12. desember 2019

„Vigdís, ég er með spurningu,“ sagði samnemandi minn við mig þegar ég gekk inn í Soffíubúð, kaffistofu heimspekinema, í fyrsta skipti í haust: „hefurðu orðið pólítískari eftir að þú snoðaðir þig?“ 

Ég man ekki vel hverju ég svaraði því ég var ekki komin að kaffikönnunni en þetta er bara ein af þeim ótal spurningum sem hafa kviknað eftir að ég snoðaði mig í sumar, bæði hjá mér og fólkinu í kringum mig.

Önnur spurning sem ég fékk var hvort ég hefði gert þetta í geðshræringu, hvort þetta hafi verið Britney moment.

snoðaði

O nei. Engin ofsatilfinning. Engin tár. Ég gekk bara inn á tyrkneska rakarastofu á Sonnenallee í Berlín og sagði „Guten Tag, können Sie mich bitte… *drrrrrrrrrrrrrr*“ og lék rakvél.1

„Af hverju snoðaðir þú þig?“ spurðu aðrir.

Ég var með aflitað hár niður á axlir og hef aldrei upplifað mig sem aðra eins skvísu. Helgina áður hafði ungur Breti sagt við félaga minn um mig: „You would think that all the inbreeding would stop them from looking this good“. Er það ekki annars hól? 

En ég fann að það var kominn tími til að kveðja skvísuna, bæði vegna þess að ég tengdi ekkert sérstaklega mikið við hana og svo var ég komin með rót og aflitun er dýrasti vítahringur sem mér dettur í hug fyrir utan smálán. 

Ég hafði þrjá kosti í stöðunni: viðhalda aflitunarhringnum og geta aldrei keypt mér íbúð (aflitun eða afborgun?), láta hárið vaxa og líta út eins og þriðja kynslóð á bótum í bresku fátækrahverfi eða snoða mig. Seinasti kosturinn fannst mér einfaldlega fýsilegastur.

Sá sem tók á móti mér á rakarastofunni brosti sínu breiðasta, varð við þessari bón minni og stuttu síðar horfði ég á ljósu lokkana á gólfinu og á mig, snoðaða, í speglinum.

Ég fann samstundis að ný Vigdís var fædd og sú Vigdís var … ekki það sæt.

Ég gekk út af rakarastofunni, bein í baki en með hendur í vösum á græna samfestingnum mínum. Ætli fólk horfi öðruvísi á mig núna? hugsaði ég, en mundi svo að ég var í Berlín þar sem þarf töluvert meira til að fólk eyði orku í að færa augasteinana. 

Ég fór beinustu leið og keypti mér eyrnalokka og hálsmen. Það liðu þá tíu mínútur frá því að ég lét raka af mér hárið og þar til ég reyndi að bæta upp „missinn“ með klæðnaði og fylgihlutum. Það var eitthvað sem togaði strax í mig að gera mig „sætari“ eða „flottari“. 

Ég geng nánast aldrei með skartgripi, hvað þá kaupi þá og ég er bara með eitt gat í eyranu.

Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki tími til kominn að fá sér göt í eyrun en þá hefði ég annaðhvort litið út eins og fótboltaspaði eða fimm ára stelpa í mánuð, með litla demanta í eyrunum. Það var fullmikið af hinu góða. Fínleg silfurkeðja og klemmuhringlokkar urðu fyrir valinu.

Í kjölfarið klæddi ég mig öðruvísi, var oftar í kjólum, pilsum eða þröngum buxum og bolum. Ég málaði mig oftar og passaði að það væri alltaf litur í augabrúnunum, eitthvað sem er vanalega frekar aftarlega á forgangslista mínum.

Ég fann mig að vissu leyti knúna til að undirstrika að ég væri stelpa og að aðrir sæju mig sem slíka. Ég hafði ekki pælt í því að kynvitund mín væri eitthvað sérstaklega sterk áður. Mér finnst og hefur alltaf fundist ég vera kona en hef ekki talið það eiga stóran þátt í sjálfsmynd minni. Ég var auðvitað ennþá „kona” en mér fannst það alls ekki jafn skýrt eða áberandi, utanfrá séð. Ómáluð í kynlausum fötum hefði ég ekki orðið hissa eða móðguð ef einhver hefði haldið að ég væri fermingardrengur.

Ég veit ekki hvort kynvitund mín hafi speglast meira í utanaðkomandi sjónarhorni en ég gerði mér grein fyrir, hvort hugmynd mín um hvað sé kvenlegt sé of einföld eða hvort mig hafi bara hreinlega langað til að vera sæt eða aðlaðandi. Eða kannski var það blanda af þessu öllu sem hafði áhrif á mig. 

Eftir ýmsar tilraunir með klæðnað, málningu og skartgripi leið mér eins og að það að vera „sæt“ passaði bara ekki þessu nýja lúkki. Útlitið fannst mér ekki geta orðið mýkra en yfirborð höfuðkúpunnar, sem var einmitt hrjúft, og smátt og smátt fór ég að fíla það. Þegar ég snoðaði mig svo aftur seint í sumar rétt áður en ég flutti aftur heim var ég komin yfir tilraunatímabilið. Ég fór að sleppa kjólunum (líka vegna þess að það var of kalt) og farin að njóta þess að vera svolítið óhefluð.

,,Var þetta ekki frelsandi?“

Jú það varð það. 
Fyrir sumar konur hefur það að snoða sig verið frelsandi því þær finna að þær eru fallegar þrátt fyrir berskjöldunina. Ekkert til að fela sig á bakvið og kannski ekkert til að fela.
Fyrir mitt leyti fólst frelsið að hluta til í því en líka í að líta suma daga bara ekkert sérstaklega vel út en vera sátt með það.

Ég fékk reyndar oft hrós og pepp og neikvæðar athugasemdir hafa frekar komið fram eftir að hárið fór að vaxa meira: „Já, þetta er miklu betra!“. Móðir mín var hins vegar ekkert að ritskoða sig þegar hún sagði: „Það er nú pínu eins og þú sért á leið í gasklefann“. Þessi hrottalega óviðeigandi athugasemd segir kannski eitthvað um það hvernig ég gat litið út og það af fúsum og frjálsum vilja. 

Svo er nú líka bara ákveðið frelsi í að þurfa ekki að þvo á sér hárið. 

Varð ég pólítískari eftir að ég snoðaði mig? Svo ég komi aftur að spurningunni sem mætti mér þegar ég byrjaði aftur í skólanum í haust. 

Ég veit það ekki. Hvað er það að vera pólítískur?
Það virðist felast einhver yfirlýsing í því þegar hvít kona snoðar sig. Hver sú yfirlýsing er, er ég ekki viss um. Í mínu tilviki var það bara eitthvað „fokk it“. 

Það fékk mig samt til að hugsa meira og það er raun frekar furðulegt að það að fara í klippingu fái mann sjálfan og aðra til þess.

Þetta var bara hár sem fór af höfði mínu í ruslið. Starfsemi líkama míns breyttist ekki neitt, ég átti sömu vini og fjölskyldu og almennt hugarangur mitt yfir veru minni og framtíð í heiminum hvarf ekkert.

En hugmyndir um það hver ég væri og hvernig ég ætti að vera eða ætti svo kannski alls ekkert að vera uxu hratt og áberandi rétt eins og lubbinn sem ég er með núna.




— — —

1 Ég komst að því síðar að viðeigandi sögn á þýsku hefði t.d. verið „rasieren“. Alltaf að læra 🙂

Fleiri greinar eftir Vigdísi Hafliðadóttur.

Verk eftir Önnu Kristínu Shumeeva á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Íslenskt rapp: Femínísk útópía hvað?

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Stillt og prúð á ferðalagi

næsta grein
Valið: Mun ég glata sjálfri mér ef ég fylgi hjartanu?


Lesa meira um...

Ég snoðaði mig