Það er vissulega freistandi að trúa því að Ísland sé jafnréttisparadís, þar sem enginn verður eftir eða dregst aftur úr og tækifærin bjóðist okkur öllum jafnt. Við viljum trúa því að við fáum öll viðeigandi tól til að geta síðan nýtt okkur þau tækifæri sem í boði eru.
Þær stofnanir sem við viljum hvað mest trúa að gæti jafnræðis í hvívetna eru menntastofnanir, allt frá leikskólum og upp í háskóla. Við viljum trúa því að það hafi allir á Íslandi jafnt aðgengi að námi sem og möguleikann á að þroska eiginleika sína á eigin forsendum. Það er jú þjóðfélaginu (að ógleymdu hagkerfinu *blikkkall*) fyrir bestu að allir geti lagt sitt af mörkum.
Það er hægara sagt en gert að lista upp allar þær hindrandir sem fólk upplifir, enda höfum við ekki hugmynd um margar þeirra. Hindranir einstaklinga að námi eru ótrúlega margvíslegar. Þær eru bæði fýsískar, hugmyndfræðilegar og huglægar. Tilgangur þessarar greinar er þó ekki að telja hindranirnar upp, heldur fremur að tala aðeins um það hvernig við áttum okkur á því hvar þær liggja og hvernig við skilgreinum þær.
Hugtakið félagsleg vídd (e. social dimension) var þróað meðal evrópskra stúdenta sem berjast fyrir auknu jafnrétti til náms. Þetta hugtak er afar gott mælitæki á aðgengi, og þá ekki bara innan háskóla heldur á öllum sviðum samfélagsins.
Án þess að vilja tala um fólk sem hlutföll, þá er það stundum gagnlegt. Út frá þessu mælitæki ætti prósenta fatlaðs fólks í háskólanum að vera sú sama og prósenta þeirra í samfélaginu. Sama gildir um prósentu innflytjenda, einstaklinga af erlendum uppruna, hinsegin fólks, ADHD púka, örvhentra, blindra, heyrnarlausra, ljóshærðra eða hvaða einkennis eða eiginleika þú vilt taka út fyrir sviga. Ef við byggjum raunverulega við jafnt aðgengi allra að námi — þá ætti það að vera sviðsmyndin. En raunveruleikinn er fjarri því.
Í rauninni vitum við ekki hvernig við stöndum gagnvart jöfnu aðgengi þar sem háskólar á Íslandi eru ekkert sérstaklega góðir í því að safna þessum tilteknu upplýsingum um nemendur. En það leiðir okkur að annarri spurningu: Viljum við að skólinn sé yfir höfuð með þessar upplýsingar um okkur? Vil ég að háskólinn geti flokkað mig sem ljóshærða, hvíta konu með ADHD á háu stigi og kvíðaröskun? Það er truflandi tilhugsun, en ég tel það nauðsynlegt því við þurfum á einhverjum tímapunkti að geta litið yfir samfélagið sem stúdentar skapa, og spurt okkur: Hverjir eru ekki hér?
Þegar við erum búin að átta okkur almennilega á því hvaða samfélagshópar eru ekki að skila sér inn í háskóla, þá fyrst er hægt að vinna með þeim hópum til að greina hindranir þeirra. Við getum ekki tæklað þessar hindranir fyrr en við áttum okkur á því hverjir þessir hópar eru og eigum samtal við þau. Það er hindrun að þekkja ekki neinn sem hefur farið í háskóla, það er hindrun að tala ekki íslensku, það er hindrun að hafa ekki aðgang að upplýsingum. Það er hindrun í samfélaginu okkar að félagsleg vídd okkar endurspeglist ekki á öllum sviðum þess
Aðgengi einstaklinga að námi er ekki einungis bundið við það að komast inn í háskóla; aðgengi snýr líka að tækifærum til að stunda námið sitt. Lélegt lánakerfi er stór hindrun og skerðir verulega jafnrétti til náms (LÍN er efni í aðra grein), kennsluhættir geta skert aðgengi og skortur á aðstoð getur hindrað fólk í að stunda nám sitt á eigin forsendum.
Að hafa aðgengi er ekki bara að fá boð í partýið — sem gestur verður þú að geta fengið aðgengi að salerni, geta tekið þátt í samtölum, borðað matinn og liðið vel. Það er ekki aðgengi að fá að sitja í anddyrinu og berjast við að fá sömu upplifun og öll þau sem eru inni í veislunni. Sama hverjar ástæðurnar eru fyrir því að þú situr föst frammi á gangi — Líkamlegar, andlegar eða hugmyndafræðilegar.
Tilgangur menntunar á ekki að vera hagfræðilegur, heldur á hann að koma til vegna þekkingar, þroska og á forsendum þeirra sem sækja sér menntunina.
Ísland á að vera leiðandi í jafnréttisbaráttu; öll okkar opinberu rými, og þá sérstaklega háskólasamfélagið eiga að sýna félagsleg vídd okkar, munum að fylgja því eftir á öllum sviðum þar sem óréttlæti fær enn að grassera. Mismunun á sér svo ótal margar birtingarmyndir sem við verðum að kanna til hlítar og passa að við séum öll með í partýinu. Alltaf, ekki bara á tyllidögum.