13. desember 2019

Eins og skýrt kom fram í seinustu útgáfu Vía — Móðir Jörð, er tengingin milli femínisma og umhverfisáhrifa mikilvægur liður í að skilja hvernig samfélagslegar venjur hafa áhrif á plánetuna jörð. Á þeim nótum langar mig að halda áfram. Mig langar að velta fyrir mér sambandinu milli heimilisúrgangs, kynjaðrar hegðunar og tungumálsins okkar og hvernig þetta samband hefur að lokum áhrif á umhverfið.

Við mennsku íbúar jarðarinnar höfum (langoftast) skaðleg áhrif á plánetuna okkar, meðal annars með ofaukinni framleiðslu- og neysluhegðun. Við erum illa í stakk búin til þess að vinna úr þessum áhrifum og vegna þess hvað við erum pikkföst í venjum okkar, sjáum við okkur ekki fært að gera þær hegðunarbreytingar sem til þarf til að minnka skaðlegu áhrifin.
Að því sögðu eru kannski ekki allir alveg jafn sekir, það fer eftir því hvaðan við erum og hvar við búum, af hvaða stétt við erum og hvernig við neytum. Ekki síst fer það eftir því hvers kyns við erum, hvort við skilgreinum okkur sem kvenkyns, karlkyns eða eitthvað annað.

Kynjuð hegðun hefur töluverð umhverfisáhrif. Það hvernig við höfum lært að haga okkur byggist meðal annars á því hvers kyns við erum og munurinn skilar sér í mismunandi umhverfisáhrifum. 

Eitt af þessum stóru umhverfisvandamálum sem við erum í stökustu vandræðum með, er meðhöndlun úrgangs af öllu tagi. Iðnaðarúrgangurinn er risastórt vandamál en þar á eftir kemur heimilisúrgangurinn og þá sérstaklega heimilisúrgangur okkar hér á Norðurlöndunum og öðrum efnahagslega vel stæðum hornum heimsins. Kerfin sem við notum til að meðhöndla ruslið okkar eru upprunnin á tíma iðnbyltingarinnar, en samhliða iðnaðinum sem jókst og þróaði með sér nýjar og fleiri vörur og pakkningar hefur neyslan og ruslið aukist jafnt og þétt.

Til verður þörf fyrir stærri og betri úrgangslosunarkerfi, en þau hafa ekki þróast í takt við aukna neyslu. Það má hafa í huga hér að iðnvæðingunni var stjórnað með karllægum gildum, með efnahagslegan vöxt í fyrirrúmi og hliðareinkenni eins og ábyrgðarleysi og kæruleysi gagnvart plánetunni. 

umhverfisáhrif

Þessa önnina fengum ég og samnemendur mínir í hönnun í Linné Háskólanum í Svíþjóð það verkefni að rannsaka endurvinnslustöð bæjarins með það í huga að hanna betri leiðir til að meðhöndla ruslið með samfélagslegs- og umhverfisvænni áherslum. Ég og tvær bekkjarsystur mínar 1 kusum að skoða þessa kynjuðu hegðun sem finnst á haugunum. Kveikjan var sú að okkur fannst athugavert hversu lítið var um kvenfólk á endurvinnslustöðinni og þótti mér það stemma vel við upplifun mína af Sorpu heima á Íslandi. Það virðist einhvernveginn vera meira um karla í þessu umhverfi, og fyrir því hlýtur að vera einhverskonar skýring. 

Svo virðist sem bæði starfsfólk á plani í endurvinnslustöðvum Sorpu sem og í Sorphirðu séu upp til hópa karlar.2 Það kemur svo sem ekki mikið á óvart, starfslýsingin felur í sér skítuga vinnu sem og að keyra og stýra stórum vélum, hefðbundið karlastarf eins og við þekkjum það. Staðalímyndin skýrir sig sjálf í tungumálinu okkar: Við segjum miklu frekar “ruslakall” en “ruslakerling”.

Einnig virðast viðskiptavinirnir, þeir sem fara í Sorpu að losa heimilisúrgang að stórum hluta vera karlar, því mætti jafnvel spyrja hvort úrgangslosun sé sá hluti heimilisstarfanna sem karlar eiga auðveldara með að tileinka sér? Afhverju ætli það sé? – kannski vegna þess að það felst í að setjast upp í bíl eða kannski afþví það er einskonar líkamleg vinna sem sjálfkrafa stimplast á karlana?

Þessi kynjaða hegðun í kringum úrgangslosun er samt margþættari en svo að hún einskorðist við kynjahlutföllin í Sorpu. Þessi kynjaða hegðun er ekki meðfædd heldur lærð, við lærum frá því við fæðumst hvers kyns hegðun þykir sæmileg í samræmi við kyn okkar sama hvers kyns við erum. Það á alveg jafn mikið við um hvernig við hegðum okkur í kringum rusl og kringum barbídúkkur, þótt dúkkurnar séu kannski augljósara dæmi um samfélagsmótaða kynjaða hegðun. 

Það að konur sinni frekar heimilisstörfum en karlar hefur verið margsannað en svo virðist sem þessi ábyrgðartilfinning dreifi sér lengra og nái einnig yfir umhverfisvæna hegðun kvenna. Samkvæmt rannsóknum eru konur líklegri til að sýna sterkari umhverfisvæn viðhorf og hegðun en karlar.3 Sömuleiðis þykir frekar kvenlægt að stunda umhverfisvæna hegðun, sem dæmi þykir ekki sérstaklega karlmannlegt að standa í flokkun og endurvinnslu. Þegar konur flokka er það eðlilegt en þegar karlar gera það þykir það í ósamræmi við kynjaða ímynd hegðunarinnar.4  

Þetta gefur til kynna að það sé kynjaður áherslumunur á því að standa í úrgangslosun (að henda rusli) og að endurvinna, þó svo að bæði feli í sér mjög svipaða hegðun. Að henda rusli þykir karllæg hegðun en að endurvinna þykir kvenlæg hegðun. 

Ef við fjarlægjum rusl úr samhenginu og hugsum einungis um aðgerðina ‘að henda’ eða ‘að kasta’ er einnig að sjá tengingu við hefðbundna karllæga hegðun. Ef við leitum að orðinu ‘throwing’ á veraldarvefnum og skoðum myndaniðurstöðurnar er aðallega að sjá karla, að mestu í sambandi við íþróttir. Upp kemur undirflokkur sem heitir einfaldlega ‘man’, einnig kemur upp flokkurinn ‘boy’ og ‘person’. Það kemur meira að segja upp undirflokkur sem heitir ‘fish’; google sýnir þér frekar myndir af körlum að kasta fiskum en myndir af konum að kasta, merkilegt!

Samband aðgerðarinnar ‘að kasta’ við kynjaðar venjur er einnig augljóst í tungumálinu okkar, sem dæmi er nýðyrðið “að kasta eins og stelpa” hlaðið þýðingu sem byggir ekkert á raunveruleikanum en við höfum lært að líta á sem eðlilegan hlut. Skoða má aðgerðina: ‘að henda rusli’ sem rótgróinn frasa eða jafnvel myndlíkingu í tungumálinu okkar. Frasinn lýsir aðgerð sem við lítum á sem algjörlega sjálfsagða, við erum öll alltaf að henda rusli! En erum við að ‘henda’ rusli? Erum við ekki frekar bara að ‘leggja’ frá okkur eða ‘losa’ okkur við rusl? Orðin ‘henda’ eða ‘kasta’ eru ekki nægilega lýsandi fyrir aðgerðina, en þau lýsa vel karllægri baksögu hegðunarinnar ‘að henda rusli’.

Aðgerðin er rótgróin í sögu iðnvæðingar og er aukaafurð skaðlegu offramleiðsluvenjunnar sem fylgdi í kjölfarið. Orðið ‘henda’ lýsir vel kæruleysinu og ábyrgðarleysinu sem einkennir þessa karllægu baksögu og er núna eðlilegur hluti af lífi okkar.

Það er merkilegt að rýna í áhrif slíkra frasa eða myndlíkinga á hegðun okkar, þeir eru ekki einungis orðasamband, þeir eru áhrifavaldar í okkar daglega lífi.5

Á sama hátt og við höfum lært að titill eins og “Á femínismi heima á haugunum” er líklegast bara tálbeita og við lesum greinina sem fylgir með það í huga að titilinn sé ekki lýsandi fyrir innihald greinarinnar, þá erum við einnig búin að læra að við hendum rusli, kæruleysislega og án afleiðinga, því frasinn kennir okkur hegðunina. Orðanotkunin skiptir hér höfuðmáli. Sem dæmi má nefna mismuninn á orðunum “loftslagsbreytingar” og “hamfarahlýnun”, bæði lýsa þau sama fyrirbærinu en samtímis gefa þau okkur tvær gjörsamlega mismunandi nálganir og tækifæri fyrir misgóð viðbrögð og hegðun í kjölfarið.

Í verkefni okkar í skólanum hérna úti framkvæmdum við rannsóknir sem snerust sérstaklega um þessa aðgerð “að henda” í sambandi við rusl. Í rannsókninni fengum við hóp af fólki til að keppa í brennibolta en skiptum boltanum út fyrir ruslapoka. Sömuleiðis fengum við þátttakendur til að taka þátt í fjársjóðsleit sem fól í sér að finna sem flesta falda ruslapoka.

Markmiðið var að kanna tilfinningatengslin við aðgerðina ‘að kasta’ og andstæða aðgerð ‘að safna’. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að þátttakendur báru mun sterkari tilfinningar til ruslapokans í ruslaleitinni en í ruslaboltanum. Einnig var sigurinn sætari í ruslaleitinni en ruslaboltanum, því það virðist vera meiri umbun falin í því að safna og græða en að kasta og þar með losa sig við. Þessar niðurstöður segja okkur að þær leiðir sem við notum til að meðhöndla ruslið okkar í dag eru ekki að veita okkur þá umbun sem annars konar aðferðir gætu veitt okkur.

Sem dæmi myndi það reynast okkur betur að safna ruslinu okkar og takast á við það sjálf frekar en að losa okkur við það, við myndum líklegast framleiða minna rusl og hegðunartengda umbunin myndi aukast í takt við betri umhverfisáhrif. 

Sama hvort við skoðum hegðunina eða tungumálið er skýrt að það að henda rusli er ekki það besta sem við getum gert fyrir jörðina. Við þurfum að sýna frekara umburðarlyndi, aukna ábyrgð og meiri tillitssemi við umhverfið okkar. Eitt skref í rétta átt er að allir tileinki sér flokkun, jafnvel þótt þeir sem skilgreina sig ekki sem konur séu með því að sýna takta í einhverskonar ósamræmi við kyn sitt.

Lausnin er samt því miður ekki svo einföld. Góð byrjun væri að búa femínisma gott heimili á ruslahaugunum, og allsstaðar annarsstaðar þar sem samfélagsvenjur mæta umhverfisvandamálum. Við þurfum að forðast eftir bestu getu að lifa eftir uppskriftum iðnvæðingarmanna og brjóta upp þessi rótgrónu kynjuðu hegðunarmynstur sem fylgdu. Við þurfum að breyta til í venjunum okkar og sjóða saman hógværari hegðunarmynstur fyrir eftirmenn okkar á plánetunni jörð.




— — —

1 Reykjavíkurborg, (2017) Umhverfis- og úrgangsstjórnun, sorphirða og sorpeyðing https://reykjavik.is/sites/default/files/greining_thjonustuthattauu_lokautgafa.pdf

2 Gifford, R & Nilsson, A, (2014) Personal and social factors that influence pro-environmental concern and behaviour: A review. International journal of psychology.

3 Swim, J, Gillis, A & Hamaty, K, (2019) Gender Bending and Gender Conformity: The Social Consequences of Engaging in Feminine and Masculine Pro-Environmental Behaviors. Sex Roles.

4 Lakoff, G & Johnsen, M, (2003) Metaphors we live by. London: The university of Chicago press.

5 Ellen Solding & Catho Goossens

Fleiri greinar eftir Unu Hallgrímsdóttur.

Verk eftir Unu Hallgrímsdóttur á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Júllur og jólabækur

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Núvitund í +3,5°C

næsta grein
Kvenlæg gildi: Mýkt er máttur


Lesa meira um...

Umhverfisáhrif: Á femínismi heima á haugunum?