12. desember 2019

Vörum við blikkandi myndefni.

Sagt er að tímarnir breytist og mennirnir (og „óæðri kyn“ eflaust líka) með. Það er eitthvað til í því en þessi málsháttur er alhæfing sem á því miður ekki við um allt og alla. Sumt nemur einfaldlega staðar og neitar að taka aftur af stað. Íslenskt rapp, og rapp yfirleitt er eitt af því.

Ákveðnar hefðir innan rappsenunnar standa til að mynda í stað og í sumum tilvikum einnig þau sem færa rappgyðjunni ávexti sína.

Kvenfrelsisbyltingar hafa skekið íslenskt samfélag (og athugasemdakerfi þess) ítrekað frá aldamótum (þó þessar hræringar eigi sér vissulega lengri sögu) en um aldamót slapp rapp einmitt fyrst fram af íslenskri tungu. Í tilraun minni til að klára bakkalárpróf í bókmenntafræði kannaði ég hvort þessar byltingar hefðu haft einhver áhrif á rappið, hvort það hefði einnig orðið fyrir áhrifum.

Mig langaði að koma með jákvætt innlegg í umræðuna um rapp: ,,Sko bara! Konur eru ekki lengur hlutir!“ og réttlæta þannig óforbetranlegan áhuga minn á þessari karllægu tónlistarstefnu.

En mér mistókst, og þó. Eitt og annað hefur batnað en margt er hoggið í stein og verður aldrei máð burt með náttúruöflum (en mögulega með yfirnáttúrulegum krafti þeirra sem neita að sætta sig við steinristur).

Ég hóf þrautagöngu mína, sem laut að því að rýna í þróun konunnar innan íslensks rapps, á því að líta til sögunnar. Rapp á sér langa sögu en gjarnan er miðað við að það eigi sér rætur í reynsluheimi svartra og rómanskra bandarískra ungmenna á áttunda áratug tuttugustu aldar. Ungmennin vildu með þessu nýja menningarformi mótmæla kynþáttafordómum, fátækt, yfirgangi og ofbeldi. 

Ungmennin, aðallega ungir karlmenn, voru því að mótmæla kúgun.

Einhvern veginn varð niðurstaðan sú að nauðsynlegt væri að kúga aðra svo hægt væri að mótmæla þeirri kúgun sem rappararnir urðu fyrir. ,,Hitt kynið“ varð fyrir valinu. Konur.

Rappið, sem í upphafi var tól hinna kúguðu til þess að berjast gegn kúgun, varð þannig að tóli til þess að kúga konur.

Fyrri bylgja rapps skall á Íslandi árið 2000, í kjölfar þess að rappsveitin XXX Rottweiler hundar sigraði Músíktilraunir, eins og Árni Matthíasson greinir frá í Lesbók Morgunblaðsins árið 2003. Sveitin var eingöngu skipuð körlum. Seinni bylgja rapps skók svo landið árið 2015 en stuttu áður, síðla árs 2013, höfðu Reykjavíkurdætur, rappsveit eingöngu skipuð konum, komið fram á sjónarsviðið við misjafnar undirtektir. Seinni bylgjan hefur enn ekki tekið enda og er ekki að sjá að henni ljúki í bráð.

Ég rannsakaði því rapp í raun fyrir og eftir Reykjavíkurdætur þar sem þær komu með splunkunýja sýn inn í íslenska rappsenu. Þær færðu veruleika kvenna inn í senuna, veruleika sem hafði ekki rúmast þar áður. Kvenhatandi orðræða er þó fjarri því að vera á bak og burt en birtingarmyndir kvenna eru orðnar fjölbreyttari og orðið ívið flóknari en áður.

Konur eru ekki lengur bara hlutir, þær eru líka orðnar manneskjur. Við hljótum að hrópa húrra fyrir því. Eða hvað?

Þrátt fyrir að eyjan Ísland sé kennd við femíníska útópíu hafa konur mætt meira mótlæti en karlmenn í íslenskri rappsenu. Kvenfyrirlitning finnst enn í textum rappara og hlutgerving kvenna. Til dæmis í laginu „O.M.G“ sem Floni, Birnir og Joey Christ sendu frá sér í fyrra. Margrét Aðalheiður tók kjarna textans saman í tvíti og sagði að hann væri eitthvað á þessa leið: „ómægad gellur eru heitar ómægad bitches þekkja mig ómægad er alltaf að ríða þeim ómægad konur eru hlutir ómægad“.

Rappið þrífst ekki í tómarúmi heldur verður það til í samhengi við þjóðfélagið sem það þrífst innan og með íslenska rapptexta sem viðmið má setja spurningarmerki við það að miklu jafnrétti kynjanna hafi verið náð hérlendis. Fullyrðingin um að Ísland sé femínísk útópía verður beinlínis hlægileg í þessu samhengi.

íslenskt rapp

Jákvæðar birtingarmyndir kvenna, þegar litið er á íslenskt rapp, koma aðallega frá kvenkyns röppurum og þá helst Reykjavíkurdætrum. Þær setja sjálfar sig fram sem sterkar konur sem láta ekki bjóða sér misrétti og gagnrýna samfélagið síendurtekið fyrir að vera fullt af kvenhatri, til dæmis í laginu „D.R.U.S.L.A“ þar sem Reykjavíkurdætur gagnrýna harðlega hvernig réttarkerfið tekur á kynferðisafbrotum en einnig samfélagið sem skapar réttarkerfið og leyfir kynferðisafbrotamönnum að leika lausum hala.

Skýr merki kvenfrelsisbyltinga er að finna í lögum Reykjavíkurdætra, þá helst merki Brjóstabyltingarinnar og Druslugöngunnar. Konur eru þannig þær sem taka hanskann upp fyrir sjálfar sig. Reykjavíkurdætur gera tilraun til þess að eyða kvenhatri úr textum karllægrar hefðar og hafa þær í það minnsta hluta samfélagsins með sér í liði. Það kemur til dæmis skýrt fram í því að samfélagið reis upp gegn kvenhatri í textum Króla sem sá að sér og baðst afsökunar:

„Rauðhærði krakkinn fyrir 2 árum sem var að blasta Eminem í hettupeysu þegar hann var að byrja að skrifa sína fyrstu texta þekkti ekkert annað rapp en karlmenn að upphefja ofbeldi, Toxic karlmennsku og hlutgera konur. Ég áttaði mig á þessu því miður of seint“, sagði Króli eftir að textar hans höfðu verið gagnrýndir af Instagram aðganginum coke.hore.

Textabrotin sem coke.hore vakti athygli á voru eftirfarandi: „Skal alveg barna þig þó ég hati litla krakka“, „tek mömmu þína eins og Ritzkex, alltaf þurra“, „tussur að vestan, já, þær eru svangar“. Lögin þar sem þessar línur fyrirfinnast eru öll nýleg, eða frá árinu 2017.

Það verður að teljast sem nýmæli að íslenskur rappari biðjist afsökunar á kvenhatri. Þegar Erpur og félagar í XXX Rottweiler hundum voru gagnrýndir fyrir kvenhatur voru viðbrögðin gjarnan afneitun, eins og til dæmis í pistli Erps „Að fá granítharðan Imma Ananas í hárugan bílskúrinn“ þar sem Erpur segist vera femínisti og að lagið „Elskum þessar mellur“ hafi verið skapað til að „hampa kynfrelsi fólks óháð kyni,“ og með því að íslenskir rapparar kalli hvern annan mellur séu þeir að „drepa tabú“.

Þrátt fyrir að Erpur haldi því fram að lagið sé skrifað til þess að hampa kynfrelsi þá er niðrandi orðræða um konur það sem heldur textanum uppi. Leiða má líkur að því að lagið snúist frekar um það að fleiri konur ættu að vera „auðveldar stelpur“, eins og Erpur og Emmsjé Gauti segja í laginu, svo kynfrelsi karlmanna geti verið meira.

Þrátt fyrir jákvæð teikn í íslensku kvennarappi má sjá leifar kvenhaturs í lögum kvenkyns rappara.

Líkt og Anna Marsibil Clausen bendir réttilega á í ritgerð sem fjallar um kyn og vald í íslensku rappi gætir lítilsvirðingar í garð ungra stúlkna í lagi Þórdísar Nadiu Semichat, „Passaðu þig“ þrátt fyrir að laginu hafi verið ætlað að upphefja konur innan rappheimsins. Með laginu gerði Nadia heiðarlega tilraun til þess að skapa rapplag sem fæli í sér uppreisn gegn hefð kvenhaturs í rappi. 

Anna Marsibil bendir á lítilsvirðinguna í línunni „Tekur líkamsþyngd í bekk, mynd af Gillz uppi á vegg og ríður bara stelpum í níunda bekk“. Anna segir að það sem liggi ósagt á bak við línuna sé ekki einungis það að karlmennirnir misnoti sér stöðu sína gagnvart ungum stúlkum og geti ekki náð sér í þroskaðar konur heldur einnig að ungar stúlkur séu varnarlaus fórnarlömb eða kjánar „sem falla fyrir mönnum sem enginn annar vill og þannig er setningin á vissan hátt niðrandi fyrir þann hóp.“

Það má nefna að þrátt fyrir að vinna gegn kvenhatri í íslensku rappi nota Reykjavíkurdætur orð eins og bitch, motherfokker, smápíkur, og tík sem öll hafa verið notuð til að lítillækka konur í rappi í gegnum tíðina.

Orðin virðast þannig vera orðin svo stór hluti af íslenskri rappmenningu að það er jafnvel erfitt fyrir femíníska rappsveit að skilja sig frá þeim.

Þannig reynist kvenhatrið svo sterkt minni í rappi að það nær jafnvel að yfirvinna að einhverju leyti þá miklu sigra sem unnist hafa í jafnréttisbaráttunni hérlendis. 

Þó er vert að minnast á að það þykir valdeflandi að nota orð sem áður hafa verið notuð í niðrandi tilgangi og gangast við þeim, eins og má til dæmis sjá á notkun orðsins drusla í samtímanum þar sem fjöldi fólks er farinn að stimpla sig sem druslur. Druslustimpillinn er þannig tekinn úr höndum þeirra sem nota hann til að afsaka ofbeldi, eins og María Guðmundsdóttir benti réttilega á í örskýringu á síðu Druslugöngunnar fyrir þremur árum síðan.

Niðurstaða bakkalárritgerðarinnar sem þessi grein byggir á er sú að birtingarmyndir kvenna í íslensku rappi hafi ekki tekið stakkaskiptum í sjálfu sér frá því að íslenskt rapp kom fyrst fram um aldamótin. Þrátt fyrir að eyjan Ísland sé kennd við femíníska útópíu hafa konur átt erfiðara uppdráttar en karlmenn í íslenskri rappsenu.

Kvenfyrirlitning og hlutgerving kvenna finnst enn í textum rappara. Eins og áður segir þá er mikilvægt að muna að rappið er skapað í samhengi við þjóðfélagið sem það þrífst innan. Ef horft er til íslenskra rapptexta má því velta fyrir sér hvort jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi sé í raun mikið.

Verk eftir Heiðdísi Buzgó á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Lapis Lazuli

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Barneignir og tónlistabransinn: DJ mamma

næsta grein
Ég snoðaði mig


Lesa meira um...

Íslenskt rapp: Femínísk útópía hvað?