2. september 2019

Ég hef átt í vandræðum með það síðustu mánuði að koma því í orð hvernig mér líður varðandi loftslagsvandann sem við stöndum frammi fyrir. Að bæta einhverju við umræðuna sem hefur gildi, hreinlega að finnast ég hafa eitthvað um málin að segja. Hvað get ég sagt sem ég hef ekki sagt áður? Hvað get ég sagt sem aðrir hafa ekki sagt áður, sem skiptir máli og sem fólk nennir að lesa?

Ekkert. Það er búið að segja allt sem þarf að segja. En samt erum við hér, enn að bíða eftir raunverulegum aðgerðum. Því langar mig að leysa sjálfa mig úr viðjum sjálfskipuðu pressunnar um að verða að skrifa GREININA SEM MUNI VEKJA ALMENNING TIL UMHUGSUNAR. Þess í stað ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að lýsa hugarangri mínu, í von um að með því að skrifa þennan pistil takist mér a) að hrista sjálfa mig í gang á ný, b) að vekja einhvern til umhugsunar.

Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta ekki um að koma með frumlegasta vinkilinn á loftslagsvandann, að skrifa eitthvað stórkostlegt sem muni varpa nýju ljósi á þessa krísu og gjörbreyta viðhorfi fólks. Þvert á móti.

Loftslagsvandinn er ekki flókinn. En hann er erfiður viðureignar því hann krefst þess að allir séu reiðubúnir að gjörbreyta lifnaðarháttum sínum og það er ekki eitthvað sem gerist á einni nóttu.

loftslagsvandi

Ég er farin að átta mig á því að það að standa í loftslagsaktívisma er langhlaup. Kaldhæðnislegt, því við erum í kapphlaupi við tímann, en þegar allt kemur til alls snýst þetta um úthald. Að segja sama hlutinn aftur og aftur, vera dropinn sem meitlar steininn.

Að taka slaginn því þú getur ekki lifað með sjálfri/sjálfum/sjálfu þér ef þú gerir það ekki. Að taka slaginn þó hann sligi þig. Að trúa því að það sé ekki um seinan, þrátt fyrir að tölurnar bendi allar til annars.

Það er þessi þunna lína milli þess að vera ákaft meðvitaður um loftslagsmálin á hverjum einasta degi og þess að leyfa þeim að gleypa sig með húð og hári. Ég finn það sjálf að síðustu daga, vikur jafnvel, hef ég verið föst í hálfgerðu vonleysis-móki. Ég hef ekki haft andlega burði til að takast á við loftslagsvandann. Það er nefnilega svo ísmeygilega íþyngjandi að horfast í augu við hamfarir af mannavöldum sem enginn virðist taka nógu alvarlega. Um leið og þú viðurkennir stöðuna sem við erum komin í er erfitt að láta vonleysið ekki gleypa sig.

Ég er ennþá á því að við verðum að taka af skarið en ég bara sé það ekki gerast. Ekki í núverandi samfélagsformgerð, með núverandi hagkerfi sem heldur sér gangandi með endalausri þenslu. Alltaf upp upp upp, alltaf meira meira meira.

Þess vegna ætla ég ekki að flækja málin í þessum pistli. Eins og ég sagði hér að framan er þetta ekki flókið. Við þurfum að breyta neysluvenjum okkar. Það er orðin útúrspýtt og þvæld tugga að við þurfum raunverulega byltingu í neysluvenjum okkar ef við ætlum að takast á við loftslagskrísuna en mér er alveg sama. Ég er dropinn sem meitlar steininn.

Við þurfum að breyta neysluvenjum okkar. Ekki seinna, þegar vísindamenn finna lausn sem sneiðir fram hjá loftslagsvandanum, ekki eftir næstu kosningar, ekki þegar börnin okkar eru orðin fullorðin. Við þurfum að snúa við blaðinu, núna. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir.

Þetta er krísa. Það er engin tilviljun að jöklar, bæði hér heima og á Grænlandi séu að bráðna svo hratt að vísindamenn eru ráðþrota. Það er engin tilviljun að veðurskilyrði út um allan heim eru orðin ýktari. Við finnum það meira að segja hérna heima. Það er ekki tilviljunum háð að síðasta sumar hafi verið ógeðslega grátt, blautt og kalt – og að sumarið í ár sé besta sumar í marga áratugi. Þessar sveiflur eru ekki eðlilegar. Tryllt þrumuveður í Evrópu. Eyjur að fara í kaf í Miðjarðarhafi. Kóralrifin að deyja. Óbærilegur fjöldi dýra í útrýmingarhættu.

Þetta. Er. Að. Gerast.

Og við getum komið í veg fyrir að allt fari á versta veg ef við breytum núna. Ef við, sem einstaklingar, sem neytendur, sem fjölskyldumeðlimir komandi kynslóða, sem manneskjur sem raunverulega bera ábyrgð á neyð fátækari þjóða vegna neyslu okkar, gjörbreytum lifnaðarháttum okkar. Neysluvenjum okkar. Og þetta þarf að vera samstillt átak.

Sjálf er ég komin á þann stað að ég get ekki gengið inn í fatabúð. Ég fæ mig ekki til þess. Ég get ekki réttlætt fyrir sjálfri mér að kaupa mér nýja flík, bara af því mig langar í hana. Ég get ekki réttlætt fyrir sjálfri mér að eyða í óþarfa. Þá er ekki þar með sagt að ég þykist vera heilagari en einhver annar. Ég borða kannski ekki kjöt eða fisk en ég borða samt dýraafurðir, þó ég fái óbragð af tilhugsuninni. Hugsanavillan er enn til staðar, ég veit hvað ég er að gera en get samt ekki tekið skrefið. Það virðist svo óyfirstíganlegt.

Og það er loftslagsvandinn okkar í hnotskurn. Við getum ekki ímyndað okkur að hætta að neyta eins og við erum að gera, því okkur finnst þetta ekki vera okkur að kenna. Okkur finnst að aðrir eigi að takast á við vandann, einhver annar eigi að leysa þessa flækju sem við komumst ekki upp úr.

Það er ekki okkur að kenna að við búum í kapítalísku samfélagi sem gengur út á vöxt, vöxt, vöxt. Okkur er kennt að það sé jákvætt að hagkerfið vaxi, þenjist, gleypi okkur upp til agna. En þar getum við staldrað við og spurt hvort þetta sé okkur fyrir bestu.

Við erum svo mörg sem sjáum loftslagsvandann, vitum hvernig þarf að leysa hann, sem erum reiðubúin að gera það sem þarf. Ég hef ekki haft þrek í aktívismann undanfarnar vikur en ég er svo óendanlega þakklát fyrir þá sem taka slaginn. Sjáið bara börnin á Austurvelli með sitt loftslagsverkfall, föstudag eftir föstudag. Sjáið Gretu Thunberg. Sjáið alla aktívistana. Alla umræðuna sem hefur aukist gríðarlega síðustu misseri. Við vitum hver vandinn er.

Stjórnvöld vita líka alveg hve alvarlegur vandinn er. En þau munu ekki gera neitt fyrr en við erum nógu hávær. Fyrr en við hættum að láta ákall okkar um raunverulegar breytingar einskorðast við framíköll á samfélagsmiðlum. Fyrr en þetta er það eina sem við tölum um og um leið að fleiri átti sig á að eina leiðin út úr þessum vanda er að gjörbreyta lifnaðarháttum okkar. Fyrr en dropinn meitlar steininn.

Þetta er ekki keppni um hver sé mesti loftslagsaktívistinn, hvert okkar sé duglegast að lágmarka neyslu sína eða öskra hæst á Twitter. Þetta snýst ekki um að draga annað fólk niður fyrir eitthvað sem það gæti verið að gera betur, þar sem það græðir enginn á því að vera skammaður fyrir að gera ekki nóg. Ég veit það af eigin raun að um leið og þú skammar mig fyrir að taka ekki til í herberginu mínu er ekki séns að ég sé að fara að gera það.

En ef þú hvetur mig til þess, lætur mig jafnvel halda að það sé mín hugmynd? Snilld. Þess vegna þurfum við að hjálpast að við að koma samfélaginu í skilning um að breytinga sé þörf og það núna. Að það sé okkur fyrir bestu. Ekki bara til að afstýra hryllingi, heldur af því að það geti raunverulega skilað okkur bættum lífskjörum.

Við þurfum orkuskipti. Við þurfum að umturna viðhorfi okkar til neyslu. Við þurfum róttækar aðgerðir til að tækla vandann. Allt er þetta á leiðinni, en spurningin er hvort að breytingin sé að koma nógu hratt. TIl þess að það verði raunin þarf að halda áfram að beita stjórnvöld þrýstingi. Beita fyrirtæki þrýstingi og sýna að við viljum betri kosti. Halda áfram. Dag eftir dag. Við þurfum ekki öll að vera loftslagsaktívistar en við þurfum öll að horfast í augu við vandann, láta hann gleypa okkur og spýta okkur svo út aftur um leið og við áttum okkur á því sem við þurfum að gera. Þá fyrst eigum við séns.

Ég er ekki að segja að ég sé endilega sú marktækasta í þessum málum. Ég er hræsnari sem er nýbyrjuð að keyra bíl og á ferð til útlanda í október. Ég get ekki mikið sagt en það er kannski punkturinn. Ég lifi í núverandi hagkerfi og ég vil að það komi skriflega fram að ég er tilbúin í breytingar. Ég er tilbúin að vera dropinn sem meitlar steininn. Ég er tilbúin að fórna mínum lífsgæðum ef það þýðir að við eigum séns. En þú?

Fleiri greinar eftir Sólu Þorsteinsdóttur.

Verk eftir Heiðdísi Buzgó á Uppskeru Listamarkaði.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Ungar athafnakonur: Feminísk leið til að bjarga umhverfinu

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Með fullri virðingu fyrir heilbrigðisstarfsfólki

næsta grein
Mín eða þín losun?


Lesa meira um...

Dropinn sem meitlar steininn