15. desember 2019

Þessi grein eru bakþankar einnar konu um hennar eigin sjálfsmyndarkrísu. Um er að ræða mínar eigin tilfinningar.

Þessi grein eru bakþankar einnar konu um hennar eigin sjálfsmyndarkrísu. Um er að ræða mínar eigin tilfinningar.



Ég er hálf íslensk og hálf eitthvað annað. Það skiptir í rauninni ekki máli hvað þetta „eitthvað annað“ er. Það sem skiptir máli er að ég er hálf íslensk, þótt ég sé fædd og uppalin á Íslandi. Eina þjóðernið sem ég kenni mig við er hið íslenska og ég þekki ekkert annað. En af hverju er ég þá bara hálfur Íslendingur? Augljósa svarið er útlit mitt– ég lít nefnilega ekki út fyrir að vera íslensk.

Málið er samt að útlitið mitt hefur ekkert með þjóðernið mitt að gera og í þokkabót þá lít ég ekki út eins og eitthvað sérstakt þjóðerni.

Ég er reglulega minnt á þessa staðreynd í hvert skipti sem ég kynnist nýju fólki því venjulega reynir það að giska hvaðan ég er. Ef ég ætti að lýsa því hvernig það fer í stuttu máli þá væri það um það bil svona:

„Nei, ég er ekki kínversk. Nei, ég er ekki japönsk. Nei, ég er ekki fillipeysk. Ha? Nei, ég er alls ekki frá suður-Ameríku, hvernig færðu það út? *dæs* Nei, ég er ekki tælensk…“ 

Þannig heldur það venjulega áfram þangað til aðilinn sem er að giska fattar hversu fáránlegt það er að halda áfram að giska svona, og biður mig í örvæntingu sinni að svala forvitni sinni, eða ég gefst upp og svara viðkomandi loksins og segi þeim hvers konar fólk reið til að búa mig til, hvar, hvernig og af hverju það myndi gera slíkt. 

Það er því augljóst að þótt ég líti ekki út eins og eitthvað eitt sérstakt þjóðerni þá lít ég svo sannarlega ekki út fyrir að vera Íslendingur, þ.e. í augum Íslendinga þá er ég ekki nógu íslensk. Ég er „af erlendu bergi brotin,“ sem þýðir í rauninni að ég sé menguð af erlendu blóði. Einhverjum gæti fundist það of harkalega tekið til orða, að Íslendingar meina ekkert illt enda séu þau bara forvitin og blablabla. Mér er hins vegar alveg sama þótt þetta sé ekki illa meint. Það er alveg jafn sárt. Ég hreinlega má ekki vera íslensk. Þannig upplifi ég allavega þau óteljandi tilvik þar sem ég hef verið spurð „Nei, hvað ertu í alvöru? Hvaðan kemurðu samt? Eru báðir foreldrar þínir íslenskir? Fæddistu hérna?“ Vegna þess að svarið „ég er íslensk“ var ófullnægjandi. 

Er þetta rasismi? Já. Það er rasismi að ég megi ekki kalla mig íslenska því það er rasískur hugsunarháttur að Íslendingar þurfi öll að líta eins út og að ættartré sannra Íslendinga eigi að vera óflekkuð af útlendingum og þeirra syndum. Það er líka rasismi að ég megi ekki kalla mig íslenska, því þannig fæ ég ekki að skilgreina mína eigin sjálfsmynd upp á eigin spýtur vegna  úreltra hugsunarháttum að kynþáttur eigi að samsvara þjóðerni. Tilvist mín stangast á við þann hugsunarhátt að hvítt fólk búi hér og að fólk sem er ekki hvítt búi annars staðar. Hann gerir ekki ráð fyrir mér, íslenskri gellu sem er ekki alveg hvít. Þess vegna er ég Íslendingur sem fær bara að gera tilkall til helmings af því sem gerir Íslending. Ég þarf alltaf að vera „eitthvað annað“ líka, ég má aldrei bara velja eitthvað eitt sjálf. Þetta „eitthvað annað“ eltir mig hvert sem ég fer eins og risa stórt skilti sem fer ekki fram hjá neinum og ég þarf því alltaf að takast á við það og útskýra hvað þetta „eitthvað“ er. 

Eina ástæðan fyrir því að ég fæ að vera eitthvað íslensk yfirhöfuð er af því að annað foreldri mitt er íslenskt.

Ekki vegna þess að ég fæddist á Íslandi, ólst upp á Íslandi, tala íslensku, ber íslenskt nafn og þekki bókstaflega ekkert annað en að vera íslensk. Það sem skiptir mestu máli er að ég sé komin af Íslendingi og að í líkama mínum renni íslenskt blóð. Að eiga íslenskt foreldri þýddi að það var ekki hægt að neita mér um íslenskan ríkisborgararétt þegar ég fæddist en ef hvorugt foreldri mitt væri íslenskt þá væri tilkall mitt í að vera Íslendingur minna og í sumum tilvikum væri það ekkert (https://www.ruv.is/frett/visad-ur-landi-med-thriggja-manada-barn). 

Ef ég væri bara aðeins hvítari þá væri ég ekki að skrifa þessa grein því þá væri ég ekki jafn augljóslega ómögulega íslensk. Undir öllum skilgreiningum þá er ég íslensk þannig ef ég liti bara „meira út eins og Íslendingur“ þá myndi ég örugglega ekkert pæla í þessu, enda þyrfti ég þess ekki. Sú var raunin mest allt mitt líf. Ég er mjög augljóslega hálf hvít enda er ég mjög föl. Lengi vel var ég haldin þeirri trú að ég væri þess vegna nógu hvít og því ekki hluti af minnihlutahópi. Ég hugsaði með mér að fyrst ég væri hvorki útlendingur né með dökka húð þá gæti ég ekki orðið fyrir útlendingahatri og öðrum rasisma. Ég hélt að það væri nóg að alast upp sem Íslendingur til þess að teljast sem Íslendingur. Ég trúði því virkilega að fólk liti á mig sömu augum og það leit á aðra Íslendinga, að ég væri ekki öðruvísi og að ég væri ekki minna en. Það tók mig tuttugu ár að horfast loksins í augu við þann veruleika að öll þau skipti sem ég varð fyrir fordómum voru ekki einsdæmi, heldur partur af yfirráðandi kerfi og að undir þessu kerfi þá er ég ekki talin nógu hvít til að vera íslensk. Mér leið eins og ég hefði fengið uppljómun, en þegar ég talaði við vini mína og fjölskyldu mína um að ég væri ekki nógu hvít og það kom þeim ekkert á óvart, var eins og teppinu hefði verið kippt undan mér. Ég lifði í blekkingu.

Ef ég er hvorki nógu hvít til að tilheyra hópi forréttindasinnaðra sem kúga né nógu dökk til að tilheyra hópi þeirra vanmáttugu sem eru kúguð, hvar á ég þá að staðsetja mig í stigveldi kerfisbundins rasisma?

Hversu mikilla forréttinda nýt ég og hversu kúguð er ég? Ef ég er ekki nógu hvít til að vera íslensk en ég er samt ekki neitt annað en íslensk hvað er ég þá?

Við því fást engin svör. Ég er allt og ég er ekkert. Ég á ekki heima í heimskerfi þar sem hægt er afmarka fólk eftir þjóðerni þeirra og samsvarandi kynþætti. Í augum þeirra sem þekkja ekkert annað en slíkt kerfi og byggja jafnvel sjálfsímynd sína á stað þeirra í slíku kerfi þá er tilveran mín guðlast. Ég og öll hin sem líta út eins og ég boðum nefnilega endalok þessa kerfis, því um leið og það er engin samsvörun á milli þjóðernis og kynþáttar þá hættir kerfið að skipta máli. 
Tilvist mín sem Íslendingur grefur undan því kerfi sem mælir fyrir um að Íslendingar séu hvítir en það er þess vegna sem fólki finnst það tilneytt til að endurskilgreina mig sem Íslending og eitthvað annað. Það þarf sífellt að koma því á hreint að ég sé öðruvísi en „venjulegur“ Íslendingur og að ég sé einsdæmi, að það sé alveg ofboðslega merkilegt að íslenska foreldrið mitt og útlenska foreldrið mitt hafi búið mig til. Það þarf samt ekkert kraftaverk til að  Íslendingur sofi hjá útlendingi og ég er alls ekki eina afurð slíks samræðis enda eru sífellt fleiri Íslendingar sem líta út eins og ég.

Alveg sama hversu mikið fólk mótmælir því þegar fólk eins og ég kýs að vera Íslendingar í sinni eigin mynd, þá eru Íslendingar að breytast og að sama skapi er einsleitnin sem einkennir Íslendinga að hverfa.

Fólk eins og ég er hætt að vera einsdæmi og er mjög fljótlega að verða ógeðslega venjulegt, alveg eins og hin. Sem dæmi þá er upplifun yngri bróður míns, sem er líka hálfur Íslendingur, öðruvísi en mín þótt það séu einungis fimm ár á milli okkar. Þegar ég var í leikskóla þá var ég sú eina sem var ekki hvít þannig þegar ég og vinkonur mínar vorum í prinsessuleik þá mátti ég bara vera Mulan, Pocahontas eða Jasmine. Þegar yngri bróðir minn var í leikskóla þá átti hann þrjá vini sem voru eins og hann – þ.e.a.s ógreinanlegir í rasísku flokkunarkerfi sem verður sí úrelltara með hverjum degi. Í dag eru enn fleiri íslensk börn í leikskólum sem líta út eins og ég og bróðir minn og vinir hans. Ég lít nefnilega ekki út eins og öðruvísi Íslendingur. Ég lít út eins og framtíðar Íslendingur í litríku og fjölbreyttu Íslandi sem takmarkar þjóð sína ekki við hreinræktaða leiðindapúka. Ég mætti bara aðeins of snemma í partýið.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
International Womxn's Day

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Íslenska sem annað mál: Grein með hreim

næsta grein
Tilbrigði við fjallgöngu I II


Lesa meira um...

Ég er hálf íslensk, hálf annað: Hvað er ég?