17. september 2018

Mér hefur löngum verið hugleikin sú tenging sem ég hef skapað við persónufornafnið „hún“. Þegar ég var yngri átti ég það til að láta mig dagdreyma að um mig væru skrifaðir textar, ljóð eða lög þar sem talað væri um mig sem „hana“ — að ég væri sú sem ort væri um. Birting fornafnsins í textasmíð virtist rómantísk, blómum sveipuð! Þannig hef ég hugsað til þess frá því ég var lítil, en ég var mjög lengi að átta mig á því af hverju þetta fornafn vakti upp slíkar tilfinningar í mér.

MANÍSKA, DRAUMKENNDA ÞUMALÍNAN MÍN

Ég tel að ástæða þessara sterku tilfinninga minna til fornafnsins tengist við hugtak sem oft er vísað í sem „Manic Pixie Dream Girl“ eða MPDG. Ég mun koma til með að vísa áfram til hugtaksins á ensku, því ég gat ég ekki með nokkru móti fundið réttu orðin á íslensku sem grípa hugtakið eins vel. Skilgreining á hugtakinu hljóðar í stuttu máli svona: 

,,Manic Pixie Dream Girl“ er kvenkyns persóna sem birtist oftast í kvikmyndum og hefur litla sem enga baksögu. Hún hefur hins vegar áberandi sérkennilegan persónuleika en eina hlutverk hennar í söguþræðinum er að veita karlkyns aðalpersónunni rými til að enduruppgötva lífið, kynnast ástinni eða víkka sjóndeildarhringinn.

Þessi lýsing á hugtakinu vakti upp forvitni mína og ég fór að lesa mér til um það. Þegar ég var svo búin að lesa allt sem ég fann fór ég að horfa á útskýringarmyndbönd og síðar að skrifa ritgerðir og vinna verkefni í skólanum um hugtakið. Ég var svo ánægð að hafa loksins fundið skýringu á þessari óeðlilegu sterku tilfinningu í garð persónufornafnsins. Ég var hugfangin. 

manic pixie dream girl
manic pixie dream girl

Einungis sköpuð fyrir karlmanninn

Dæmi um birtingarmynd Manic Pixie Dream Girl finnast hjá Fríðu, í Fríðu og dýrinu. Eini tilgangur Fríðu er að gefa aðalkarlinum, Dýrinu, færi á að sýna sínar mjúku hliðar. Að vísu fær Fríða að ganga um og syngja sín lög og síðan fáum við meira að segja að kynnast pabba hennar — en þar með er hennar persónuleiki uppurinn — söguþráður hennar snýst í kringum Dýrið. 

Annað þekkt dæmi finnst í bíómyndinni Garden State, þar sem Natalie Portman leikur stelpuna Sam sem er sæt, fyndin og orðheppin. Sam hvetur karlkyns aðalsöguhetjuna til dáða og gefur honum ráð, en það er um það bil allt sem hún gerir. Hún hefur enga baksögu, enga eiginleika aðra en þá sem aðalsöguhetjunni finnast aðlaðandi. Dæmalisti Manic Pixie Girl er mun lengri en hér er talið en það eru alls ekki allir sammála um það hverjar eiga skilið, eða ekki skilið, að skipa sæti á þessum lista.

Að vera eftirsótt af karlmanni

Það hefur t.a.m. leikið vafi á því hvort bíómyndin 500 Days of Summer samsvari sér MPDG hugtakinu. Þótt myndin segi frá sérviskulegri og duttlungafullri konu sem vekur áhuga dauflegs karlmanns og veitir honum nýja sýn á lífið, er það ekki eini tilgangur hennar. Bíómyndin hefur oft verið tekin sem dæmi um MPDG hugtakið en í raun spilar hún með satíru hugtaksins. Bíómyndin sýnir einna helst hve óraunhæft og leiðigjarnt það er að setja konur í hlutverk Manic Pixie Dream Girl. Kvenpersóna myndarinnar er vör um sín eigin mörk og að sama skapi yfirgefur hún karlmanninn þegar þau mörk eru vanvirt.  

Ástæða þess að ég nefni þessa bíómynd er sú að með áhorfi myndarinnar varð ég fyrst vör við hversu kjánaleg ósk það er að vera eftirsótt af karlmönnum — hversu kjánalegt það er að meta sína eigin verðugleika út frá því hversu vel manni tekst að betrumbæta karlmann í umhverfi sínu. 

manic pixie dream girl

Tilvera okkar er ekki metin út frá hylli karlmanna 

Þó að tilfinning mín til fornafnsins „hún“ hafi tekið mikið pláss innra með mér, fór ég smátt og smátt að skilja að ástæða þess að orðið vakti slík hughrif hjá mér kom til vegna þess að mér hafði verið kennt að það sé fýsilegt að vera eftirsótt af karlmönnum. Tenging mín við orðið hafði komið til vegna þess að ég hafði óbeint lært að tilvera mín væri metin út frá því hversu margir karlmenn heilluðust af mér. 

Þessi uppgötvun mín olli mér óróleika. Mér varð ljóst að mér er ekki ætlað að vera tilgangur einhvers annars — ég er meira en það — ég er ég sjálf.

Þó svo að Hollywood reyni að þröngva upp á mig þeirri hugmynd að tilvera kvenna sé einungis ætluð karlmönnum — að þeirra eini tilgangur sé að leiðbeina þeim, styrkja og færa kraft — hef ég nú frekari skilning á því að líf mitt eigi ekki að stjórnast út frá því.

Ég fór að skilja að fornafnið „hún“ er innantómt. Ég fór að skilja að það hugtak sem leynist á bak við hylli mína er neikvætt, en engu að síður er því troðið markvisst ofan í kokið á mér, hvort sem það er í dægurlögum, kvikmyndum eða bókmenntum. Þessu orði hefur verið troðið ofan í mig frá því ég man eftir mér — svo ef til vill er ekki að undra að ég hafi heillast af því, ég vissi einfaldlega ekki betur. Ég kannaðist ekki við annan raunveruleika. Ég er þakklát því að hafa gert mér grein fyrir því hvað hugtakið stóð í raun fyrir.

manic pixie dream girl

Tilgangur, en ekki tilvera

Mér hefur verið kennt að það sé mikilsvert að vera tilgangur, en ekki tilvera.

Mér varð ljóst að „Manic Pixie Dream Girl“  hugtakið er ekki jákvætt heldur elur á því að konur samþykki að gefa allt en þiggja ekki neitt — elur á því að konur beiti sér fyrir því að veita karlmönnum tilgang, innblástur og stuðning á meðan konan uppsker ekki neitt. Mér er núna ljóst að þessi ómeðvitaða mýta er rótgróin í samfélaginu og að margar konur gera ráð fyrir því að þetta MPDG ástand sé sjálfsagt, að konan sé sköpuð til að þóknast karlinum. Víðast hvar sést hvernig þessi menning hefur skotið rótum  í umtali annarra um kvenmenn. Talað er um hvernig konur eiga að haga sér til betrunar karlmanninum, hvernig konur gerast sekar um óhlýðni reynist þær ekki karlmanninum til góðs. 

manic pixie dream girl

Við erum alltof gjörn á að gera ráð fyrir því að ákveðinn veruleiki hjá okkur eigi bara að vera svona. Við þurfum að ala á gagnrýninni hugsun og sjá að staðalmyndir á borð við þær sem sjást í MPDG persónum eru skaðlegar. Konur skulda karlmönnum ekkert. Þetta hugtak er innantómt og elur á því konur sækjast frekar eftir hylli karlsins en sinni eigin. 

Ég hef nú þróað með mér allt aðra sýn á fornafnið „hún“. Ég sækist ekki lengur eftir samþykki á tilgangi mínum í gegnum textasmíð karlmanns — ég skil núna að æðsta samþykki á tilgangi mínum fæst hjá sjálfri mér.













— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
















fyrri grein
,,Ég vissi ekki betur“ - Kynfræðsla og gerendur

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Sjálfsákvörðunarréttur kvenna: Ég ræð mér sjálf

næsta grein
Atvinnutækifæri kvenna: Ég er hætt að dæma mig sjálfa úr leik


Lesa meira um...

Manic Pixie Dream Girl: Hún – fyrir hann