Skoðanaskipti eru fíngerð list sem fáir hafa fullkomin tök á. Það er eiginlega furðulegt hvað mannleg samskipti vefjast fyrir okkur. Það er ekki það sama að eiga í skoðanaskiptum og að gefa skoðun sína á einhverju. Bara eins og með jólagjafir. Nema kannski ekki eins og með jólagjafir, því það er betra að gefa skoðanir en að taka við þeim.
Á þessum bestu og verstu tímum hefur myndast skilvirkur vettvangur þar sem allir hafa, allavega að nafninu til, jafnan aðgang að pallborðinu. Hver sem er getur tjáð sig um hvað sem er. Þetta gæti verið fullkominn vettvangur upplýstra skoðanaskipta um hvers kyns mál sem varða samfélagið en það hefur ekki ennþá tekist. Andrúmsloftið er undarlegt.
Á samfélagsmiðlum hafa myndast klön eða ættbálkar. Maður tilheyrir sínu klani, byggir sína ímynd á því og á í mildum skoðanaskiptum innan þess. Ef þú ert ekki nógu fljótur að reiða fram skoðun þína á hnitmiðuðu og jafnframt hnyttnu máli þá er ráð að deila og endurbirta skoðanir annarra í klaninu. Þetta styrkir stöðu þína og ímynd og jafnframt sýnir það öðrum hvaða klani þú tilheyrir.
Í fyrrnefnda klaninu er síendurtekin siðferðileg fegurðarkeppni þar sem allir keppast um að vera vinsælasta stelpan; allir vilja heimsfrið, útrýma fátækt, taka við fleiri flóttamönnum og bjarga umhverfinu. Meðlimir þessa klans öskra hástöfum þegar Sigríður Á. Andersen birtist, ætla að hætta að neyta dýraafurða og passa sig ofboðslega á því að allir hafi rödd. Og ekki ætla ég að gagnrýna þessi göfugu markmið.
Á meðan kvartar hinn hópurinn yfir því að ekkert megi. Hér ætla ég að koma lesendum á óvart og segja að það er eitthvað til í þeirra rökum, örlítið sannleikskorn.
Það vita allir sem eitthvað til samfélagsmiðla þekkja hvaða kvartanir ég er að tala um: „ekkert má maður segja lengur”. Í háði er talað um grey snjókornin sem eru svo viðkvæm og sérstök. Þetta tal er útúrsnúningur á kröfum femínista um að hætta eigi að skilgreina hinn hefðbundna einstakling sem heterónormatívan ófatlaðan karl. Samfélagið samanstendur af allra þjóða kvikindum; körlum, konum, kynsegin; fötluðum og ófötluðum; heimspekingum og hagfræðingum. Við erum öll mismunandi og taka þarf tillit til þess. Útúrsnúningurinn er sá að þetta byggist á viðkvæmni en ekki bara einfaldri kröfu um sæmd.
Hins vegar er sannleikskorn í ábendingum frelsishetjanna. Sannleikskorn sem ég, einstaklingur sem flestir myndu flokka í klan góða fólksins ef dæma ætti á aldri og fyrri störfum, þori eiginlega ekki að tala um opinberlega innan míns klans. Sannleikurinn er sá að ég er farin að ritskoða sjálfa mig af hræðslu við að vera sökuð um að grípa fram í fyrir réttmætum skoðunum minnihlutahópa.
Góða fólkið er mjög passasamt og vill með engu móti koma í veg fyrir að fólk í minnihlutahópum fái að tjá skoðun sína og reynslu. Klanið deilir reynslusögum þeirra þvers og kruss. Þetta er frábært. Svona fá raddir sem lengi hafa ekki fengið að heyrast byr undir báða vængi. Þetta er #metoo byltingin. Konur opna sig um kynferðisofbeldi. Ég ítreka: þetta er frábært.
Í kjölfarið fer fólk (oftast valdamiklir karlar) að tjá sig um að það sé kannski staður og stund fyrir yfirlýsingar og ásakanir. Efast kannski um réttmæti þessarar eða hinnar ásökunarinnar eða einfaldlega leggur tóm orð í belg, bara til að vera með.
Ef þú hefur ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi þá hefurðu ekki rétt á að tjá þig um það (nema kannski til að rítvíta og vera styðjandi). Ég hef haldið aftur af mér að tjá mig um mál af hræðslu við að vera útskúfuð úr klaninu fyrir óvinsælar skoðanir á málum sem ég hef ekki reynslu af þó að ég haldi í alvöru að ég geti lagt eitthvað hjálplegt til málanna.
Óskrifaðar reglur klans góða fólksins hafa því orðið eftirfarandi: Konur mega tjá sig um kvennamál, enginn annar. Fólk með fötlun má tjá sig um málefni fatlaðra, enginn annar. Hinsegin fólk má tjá sig um hinsegin málefni, enginn annar. Undantekningu má gera ef skoðunin sem tjáð er endurspeglar í einu og öllu skoðun sem er almennt samþykkt af umræddum hópi. Skoðanaskipti hvað þetta varðar eru ekki leyfð
Önnur klön fylgja ekki þessum reglum sem fer fyrir brjóstið á einstaklingum ofangreinds klans. Þetta dýpkar gjánna sem þegar var djúp á milli ólíkra samfélagshópa. Klönin styrkjast sitt hvoru megin og ekkert rými er gefið fyrir skoðanaskipti þeirra á milli. Samfélagsmiðlar hjálpa okkur að fela það sem við viljum ekki sjá. Ef þú vilt ekki sjá það sem jakkafatakarlar hafa að segja um kynferðisofbeldi þá þarftu þess ekki.
Ekki einungis í lagalegum skilningi, en tjáningarfrelsi fólks á Íslandi er stjórnarskrárvarinn réttur, heldur í samfélagslegum skilningi. Nú hefur myndast togstreita á milli tveggja samfélagshópa. Annar hópurinn aðhyllist þá skoðun að tjáningarfrelsi þýði að allir megi tjá sig um hvað sem er og annað sé ritskoðun.
Hinn hópurinn túlkar tjáningarfrelsið þrengra, nefnilega sem frelsi fólks til að tjá sig um sína upplifun til að kynna fólki fyrir nýjum reynsluheimum. Þetta er þrengra tjáningarfrelsi að því leyti að þú ert ekki frjáls til að tjá þig um annað en þinn reynsluheim. Annars áttu einfaldlega að þegja, bíða og hlusta.
Margir ættu að gera það: þegja, bíða og hlusta. Af því að margir hafa ekkert til málanna að leggja. En það er að mínu mati misskilningur að segja að þeir sem eigi að þegja og bíða séu þeir sem hafi ekki beina reynslu af málefnunum sem um ræðir.
Þá er lausnin ekkert endilega sú að það eigi að banna fólki að tjá sig um mál, heldur eigi að gera þá kröfu til fólks sem ætlar að nýta sér tjáningarfrelsi sitt að það vandi sig. Það felst þá helst í því að horfast í augu við eigin fordóma (því það eru allir með fordóma!) og átta sig á því hvenær maður talar úr forréttindastöðu.
Ég og aðrir geta tekið þátt í umræðu um málefni sem snertir okkur ekki beint. Ein af grunnhugmyndum femínisma er að auka skilning og byggja brýr á milli ólíkra hópa. Þá má ekki segja að sumar skoðanir skipti ekki máli. Auðvitað geta sumar skoðanir skipt meira máli í ákveðnu samhengi, en til þess að grynnka gjána sem hefur orðið á milli ólíkra hópa verður fólk að geta átt í skoðanaskiptum, en ekki bara tjáð skoðun sína.
Þá þarf fólk að kunna að tjá skoðun sína af fordómaleysi og yfirvegun og það sem meira er, að vera tilbúið til að skipta um skoðun. Við skulum hætta að tjá bara skoðanir okkar, við skulum eiga í skoðanaskiptum og skipta um skoðanir! Þá fær femínisminn að blómstra.