3. mars 2019

Konur eru oft krafðar um að breytast til að laga sig að alls konar samfélagslegum kröfum eða kerfisgöllum. Konur þurfi bara að vera duglegri að sækja um stjórnunarstöður til að fá þær.
Hvar er karlmennskan? Konur þurfi bara að vera duglegri að biðja mennina sína um að hjálpa til við heimilisverkin svo þær þurfi ekki að sjá um þetta allt einar. Vera ákveðnari, harðari í samningagerð eða almennt meira eins og kallakallar til að njóta vegs og virðingar.

En gæti verið að það séum við, karlar, sem þurfum að breyta okkur?

Ég velti því fyrir mér hvort að djúp vanvirðing karlmanna fyrir tíma, geðheilsu kvenna og álaginu sem þær eru undir – með því að taka ekki hugrænu byrðina* af ólaunuðum störfum heimilishaldsins – kunni að spila hlutverk í því hversu fáar konur eru stjórnendur. Hvort að hundurinn liggi grafinn inni á okkar eigin heimili?

karlmennskan

KONUR MEÐ LENGSTA HEILDARVINNUTÍMANN

Rannsóknir sýna ítrekað fram á að konur sinna uppeldi barna, umönnun og heimilisstörfum frekar en karlar. Ójafna skiptingu á umönnunarábyrgð telur fólk vera samkomulag, en ekki að það halli á annað hvort.

Ég velti fyrir mér hvort að fólk viti af því að konur í fullri vinnu með börn og mann eiga lengsta heildarvinnutímann (launavinna, ólaunuð umönnunarstörf, heimilisverk og barnauppeldi). Næst lengsta heildarvinnutímann eiga einstæðar mæður í fullu starfi.

Það virðist því vera aukin vinna fyrir konur að eiga mann. Enda verja karlar þriðjungi minni tíma við heimilistörf en konur. Jafnvel atvinnulausir karlar verja ekki jafn miklum tíma og konur að meðaltali í heimilisstörf. Fyrir utan hina augljósu vanvirðingu og ábyrgðafirringu karla á heimilisstörfum, þá sýna rannsóknir að sú mikla ábyrgð sem konur bera á heimilisstörfum og uppeldi geti haft áhrif á möguleika þeirra til starfsframa.

HLUTFALL KVENNA Í ÆÐSTU STJÓRNENDENDASTÖÐUM

Í þessu ljósi er áhugavert að skoða hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja og í störfum æðstu stjórnenda samkvæmt skýrslu félags- og jafnréttismálaráðherra frá 2018 um stöðu og þróun jafnréttismála 2015-2017. Konur voru að meðaltali einungis 16 % stjórnarmanna í fyrirtækjum á Íslandi árið 2008, 24% árið 2012 (skömmu eftir lagasetningu um jafnari hlutföll) og 34% árið 2016. Þróunin virðist því vera í átt til jafnræðis, sérstaklega eftir lagasetningu um lágmarkshlutfall kvenna (eða karla) í stjórnum.

Staðan er hins vegar öllu verri þegar kemur að hlutfalli kvenna í störfum forstöðumanna, framkvæmdastjóra eða forstjóra. Þrátt fyrir að hlutfall útskrifaðra háskólanema sé tæplega 70% konum í vil, gegna þær mun sjaldnar æðstu störfum í 100 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi.

Forstjórar 100 stærstu fyrirtækjanna eru til dæmis í 89% tilvikum karlar, framkvæmdastjórar eru í 73% tilvikum karlar og forstöðumenn eru í 67% tilvikum karlar. Þrátt fyrir að karlar séu oftast í æðstu störfum fyrirtækja, njóti þar af leiðandi frekar sveigjanleika og sjálfræðis en konur, virðist það ekki skila sér í aukinni ábyrgð á umönnun, uppeldi og heimilishaldi.

KARLMENNSKAN OG HUGRÆNA BYRÐIN

Vandamál annarra geta ekki réttlætt vandamálin mín. Menn hafa allt of lengi komist upp með að taka ekki ábyrgð á sínum skít. Þyrlað upp ,,not all men“-rykinu í þeirri viðleitni að þurfa ekki að horfast í augu við sjálfa sig.

Sumir menn benda á, í slíkum tilraunum til frávarps, að konur vilji frekar hafa hreint, vera með börnunum, þvo þvott og karlmennskan hafi ekkert með þessa hluti að gera, eða eitthvað annað til að réttlæta eigin hegðun (eða skort á henni). Í öðru samhengi gætu áðurnefndir menn sagt að konur séu ekki nógu duglegar að sækja um stjórnunarstörf eða að konur séu ekki nógu hæfar.

Segjum sem svo að þessi ósannindi séu sönn, en þá breytir það ekki þeirri staðreynd að menn axla ekki sína ábyrgð á heimilisstörfum og uppeldi. Menn eru ekki að standa sína plikt í að taka helminginn af hugrænu byrðinni (e. mental load) á ólaunuðum störfum heimilislífsins til móts við maka sinn. Taka byrðina, ábyrgðina og stjórnina, ekki vera „duglegur að hjálpa“. Ekki bíða eftir að vera beðinn um að setja í vélina, taka úr vélinni eða ryksuga.

Hvort sem að ábyrgðarleysi karla sé meginástæða, hluti ástæðu eða alls engin ástæða fyrir fjarveru kvenna í æðstu störfum þá tel ég það hræsni að segjast vera jafnréttissinni eða femínisti og taka ekki jafna ábyrgð á heimilishaldinu. Ekki bara hræsni, heldur vottur um djúpa vanvirðingu fyrir konum. Það elskar enginn að þrífa, vaska upp, setja í vél, taka úr vél eða yfir höfuð vinna launalausa vinnu. Nema kannski konan þín, hvað veit ég?— — —

* Mental load. Hugtak sem birtist fyrst í myndasögunni ‘You should’ve asked’ eftir  Emma.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Kvenleiki: Vald í nýju bleiku ljósi

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Skoðanaskipti: Hver má hafa skoðun á hverju?

næsta grein
Fjölmenning: Af höfuðklútum og öðrum klútum


Lesa meira um...

Karlmennskan: Þurfa menn kannski bara að vera duglegri að axla ábyrgð?