*TW* Kynferðisleg áreitni
Það eiga sér stað mistök á öllum vinnustöðum. Einhver gleymir að senda mikilvæga skýrslu, slökkva ljósin, loka glugga eða setja uppþvottavélina í gang. Það getur komið upp misskilningur um allskonar hluti, s.s. fundartíma, verkaskiptingu eða ákvarðanir. Mistök geta vissulega verið afdrifarík og misskilningur getur valdið leiðindum, en í langflestum tilfellum er tekið á svona málum á fumlausan og vandræðalítinn hátt. Það er ekkert vandræðalegt við að minna fólk á að loka gluggum og það er allt í lagi að ræða verkaskiptingu ef fólk heldur að um misskilning hafi verið að ræða.
Kynbundið misrétti á sér líka stað á öllum vinnustöðum. Það birtist með ólíkum hætti, t.d. með óviðeigandi talsmáta, niðurlægjandi bröndurum eða jafnvel líkamlegri áreitni og ofbeldi. Sumstaðar endurspeglar verkaskiptingin staðalmyndir kynjanna frekar en færni hlutaðeigandi einstaklinga, og ómeðvituð en lærð kynhlutverk geta haft umtalsverð áhrif á samskiptamynstur og samvinnu. Af einhverjum ástæðum eru viðbrögð við slíku ekki jafnfumlaus og þegar annars konar mistök eiga sér stað.
Hvað veldur? Hvers vegna get ég umhugsunarlaust minnt samstarfsmann minn á eitthvað sem hann gleymdi en ekki brugðist við kynferðislegri áreitni af hans hálfu? Hvers vegna getur yfirmanneskja auðveldlega sent út fjöldapóst til að minna á að slökkva ljósin en á erfitt með það sama vegna tvíræðra brandara, jafnvel þótt ítrekaðar kvartanir hafi borist um slíkt?
Við þessu er svo sem ekki til neitt einfalt svar, en viðteknar venjur og norm eru án efa stór hluti skýringarinnar. Það er sjálfsagt og eðlilegt að slökkva ljósin að vinnudegi loknum. Við erum öll sammála um það og ætlum fólki ekki neitt illt þótt eitthvað gleymist. Þrátt fyrir vitundarvakningu undanfarinna ára erum við ekki komin jafnlangt þegar kemur að jafnréttismálum. Því miður er ekki hægt að segja að við séum öll sammála um að niðurlægjandi brandarar eða athugasemdir séu óviðeigandi, né heldur að við séum sammála um orsakir og afleiðingar þeirra. Þess vegna er svo óskaplega erfitt að bregðast við.
Gerandinn myndi ólíklega viðurkenna óviðeigandi hegðun, biðjast afsökunar og bæta sig eins og hann myndi gera ef hann hefði gleymt að loka glugga. Þess í stað myndi hann líklega saka mig um ofurviðkvæmni, húmorsleysi eða illgirni í hans garð og fókusinn myndi mjög fljótlega færast frá hans gjörðum yfir á mína upplifun. Ég þyrfti að útskýra af hverju mér þætti hans framkoma óviðeigandi. Ákveði ég að bregðast við, þarf ég því að vera blíð og róleg og tilbúin til að rökræða athugasemd mína. Enda hefur reynslan kennt mér og öðrum konum að fátt þykir verra en hömlulausar konur sem ærast yfir smáatriðum.
Ákvörðun um viðbrögð snýst ekki bara um mig og gerandann. Ef ég bregst við er ég nefnilega að sækja í átök og eyðileggja annars góða stemningu. Viðbrögðin geta sett pressu á annað samstarfsfólk að taka afstöðu með eða á móti, afstöðu sem flestu fólki þykir erfitt að taka og hefur lítinn áhuga á að flækjast inn í. Jafnvel þótt fólki misbjóði hegðun gerandans nennir það almennt ekki þeim átökum sem fylgja í kjölfarið; rökræðunum um réttmæti athæfisins og viðbragðanna. Með því að bregðast við get ég því skapað mér óvinsældir á vinnustaðnum, ekki aðeins hjá gerandanum, heldur einnig öðru samstarfsfólki.
Í stað þess að bregðast sjálf við gæti ég leitað til yfirmanneskju minnar. Það er ekki heldur vandræðalaust, því þar með er ég að afhjúpa eigin veikleika og velta vandanum yfir á hana í stað þess að taka sjálf á málum. Hennar staða er auk þess ekkert betri en mín, hún myndi þurfa að taka sömu rökræður og ég um viðkvæmni, húmorsleysi og illgirni og þess utan að réttlæta af hverju hún taki mark á mínum orðum en ekki hans.
Auðvitað ætti þetta ekki að vera svona. Þótt kvenfyrirlitning eigi sér ótal birtingarmyndir eru atvikin sjaldnast byggð á meðvituðum ákvörðunum eða illvilja. Þær eru félagsleg afurð samfélags þar sem karlar og konur standa ekki jafnfætis, þar sem við göngumst upp í hlutverkum sem hæfa staðalmyndum okkar félagslega úthlutaða kyns, þar sem hið karllæga er metið ofar hinu kvenlæga.
Þessar birtingarmyndir eru afurð samfélags þar sem fólk af öllum kynjum tekur ómeðvitað frekar undir með körlum, þar sem nöfn kvenna eru síður lögð á minnið, þar sem karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta stjórnunarstaða og konur sjá um þrif, þjónustu og umönnun. Við ættum að sjálfsögðu að geta bent á það sem miður fer í fullri vinsemd og ábendingum sem varða kynjajafnrétti ætti að vera tekið jafnalvarlega og öðrum athugasemdum.
Núverandi ástand og þær hömlur sem koma í veg fyrir að við ræðum óviðeigandi framkomu gegna mikilvægu varnarhlutverki fyrir samfélag misréttis. Það er nefnilega ómögulegt að breyta því sem ekki má ræða.
Það er hægt að uppræta kynbundið misrétti á vinnustöðum. Fyrsta skrefið er að taka mark á athugasemdum sem berast og fagna þannig gagnrýninni hugsun starfsfólks sem leyfir okkur í sameiningu að efast um gildandi kynhlutverk. Stjórnendur þurfa að vera tilbúnir að endurskoða verðmætamat, kynjaða verkaskiptingu og þau tækifæri sem veitt eru á vinnustaðnum. Gerendur kynferðislegrar áreitni verða að taka ábendingum um slíkt af alvöru. Á góðum vinnustað er fólk metið að verðleikum, það kemur vel fram hvert við annað og það passar í sameiningu upp á þessi gildi, rétt eins og að slökkva ljós og loka gluggum.