Mér fannst aldrei gaman að fara í berjamó. Mamma fór alltaf og stundum fór pabbi með. Amma og afi fóru oft. Mér fannst það aldrei spennandi og fór sjaldan eftir að ég byrjaði að ráða því sjálf. Náttúran er samt falleg og ber eru góð og best fannst mér þegar mamma gerði krækiberjasaft og notaði hana í perlugraut.
Hver ætli týni berin sem koma í Krónuna frá Spáni? Og hversu margar hendur meðhöndla þau? Gróðursetja, vökva, spreyja, tína, þrífa, pakka, flytja, senda. Hendur heildsalans sem tekur á móti berjunum, búðarstarfsmenn, áhugasamir kaupendur og loks ég sem að endingu hendi hálfkláraðri plastöskjunni í ruslið, í plasttunnuna ef ég er extra dugleg, sem endar í flutningi til Svíþjóðar í brennslu.
Það er skrítið að hugsa til þess að einhver í Barcelona gæti verið að kaupa ber af sömu plöntu og ég kaupi í Melabúðinni. Berjum er flogið daglega til landsins en ég hika við að fara til útlanda einu sinni á ári. Flugviskubitið hefur tekið sér festu í sál okkar eyjaskeggjanna. Við leitum leiða til að friða samviskuna yfir flugferðinni með einhverskonar kolefnisjöfnun.
Einu sinni sá móðurmjólkin okkur fyrir öllu sem við þurftum, orkuefnum, vítamínum og steinefnum og með henni þroskuðumst við og uxum úr grasi. En móðurmjólkin er víðar en í ungbarnaæsku og brjóstum mæðra. Hún býr líka í jörðinni. Hún tekur á sig ýmis form en veitir okkur allt sem við þurfum til að lifa og leika. Hún finnst í sveppum, jarðeplum og í berjamó. Mannkynið liggur á brjóstum jarðarinnar, við sjúgum úr henni orku til að geta mætt í vinnuna, ræktina og byggt aðra H&M búð.
Með breyttum tímum og breyttri hugsun gagnvart jörðinni og mannkyninu er margt sem við þurfum að breyta í lífstíl okkar og venjum. Að eyða meiri tíma með fólki sem manni þykir vænt um, að borða betri fæðu og að vinna minna í þágu stórfyrirtækja. Við þurfum að hægja á vélinni. Að fara í berjamó sameinar mörg af þeim gildum sem við viljum ná fram í bættum heimi, að nálgast náttúruna á annan hátt, að fara og vera, að nýta og njóta.
Verk eftir Öldu Lilju á Uppskeru Listamarkaði.