13. september 2018

Það er magnað hvað móðurhlutverkið breytir manni hratt. Ég hafði alveg einhverjar hugmyndir um það áður en ég átti, hvers konar móðir ég þóttist ætla að vera og hvernig uppeldinu skyldi háttað. Þetta voru miklar pælingar. Ég las mikið um foreldrahlutverkið, umönnun ungabarna, næringu þeirra og svefn milli þess sem ég skrifaði MA-ritgerð í menningarfræði við Háskóla Íslands.

Ég komst að því að ég væri ólétt stuttu áður en ég byrjaði að skrifa og var ákveðin í að klára ritgerðina áður en barnið kæmi. Ritgerð fyrst, barn svo. Það er hálf ótrúlegt að hugsa til þess hvernig mér tókst að halda þessum viðfangsefnum aðskildum þegar litið er til þess sem ég var að skrifa um í ritgerðinni; loftslagsbreytingar, eða nánar tiltekið, sinnuleysi okkar Vesturlandabúa gagnvart loftslagsbreytingum.

Það er þessi tilhneiging okkar til að vera meðvituð um vandann, en líta samt undan. Við getum ekki innlimað þessar upplýsingar inn í okkar daglega líf og neitum um leið að axla ábyrgð.

Þetta rakti ég samviskusamlega í ritgerðinni, þar sem ég greindi íslenska fjölmiðlaumræðu um loftslagsbreytingar og færði rök fyrir því að því hagsælli sem efnahagur þjóðarinnar er, því líklegri erum við til að gefa okkur tíma til að tala um loftslagsbreytingar, lofa öllu fögru, en gera þeim mun minna. Við tölum kannski meira um vandann, en hann er annars staðar, of stór til að meðtaka sem eitthvað sem gæti virkilega haft áhrif á okkur.

loftslagsbreyt

Þetta greindi ég, tók saman niðurstöður og rakti á meðan litli bumbubúinn óx og dafnaði. Aldrei hvarflaði að mér að leiða hugann að því hvað tæki við fyrir þetta litla líf eftir minn tíma. Ég var orðin þrusugóð í að draga fram hræsni stjórnmálamanna, fyrirtækja og fjölmiðla þegar kom að þessari þrúgandi þögn sem hverfist utan um loftslagsbreytingar í daglegu tali, en hvað um mína eigin hræsni?

Eins og við vitum flest eru loftslagsbreytingar mest áríðandi vandi heimsins í dag. Fyrir því höfum við ógrynni af sönnunum, og nægir í því samhengi að benda á reglulegar skýrslur Sameinuðu þjóðanna, IPCC, sem ótal vísinda- og menntafólk hefur komið að. Tölurnar ljúga ekki.

Ýkt veðurskilyrðisúrnun sjávarbráðnun jökla og hafíss og breytt loftslag lýgur ekki. En samt gerum við ekki neitt. Ég geri ekki neitt.

loftslagsbreyt

Ég kom nýju lífi inn í þennan heim í vor og þegar ég hugsa til þess hvað ég og mín kynslóð hyggjumst skilja eftir fyrir þá næstu þá fallast mér hendur. Ég get ekki tengt þær upplýsingar sem ég hef um loftslagsbreytingar við framtíð sonar míns. Hann er í dag rúmlega fjögurra mánaða, dafnar með hverjum deginum og er nýbyrjaður að fara að sofa á skikkanlegum tíma, hjala og æfa sig í að snúa sér af bakinu og á hliðina.

Og ég er heltekin af hverju litlu augnabliki, heltekin af honum og hvernig ég get bætt mig í þessu móðurhlutverki. Mér finnst ég alltaf geta gert betur. Þetta er tilfinning sem ég hef heyrt aðrar mæður kalla mömmusamviskubitið, mammviskubitið. Þessi tilfinning að ég hefði nú alveg getað gert eitthvað öðruvísi í uppeldinu.

Æ, samviskubitið ef ég dirfist að fara í burtu frá honum í meira en tvo tíma. En æ, samviskubitið ef ég ven hann á að ég sé til staðar á öllum tímum sólarhringsins, alltaf, alls staðar, tilbúin í móðurhlutverkinu þegar hann vaknar og til taks þegar hann þarf að sofna.

Samviskubitið ef ég dirfist að gefa honum þurrmjólk því ég nenni ekki að pumpa. Samviskubitið þegar ég stekk frá og legg það á föður hans að gefa honum pela einu sinni og einu sinni. Samviskubitið yfir því að fá samviskubit yfir því að skilja feðgana eftir, þeir eigi nú alveg að geta séð um sig sjálfir. Ég sver, það er alltaf eitthvað.

loftslagsbreyt

Þegar bætist svo við umhverfissamviskubitið, þá fyrst byrja ég að naga á mér neglurnar. Að koma barni á legg er ekki sérlega umhverfisvænt þegar við tökum tillit til allra smáatriðanna sem fara í uppihald barna. Pappírsbleyjur til dæmis. Heilu gámafarmarnir af fötum sem við keppumst við að koma börnunum í áður en þau stækka upp úr þeim við tólf vikna aldurinn.

Plastleikföngin, pappagrisjurnar, dótið og pelarnir. Í nánast hysterískri þörf til að veita syni mínum allt hið besta hef ég sjálf gerst sek um að líta undan loftslagsvandanum. Ég þykist vera umhverfisvæn en úff, þetta er fljótt að telja.

Mömmusamviskubitið er furðulegt fyrirbæri en það er enn furðulegra að sjá hvernig það hefur tekið fyrir hendurnar á umhverfishugsjónum mínum. Nú er ég svo upptekin af litlu hlutunum í uppeldinu að ég hef gleymt að skoða heildarmyndina, rétt eins og við eigum til að gera þegar við tölum um loftslagsbreytingar. Við erum fljót að afskrifa þær sem vandamál annars staðar og einbeitum okkur svo að litlu hlutunum sem friðþægja samvisku okkar um stund.

En það er ekki nóg að segjast hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, við þurfum að taka skýra afstöðu, og það núna. En það er kannski vandinn. Við miklum það svo fyrir okkur að það verður auðveldara að bægja frá okkur áhyggjunum og við leyfum athygli okkar að renna óskiptri inn í hversdagsamstrið.

loftslagsbreyt

Rétt eins og ég þarf að minna mig á að hvert skref í uppeldinu er vegferð í átt að heilsteyptri manneskju sem getur tekist á við heiminn án afskipta móður sinnar, þá verðum við að minna okkur á að hvert skref sem við tökum í umhverfisvernd er gott skref.

Við megum ekki láta deigan síga þó að vandinn sé mikill. Jú, eftir barnsburð hef ég sjálf gerst sek um loftslagssinnuleysið sem ég sá alls staðar í kringum mig meðan ég skrifaði þessa blessuðu MA-ritgerð en í stað þess að gefast upp fyrir því þá verð ég að axla ábyrgð. Það gagnast mér lítið að fá samviskubit yfir því að ala upp barn sem þarf að takast á við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra.

Hann er fæddur, kominn til að vera, og mitt hlutverk er að gera mitt besta, ekki aðeins til að draga úr eigin kolefnisspori, heldur til að gera syni mínum kleift að takast á við heim þar sem loftslagsbreytingar verða sífellt meira aðkallandi vandi. Það er allavega mitt framlag, einn dag í einu.

loftslagsbreyt

Fleiri greinar eftir Sólu Þorsteinsdóttur.

Verk eftir Evu Sigurðardóttur á Uppskeru Listamarkaði.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
Sjáumst

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Mæður: Öllu að tapa, ekkert að vinna

næsta grein
Alltumlykjandi femínismi - Mikill er máttur fjölmiðla


Lesa meira um...

Loftslagsbreytingar og móðurhlutverkið