14. desember 2019

Leyfum okkur að fullyrða að sköpun komi í bylgjum og að núna sé flóð – einhver gróska í íslenskri listsköpun. Ef við einblínum á skrif þá eru Meðgönguljóð og Svikaskáld áberandi en einnig má nefna netrit á borð við Flóru og smásögur Maríu Elísabetar á Útvarp 101, sem vettvang fyrir þessa grósku. Í kjölfarið eru ritform eins og smásagan, ljóð og pistlar að taka miklum breytingum. Skrif eru að brjóta hefðir og snúa upp á uppskriftir, þar sem bæði form og innihald fá að flæða meira villt og frjálst.

Yfir jólin og áramótin bretta íslenskir lesendur upp ermarnar og gleypa í sig nýjasta nýtt í sem mestu magni svo þau séu samræðuhæf yfir hátíðirnar. Eftir fríið eru lesendur fullmettir af nýjungum og kerfið, hvort sem það sé námskerfi eða algóriþminn að mæla með ,,must read“ listum, tekur við.

Þrátt fyrir núríkjandi sköpunar-flipp er stanslaust verið að tyggja ofan í lesendur mikilvægi klassískra bókmennta. Enda er fínt að þekkja hefðina sem er byggt eða brotið á. 

Við vinkonurnar viljum mæla með tveimur klassískum bókum sem við höfum lesið undanfarið og fannst frábærar. 



GUNNLAÐAR SAGA – SVAVA JAKOBSDÓTTIR

Svava Jakobsdóttir rannsakaði þátt Gunnlaðar í Hávamálum og notaði til grundvallar í Gunnlaðarsögu eins og nafnið gefur til kynna. Hún taldi Snorra Sturluson hafa breytt hlutverki Gunnlaðar í Snorra-Eddu sem Svava svo endurheimti í skáldsögu sinni. 

Söguþráður bókarinnar er tvískiptur og á sér stað í hinni goðafræðilegu fortíð annars vegar og í „samtímanum“ fyrir þrjátíu árum hins vegar. Í þessum nútíma átti Tjernobyl slysið sér stað en það er í bakgrunni söguþráðarins. Móðir segir frá atburðum sem áttu sér stað sumarið áður í Kaupmannahöfn þegar dóttir hennar Dís var gripin glóðvolg við að stela fornu gullkeri úr Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn. Dís „stelur“ kerinu, kerið er enn fremur ker Gunnlaðar sem gætti skáldskaparmjaðarins, en Dís hélt því fram að hún hafi ekki stolið því heldur endurheimt það. Saga Dísar afhjúpar hina raunverulegu sögu Gunnlaðar og endurheimtir þannig sögu hennar líkt og femínismi endurheimtir verk eftir konur. En femínismi er í þessu að endurskrifa konur inn í sögu flestra fræði- og listgreina. Sem dæmi eru verkefni eins og www.skald.is, sem skrásetur íslensk kvenskáld svo þær séu auðfundnari og sýnilegri, mikilvægur þáttur í þessari endurheimt.

Sagan er margbrotin og höfðar meðal annars til lesenda með því að skoða menningarlega arfleifð Íslendinga. Nútíminn í sögunni er ekki fjarri nútímanum okkar: tíminn virðist ganga í hringi. Margir eru nýlega búnir að endurupplifa Tjernobyl undanfarið í sjónvarpinu eða tala um það aftur.

Hin goðafræðilega fortíð á sér sömuleiðis ekki stað í tómarúmi og samband okkar við náttúruna er þar í forgrunni með ljóðrænum lýsingum eins og væri verið að tala beint til okkar á tímum hamfarahlýnunar. 

ORLANDÓ – VIRGINIA WOOLF

Virginia Woolf er þekkt fyrir ritstíl sinn sem gengur undir nafninu vitundarstreymi en textar hennar lesast eins og hugsanir sem flakka frjálst. Orlandó er ævisaga einstaklings sem spannar yfir 300 ár, þannig samræmist aldur sögupersónu ekki áratugunum sem líða í frásögninni.

Rétt undir miðja bókina hefur kyn Orlandó breyst en þetta hefur áhrif á framvindu sögupersónu meira en persónueinkenni hennar. Í kjölfarið glímir Orlandó við breytt viðhorf samfélagsins en upplifir oft sömu langanir og tilfinningar; Orlandó er tvístígandi yfir eigin kyni og upplifir sig sem bæði kvenkyns og karlkyns í senn.

Þrátt fyrir að bókin hafi komið út árið 1928 bergmálar hún nútíma hugmyndir um flæði kyns og kynhneigðar.

Erfitt er að lýsa heildarmynd bókar sem teygir arma sína yfir svo mismunandi vinkla þess að vera manneskja; ástina, kyn og kynferði, sköpun/skrif, tengslanet, samskipti, tímabil, áhrif náttúru og umhverfis og margt fleira þannig við ætlum ekki að reyna það frekar hér. Þrátt fyrir að efni sögunnar sé svona gríðarlega viðamikið er hún skoplega skrifuð, þar sem vangaveltur innan sögunnar eru frjálsar og ótakmarkaðar, djúpar og smávægilegar. 

Bækurnar tvær leika sér fallega með það hvernig við skynjum veruleikann. Þær bjaga framvindu með hugsunum persóna og í kjölfarið hvernig lesandinn skynjar söguheiminn. Sem dæmi leikur Orlandó sér með breytingar innan bresks samfélags í tengslum við aukinn raka í veðráttu og persóna í Gunnlaðarsögu er borin saman við fisk og gengur út frá því undir nafninu „Fiskurinn.“ Hugsanir sögupersóna gegna lykilhlutverki í báðum bókum, sem er fallegt því lesendur eru sjálfir sekir um að bjaga veruleikann gegnum eigin lestur/upplifanir. 

Það er ekki óalgengt að detta í þá gryfju, sérstaklega þegar lesandi er að vinna sig í gegnum klassísku bækurnar, að ranka við sér og átta sig á því að seinustu fimm bækurnar eru eftir karlmenn.

Ef til vill er þessi grein tilraun til að aðstoða við endurskrif á hvað við teljum vera klassík. Þannig að næst þegar lesanda þyrstir í gúmmelaði í bókaformi, sé hann jafn líklegur til að teygja sig í Svövu Jakobs eða Virginiu Woolf eins og Orwell eða Laxness. 



((Skáld er hvorugkynsorð))













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Kynrænt sjálfræði

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Að virða fyrir sér virðingu

næsta grein
Umhverfisáhrif: Á femínismi heima á haugunum?


Lesa meira um...

Júllur og jólabækur