim.

Mér finnst við geta gert svo miklu betur
og mér finnst að þér ætti að finnast það líka.

Fleiri greinar eftir Evu Sigurðardóttur.

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Fjölmenning: Af höfuðklútum og öðrum klútum

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Karlmennskan: Þurfa menn kannski bara að vera duglegri að axla ábyrgð?

næsta grein
Skoðanaskipti: Hver má hafa skoðun á hverju?


Lesa meira um...

Skilgreiningar: Mér finnst að þér ætti að finnast