30. nóvember 2018

„Bregðist við núna, fá­bján­ar“ — Mbl.is
„Final call to save the world from ‘climate catastrophe“ — BBC News
„We have 12 years to limit climate change catastrophe, warns UN“ — The Guardian

Ég verð að viðurkenna að fyrstu drögin að þessum pistli voru frekar afdráttarlaus. Ég var búin að telja upp allar þær vonlausu ástæður fyrir því að við sem samfélag myndum aldrei ná að tækla hamfarahlýnunina sem er komin af stað. Við værum svo háð eigin neyslumynstri, stórfyrirtækin myndu aldrei sjá sér í hag að draga úr kolefnislosun, stjórnvöld væru ekki nógu ákveðin til að hrista upp í almenningi… þið skiljið hvert ég er að fara. En svo fór ég að spá. Gagnast einhverjum raunverulega að lesa heilan pistil um hvað þetta sé allt vonlaust? Væri ekki frekar öflugra vopn í baráttunni við loftslagsbreytingar að reyna að halda bjartsýninni á lofti, því sem við getum gert? 

Jú, vissulega birti IPCC sína árlegu skýrslu, sem fjallaði um hamfarahlýnun, núna í október sem minnti okkur á hve alvarlegur vandinn er. Hann er geigvænlegur. Rosalegur. Og við þurfum að taka drastískar ákvarðanir. Ákvarðanir sem munu breyta lífsstíl okkar til muna. 

hamfarahlýnun

Í millitíðinni, á meðan ég læt mig dreyma um að stjórnvöld hysji upp um sig buxurnar; lagt verði blátt bann við kjötneyslu, íslenskir bændur hefji allir grænmetisrækt og stóru olíufyrirtækin taki sig saman í andlitinu og hætti þessu rugli, þá get ég rifjað upp hvað ég get gert.

Nú er ég ekki að færa ábyrgðina á neytandann, hinn almenna borgara. Ekki misskilja mig. En samt… við verðum að gera eitthvað til að stöðva hamfarahlýnun. Það er nefnilega mjög auðvelt að fallast hendur á meðan fólkið í kringum okkur virðist ekki gera neitt, en það er ekki eina leiðin. Loftslagskvíðinn má ekki gleypa okkur, af því þá fyrst er baráttan töpuð. Að því sögðu er nefnilega ein grein sem poppar reglulega upp í hausnum á mér, en hún kemur einmitt inn á þetta, hvernig öll smáu skrefin telja. Hvernig við eigum ekki að láta aðgerðarleysi almennings hamla okkur. 

Fyrir síðustu jól birti Guðni Elísson stutta grein á Vísi þar sem hann hampaði mikilvægi þess að gefa vatnsdælur í jólagjöf, þessa sönnu gjöf frá Unicef. Það myndi ekki aðeins auka lífskjör fólks í fátækari heimshlutum sem fengju vatnsdælu í sitt litla þorp, heldur myndi það hafa keðjuverkandi áhrif. Aukin lífskjör fyrir þessi litlu þorp þýddu aukin lífskjör kvenna sem þýddi að þær fengju menntun og myndu þar af leiðandi vera líklegri til að eignast færri börn. Og það væri eitt af því umhverfisvænasta sem hægt væri að gera. Að eignast færri börn. 

Aukin kvenréttindi þýða því umhverfisvænni lífshættir. Þarna sláum við svo sannarlega tvær flugur í einu höggi. Jafnvel fleiri! Allir vinna! En af hverju finnum við okkur alltaf knúin til að slá fleiri en eina flugu í hverju höggi? 

Jú, í nútímasamfélagi erum við alltaf að kappkosta við að gera sem mest á sem stystum tíma. „Pantaðu matinn á netinu og pikkaðu hann upp á leiðinni heim úr vinnunni.“ „Hlustaðu á nýjustu hljóðbókina meðan þú klárar skrefafjölda dagsins, og náðu helst að plokka rusl í leiðinni.“ 

Samkvæmt rannsókn frá 2015 er fólk líklegra til að að hafast eitthvað í loftslagsbaráttunni ef það sér einhvern viðbótarávinning (e. co-benefits) af gjörðum sínum. Hér er átt við að það er ekki nóg að ætlast til þess að fólk gjörbreyti lifnaðarháttum sínum eingöngu loftslagsbreytinganna vegna. Þær virðast oft vera of vítt hugtak, of stór biti að kyngja. Þess í stað er fólk líklegra til aðgerða ef af þeim fæst um leið einhver beinn, áþreifanlegur ávinningur. Takast á við loftslagsbreytingar OG bæta efnahagskerfið? Minnka mengun? Bæta kjör kvenna í fátækari heimshlutum? Ok, GEGGJAÐ.

Þessa tengingu skildi Guðni Elísson þegar hann skrifaði greinina um vatnsdælur fyrir síðustu jól. Win–win. Og það er kannski þetta sem við ættum að vera duglegri að gera. Jú, við getum einnig hugað að grænni jólum, eins og ég sá marga Facebook vini mína deila grein um í október, en jólagjöfin sjálf getur einmitt verið hluti af þessu. Ég þekki það nefnilega alveg af eigin raun hvernig loftslagskvíðinn getur heltekið mig við tilhugsunina um hina kapítalísku klikkun sem jólin geta verið. Allar jólagjafirnar, pappírinn, skreytingarnar, maturinn. Ég fæ kaldan svita við tilhugsunina. En það hægir á kvíðanum þegar ég man að ég þarf ekki að taka þátt í þessu af fullum krafti. 

Ég skulda jólunum ekki neitt. 

Feminismi og aðgerðir gegn hamfarahlýnun geta haldist í hendur. Ég hef heyrt marga halda því fram að um leið og þú virkilega fattar hve alvarlegur loftslagsvandinn er að þá ættirðu ekki að hugsa um neitt annað en loftslagsbreytingar, þær ættu að eiga hug þinn allan. 

En það er engum hollt að sökkva sér í fen loftslagskvíðans. Við getum það ekki. Þess í stað getum við haldið áfram að gera okkar besta í loftslagsbaráttunni, og ef við getum fléttað kvenréttindum inn í þá baráttu segi ég bara snilld. Takk og bless. Lengi lifi og allt það. 

Þessi pistill er ekki áfellisdómur sem slíkur, heldur raunsæ áminning um það sem hægt er að gera í hamfarahlýnun á meðan stóru aðgerðirnar láta á sér standa. Ég finn sjálf fyrir þessari þörf til að réttlæta gjörðir mínar í einu og öllu og það er góð tilhugsun að leggist fólk í púkk um eina vatnsdælu í jólagjöf geti það haft svona víðtæk áhrif. Að ein vatnsdæla geti ekki aðeins brotið niður hömlur kvenna í fátækari heimshlutum og gert þeim kleift að öðlast menntun, heldur hafi það bein áhrif á sjálfa mig.

Þá er ég ekki að yfirfæra vandann á einhvern annan, gera ráð fyrir því að loftslagsbreytingar séu að gerast annars staðar og ég þurfi ekki að pæla í þessu. Þvert á móti er ég meðvitað að finna leiðir til að takast á við loftslagsvandann og bæta réttindi kvenna. Er það ekki eitthvað? 

Ekki láta loftslagskvíðann hamla ykkur. Litlu skrefin, krakkar. Þau telja.

Fleiri greinar eftir Sólu Þorsteinsdóttur.

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Hömlur: Tölum um tilfinningar

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Núvitund í +3,5°C

næsta grein
Sóley Tómasdóttir - Muna: Loka gluggum og sleppa áreitni!


Lesa meira um...

Hamfarahlýnun: Tvær flugur í einu höggi