1. desember 2018

*TW* Sjálfsvíg

Hömlur eru mjög hugleiknar þeim sem starfa í geðheilbrigðisstéttum. Um flestar geðraskanir gildir að ástandið eða einkennin þurfa að vera hamlandi í daglegu lífi til að teljast röskun. Það er samt ekki svo að einungis einkenni sem eru nógu alvarleg eða mikil til að teljast geðröskun geti hamlað okkur.

Flest höfum við lent í því að vera svo kvíðin fyrir einhverju að við endum á því að sleppa því eða gerum það alltof seint. Þá kannast flestir við að eiga slæma daga, með meiri vanlíðan en vanalega, þar sem erfitt er að koma nokkru í verk eða jafnvel fara út úr húsi. Kvíði, vanlíðan og í raun flestar erfiðar tilfinningar geta verið mjög hamlandi og haft áhrif á daglegt líf. 

Erfiðar tilfinningar eru óumflýjanlegur hluti af lífinu og það er mikilvægt að læra að takast á við þær til að minnka hömlurnar sem þær setja okkur.

Stundum þurfum við að reyna að taka á móti erfiðum tilfinningum til að geta unnið úr þeim, frekar en að loka á þær eða reyna að hunsa þær. Til að vinna úr tilfinningum getur verið nauðsynlegt að tala um þær við aðra, hvort sem það eru fagaðilar eða fólkið sem stendur manni næst. Það getur skapað okkur miklar hömlur að reyna að hunsa tilfinningar og að tala ekki um þær við neinn, því það virkar ekki til lengdar og getur undið upp á sig og leitt til stærri vandamála. 

Við mættum örugglega flest vera duglegri við að ræða erfiðar tilfinningar við aðra. Karlar virðast þó gera minna af því en konur að tala um tilfinningar. Karlar eru almennt ólíklegri til að leita sér aðstoðar við geðrænum vanda en konur og einbeita sér síður að tilfinningum sem leið til að takast á við hlutina. Þá eru konur tvöfalt líklegri en karlar til að greinast með þunglyndi hjá sálfræðingi eða geðlækni.

Þetta er í hróplegu ósamræmi við þá staðreynd að karlar eru mun líklegri til að taka eigið líf og uppi eru ýmsar kenningar um að þetta megi skýra af því að karlar forðist frekar að tala um tilfinningar og leiti sér því síður aðstoðar, sem er nauðsynlegt til að fá greiningu. Þetta er sérstaklega vandamál meðal ungra karla og á Íslandi er algengasta dánarorsök ungra karla einmitt sjálfsvíg. 

Ungir karlmenn eru hópur sem virðist glíma við vanlíðan í hljóði, innra með sér og án þess að tala um tilfinningar sínar. 

hömlur
hömlur

Það að tala um tilfinningar hefur lengi þótt kvenlegt og þrátt fyrir að margt hafi breyst á síðustu árum er staðalímyndin um að karlmannlegir karlmenn harki allt af sér og gráti aldrei ennþá á lífi. Þessi staðalímynd hefur slæm áhrif á mörgum sviðum. Það hefur meira að segja verið sýnt fram á að læknar eru líklegri til að greina konur með þunglyndi þó þær skori jafnhátt og karlar á mælikvörðum eða séu með sömu einkenni og þeir.

Það að gefa tilfinningasemi og vanlíðan kvenlegan stimpil ýtir undir staðalímynd sem er augljóst að ekki á rétt á sér og getur haft skaðvænleg áhrif á líðan karla og dregið úr líkum á því að þeir leiti sér hjálpar. Í raun má færa rök fyrir því að allt tal um ákveðnar tilfinningar, hugsanir eða líðan sem kven- eða karlmannlegar geti verið skaðlegt og óréttmætt.

Einstaklingsmunur á öllum þessum sviðum er of mikill til að hægt sé draga ályktanir út frá kyni auk þess sem fjöldi rannsókna á sviði persónuleika og geðheilsu hefur bent til þess að í raun séu karlar og konur ekki jafn ólík og margir telja. Í þessu samhengi skipta femínismi og femínísk baráttumál gríðarlega miklu máli. Orðið femínismi er dregið af enska orðinu feminine sem á íslensku útleggst sem kvenlegt. 

Femínismi gengur út á að gera öllu því sem hefur í gegnum tíðina verið talið kvenlegt hærra undir höfði í samfélaginu. Koma því sem er kvenlegt á sama stall og það sem hefur verið talið karlmannlegt

Þannig er markmiðið að fella þessa stimpla úr gildi og gefa öllu fólki tækifæri til að hegða sér og skilgreina sig út frá sínum eigin gildum án þess að á þau séu settar hömlur og án þess að þau séu tengd við eitthvað ákveðið kyn. Það að útrýma kynbundnum stimplum á tilfinningar er gífurlega mikilvægt fyrir karla því það gefur þeim tækifæri til að vera viðkvæmir og glíma við vanlíðan og skapar samfélagslegt umhverfi þar sem þeir eru líklegri til að tala um tilfinningar og leita sér aðstoðar. 

hömlur

Við getum öll lagt okkar af mörkum og stuðlað að slíku umhverfi fyrir karla með því að temja okkur opinskáa og hreinskilna umræðu um tilfinningar. Það græða allir á því að útrýma hömlum, að útrýma kynbundnum lýsingum á tilfinningum. Tilfinningaskalinn er sammannlegur og kemur kyni lítið við. 

Tölum við fólkið í kringum okkur þegar við eigum slæma daga, látum vita þegar við kvíðum fyrir einhverju og reynum að setja það fordæmi að það sé eðlilegt að tala um og upplifa tilfinningar af öllu tagi. 

Jafnvel þó þú búir við gott tilfinningajafnvægi og upplifir sjaldan lægðir þá geturðu auðveldað öðrum að tala um sínar tilfinningar með slíkri umræðu. Geðheilsa er ekki einkamál, ungir karlar eiga ekki að upplifa vanlíðan í einangrun. Við getum bætt líðan þeirra og annarra með því að vera meðvituð um að tilfinningar eru kynlausar og með opinni umræðu um líðan. Tölum um tilfinningar. 

Pistlahöfundur er formaður geðfræðslufélagsins Hugrúnar og meistaranemi í klínískri sálfræði. Hægt er að kynna sér félagið og lesa meira um geðheilsu, geðraskanir og úrræði á vefsíðu félagsins; gedfraedsla.is. Þá vill Hugrún benda á hjálparsíma og netspjall Rauða Krossins; 1717 og 1717.is, sem og bráðamóttöku geðsviðs ef ástandið er alvarlegt, sími: 543-4050.

Ef þú ert í sjálfsvígshugleiðingum bendum við á að hjálparsími Rauða krossinns er 1717 og símanúmer Píeta samtakanna er 552 2218. Símanúmerin eru opnir allan sólarhringinn, eru ókeypis og heita fullum trúnaði.

Fleiri greinar eftir Kristínu Huldu Gísladóttur.

Verk eftir Öldu Lilju á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Íslenska sem annað mál: Grein með hreim

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
,,Ég vissi ekki betur“ – Kynfræðsla og gerendur

næsta grein
Hamfarahlýnun: Tvær flugur í einu höggi


Lesa meira um...

Hömlur: Tölum um tilfinningar