14. desember 2019

Í greininni verður fjallað um lög, nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði sem tóku gildi 18. júní 2019. Höfundur mun reyna sitt allra besta til að gera grein fyrir forsendum og markmiði laganna á mannamáli, þrátt fyrir að vera lögfræðingur að mennt. 

Það fyrsta sem þú, kæri lesandi, þarft að gera þér grein fyrir er frá hvaða sjónarhorni þú ert að horfa frá. Sem dæmi þá er ég, höfundurinn, sís hinsegin ófötluð kona, háskólamenntuð og hvít.

Að gera sér grein fyrir sjónarhorni sínu og átta sig á því að enginn sé með sama sjónarhorn, er eitt af því mikilvægasta sem einstaklingur getur gert, að mati höfundar – sérstaklega þegar rætt er um málefni sem tengist einstaklingnum
ekki neitt.

Það er eðlilegt að gleyma því í smá stund að enginn einstaklingur sé með sama sjónarhorn og þú, en það mikilvæga er að læra af því og taka tillit til annarra. 

Samfélög eru með ákveðin viðmið sem teljast vera norm hverju sinni, sem dæmi hefur verið gengið út frá því að aðeins séu til tvö kyn – þetta kallast kynjatvíhyggja. Stígum út fyrir þennan ramma og sjáum heiminn í aðeins stærra og víðtækara samhengi. Það eru til fleiri en tvö kyn og það eru til fleiri en þrjú kyn. Öll kyn hafa verið til staðar fyrir gildistöku laganna og langt fyrir fæðingardag höfundar, sem fæddist árið 1992. Það er ekkert skyndilega að breytast með gildistöku laganna hvað varðar kyn, heldur er með lögunum viðurkennt formlega í fyrsta skiptið að ekki séu aðeins til tvö kyn – það er hópur einstaklinga sem hvorki falla eindregið undir að vera karlkyns né kvenkyns. Hér er um að ræða kynsegin fólk, en einnig er hægt að nota hugtakið frjálsgerva.

Fyrir gildistöku laga um kynrænt sjálfræði voru í gildi lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda frá árinu 2012. Kynáttunarvandi er fremur einkennilegt hugtak þar sem það virðist gefa í skyn að það sé eitthvað að eða að einstaklingur sé ekki innan norms samfélagsins. Samkvæmt þágildandi lögum var kynáttunarvandi upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu. En trans, það sem lögin fjölluðu um, var fram að 25. maí 2019 álitinn vera geðsjúkdómur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (W.H.O.). Þessi breyting á greiningu trans, sem fellur nú undir annan greiningaflokk um kynheilsu, er gríðalega jákvæð og í samræmi við viðhorf samfélagsins og lög um kynrænt sjálfræði sem tóku gildi stuttu eftir umrædda breytingu. 

Með lögum um kynrænt sjálfræði er miðað að því að bæta réttarstöðu trans og intersex fólks. Á heimasíðu Intersex Ísland og Trans Ísland er að finna skilgreiningu á intersex og trans, sem hljóðar svo: 

„Intersex er meðfætt frávik á líkamlegum kyneinkennum. […] Intersex mismunun kemur venjulega fram í innri eða ytri kynfærum. Við erum intersex því að meðfædd kyneinkenni okkar virðast vera bæði karl- og kvenkyns, en ekki algerlega karl- eða kvenkyns, eða hvorki karl- né kvenkyns.“

„Trans (transgender) er gríðarlega stórt regnhlífarhugtak sem að nær yfir fjöldann allan af hópum sem eiga það sameiginlegt að þeirra kynvitund, kyntjáning eða upplifun er á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu.“

„Intersex er meðfætt frávik á líkamlegum kyneinkennum. […] Intersex mismunun kemur venjulega fram í innri eða ytri kynfærum. Við erum intersex því að meðfædd kyneinkenni okkar virðast vera bæði karl- og kvenkyns, en ekki algerlega karl- eða kvenkyns, eða hvorki karl- né kvenkyns.“

„Trans (transgender) er gríðarlega stórt regnhlífarhugtak sem að nær yfir fjöldann allan af hópum sem eiga það sameiginlegt að þeirra kynvitund, kyntjáning eða upplifun er á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu.“

Lög um kynrænt sjálfræði kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.

Jafnframt er með lögunum miðað að færa réttarstöðu þeirra til nútímahorfs líkt og kveðið er á um í frumvarpi laganna. Lögunum er einnig ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi, sbr. 1. gr. laganna. Með lögunum eru orðskýringar á hinum ýmsu hugtökum, sem dæmi kyneinkenni, kyntjáning og kynvitund. Umræddar orðskýringarnar koma fram í 2. – 4. tölul. 2. gr. laganna og hljóða svo: 

Kyneinkenni: Líffræðilegir þættir sem tengjast kyni, svo sem kynlitningar, hormónastarfsemi, kynkirtlar og kynfæri.

Kyntjáning: Félagsleg tjáning einstaklings á kyni sínu.

Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.

Kyneinkenni: Líffræðilegir þættir sem tengjast kyni, svo sem kynlitningar, hormónastarfsemi, kynkirtlar og kynfæri.

Kyntjáning: Félagsleg tjáning einstaklings á kyni sínu.

Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.

Ofangreind hugtök eru tiltölulega ný af nálinni í íslenskri löggjöf, en þau eru sem dæmi einnig í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði sem tóku gildi árið 2018. 

Lögin taka meðal annars til leiðréttingar á opinberri skráningu kyns og gefa valmöguleika á að einstaklingur geti skilgreint sig með kynhlutlausum hætti, eða X, í opinberum skjölum, t.d. í vegabréfi og á ökuskírteini.

Lögin fjalla ekki um upphaf skráningar hjá nýfæddum börnum, en þó kemur fram í 6. gr. laganna að hlutlaus skráning kyns sé heimil og að opinberum aðilum sé skylt að gera ráð fyrir kynhlutlausri skráningu.  

Lögin fjalla einnig um líkamlega friðhelgi einstaklinga 16 ára og eldri. Nánar tiltekið kveða lögin á um að óheimilt sé að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings, 16 ára eða eldri, án skriflegs samþykkis hans. En helsta gagnrýnin á umrædd lög er að þau standa ekki vörð um líkamlega friðhelgi fyrir einstaklinga undir 16 ára aldri. Í gegnum tíðina hefur kyneinkennum einstaklinga, intersex, með ódæmigerð kyneinkenni verið breytt án samþykkis þeirra til þess að falla innan samfélagslegs norms á hvað teljist vera “eðlileg” kyneinkenni. Vorið 2015 voru umræddar aðgerðir gagnrýndar af Umboðsmanni barna. Í áliti umboðsmannsins kom m.a. fram: 

Ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama ungbarna samræmast ekki réttindum þeirra. Réttara væri að intersex börn gætu sjálf tekið ákvörðun um skurðaðgerð og/eða hormónameðferð þegar þau hafa mótað eigin kynvitund og hafa náð þeim aldri og þroska sem þarf til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun. 

Einnig kom fram að umboðsmaður vonaðist til þess að málefnaleg umræða gæti átt sér stað þar sem sérstakt tillit yrði tekið til réttinda barna sem og sjónarmiða og reynslu intersex einstaklinga. Skiptar skoðanir voru meðal einstaklinga um umræddar aðgerðir við undirbúning frumvarpsins. Því var lagt til bráðabirgðaákvæði sem gerir ráð fyrir því að ráðherra setji á fót starfshóp til að vinna að málefnum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, þar á meðal um heilbrigðisþjónustu við þau og gera tillögur að úrbótum.

Þrátt fyrir að um mikið og jákvætt skref sé að ræða með gildistöku laganna þá er enn mikil vinna fyrir höndum – sérstaklega hvað varðar réttindi einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni undir 16 ára aldri. 

Með gildistöku laganna var öðrum lögum einnig breytt, þar á meðal lögum um mannanöfn. Í stuttu máli var þessi kynjatvíhyggja tekin út sem kom áður fram í mannanafnalögum, nánar tiltekið 2. mgr. 5. gr. laganna sem hljóðaði svo: „Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.“ Umrædd breyting hefur leitt til einhvers sem ekki var séð fyrir um eða var hvorki í forsendum né markmiði laganna. Nánar tiltekið að sís karl breyti nafni sínu úr Sigurður í Sigríður, í höfuðið á ömmu sinni. Höfundur telur að upphafleg breyting á mannanafnalögum hafi átt að veita rými til að kynsegin fólk gæti tekið upp nöfn sem væru hvorki eindregið kvenkyns né karlkyns – einnig að fjarlægja umrædda kynjatvíhyggju úr lögunum. Þessi ófyrirséða þróun út frá breytingum á mannanafnalögunum er mjög jákvæð að mati höfundar, þar sem þetta gæti verið fyrsta skref í átt að einhverju nýju og ófyrirséðu.

Jafnvel kynhlutlausu samfélagi, þar sem ekki væri komið fram við einstakling út frá félagslegu kyni þeirra – heldur væru allir einstaklingar jafnir og ekki þvingaðir til að falla inn í ákveðna staðalmynd kyns
þeirra frá fæðingu. 

Lög um kynrænt sjálfræði eru byrjun að stærri breytingu, ekki aðeins lagalega séð heldur einnig séð út frá samfélaginu. Að viðurkenna formlega að fleiri en tvö kyn séu til er stórt skref í átt að betra samfélagi. Höfundur trúir að lögin muni hafa mikil áhrif á samfélagið, allt til hins góða. Vissulega geta bakslög alltaf átt sér stað í kjölfar mikilla breytinga, en þrátt fyrir það ríkir bjartsýni og jákvæðni hjá höfundi gagnvart komandi tímum. Jafnvel smá jákvæður spenningur fyrir því hvers konar breytingar lögin muni leiða af sér og sömuleiðis fyrir því að sjá hvar samfélagið verður statt eftir 30 – 50 ár.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Hvernig líður þér

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Kynbundið ofbeldi: Birtingarmyndir hlutgervingar kvenna

næsta grein
Júllur og jólabækur


Lesa meira um...

Kynrænt sjálfræði