4. september 2019

Umhverfismál og hamfarahlýnun af mannavöldum virðist á allra vörum. Sífellt berast fréttir af veðurhamförum sem erfitt er að ímynda sér að stafi af öðru en fyrrnefndri hamfarahlýnun, má þar t.d. nefna fréttir af hitabylgju á meginlandi Evrópu, flóðum í Bretlandi og Indónesíu, skógareldum í Svíþjóð, Nýja-Sjálandi og víðar og hagléli á stærð við borðtenniskúlur í Frakklandi sem setur líf og lífsviðurværi fólks þar í landi í uppnám.

Vísindakonur og -menn hafa varað við að veðurhamfarir sem þessar verði tíðari og ágengari ef stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar grípa ekki til róttækra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, strax. Það er þó mikilvægt að velta fyrir sér hvernig hamfarahlýnun hefur mismunandi áhrif á íbúa jarðar eftir atvinnu, stétt, kyngervi, búsetu og efnahagslegri stöðu.

Hverjir verða hvað verst fyrir afleiðingum hamfarahlýnunar, hvaða fréttir heyrum við ekki, hverjir eru það sem eru einna berskjaldaðastir fyrir áhrifunum og koma til með að bera þungar byrðar vegna hamfaranna?

Hamfarahlýnun er alþjóðlegur vandi en áhrifin dynja af mismiklum þunga á íbúa jarðar. Meira en helmingur fólks, sem lifir undir fátæktarmörkum, býr í Afríku sunnan Sahara og stærstur hluti þess fólks býr utan þéttbýlis. Stærstur hluti fólks sem býr utan þéttbýlis í álfunni hefur lifibrauð sitt á einn eða annan hátt af landbúnaði, þar eru smábændur í meirihluta en landbúnaður er sú grein sem er hvað viðkvæmust fyrir breyttu loftslagi.

Lítið er um áveitu í landbúnaði í álfunni svo breytingar á úrkomu og hitastigi geta haft gríðarlega neikvæð áhrif á landbúnað og þar með stofnað fæðuöryggi, vistkerfum, líffræðilegum fjölbreytileika, vatnsauðlindum og lýðheilsu í hættu og aukið þar með á fólksflutninga og flóttamannastraum líkt og nú þegar má sjá merki um. Íbúar í dreifbýli álfunnar eru berskjaldaðir fyrir slíkum loftslagsbreytingum vegna þess hve háðir þeir eru staðbundnum náttúruauðlindum til að lifa af.

Í mörgum tilvikum eru konur berskjaldaðri fyrir slíkum breytingum og neikvæðum áhrifum en karlmenn. Áhrifin eru vissulega mismikil eftir staðsetningu og efnahagslegri stöðu landa í álfunni en ljóst er að hamfarahlýnun af mannavöldum ógnar öryggi, efnahagslegum framförum og mannréttindum.

Á öllum þessum sviðum gætir kynjaðra áhrifa.

hamfara

Kyngervi, sem vísar til félagslegs og menningarlegs hlutverks karla og kvenna, mótast af þeim félagslega raunveruleika sem fólk elst upp við og hefur áhrif á hlutverk kynja á pólitísku, efnahagslegu og félagslegu sviði samfélagsins. Kyngervi, sem eru ólík eftir samfélögum, gera það að verkum að störf kynja eru oft ólík og aðgengi kynja að auðlindum, aðföngum og upplýsingum sömuleiðis. Í mörgum löndum Afríku sunnan Sahara eru konur að miklu leyti útilokaðar frá efnahags- og stjórnmálalegu valdi.

Réttur þeirra til ákvarðanatöku innan heimilis og utan, sem og aðgengi að fjármagni, er takmarkað og getur gert það að verkum að þær eru enn berskjaldaðri fyrir loftslagsbreytingum en karlar í sömu stöðu.

Konur eru meirihluti láglaunafólks og hafa að jafnaði lægra menntunarstig en karlar í álfunni. Það er oftar í verkahring kvenna að sjá um að tryggja vatn, mat og eldivið eða eldsneyti til matargerðar og hitunar en vegna neikvæðra áhrifa loftslagsbreytinga verða þessi verkefni tímafrekari og erfiðari. Tökum vatn sem dæmi. Konur og stúlkur eru yfirleitt þær sem sinna því hlutverki að nálgast og tryggja heimilum sínum drykkjarvatn ásamt vatni fyrir eldamennsku og þrif.

Langar ferðir eftir vatni, sér í lagi utan þéttbýlis eða í löndum þar sem átök eiga sér stað, auka líkur á að konur og stúlkur verði fyrir kynferðisofbeldi á ferðum sínum. Þegar tíminn sem eytt er í að tryggja vatn eykst hefur það einnig þær afleiðingar að minni tími verður aflögu fyrir menntun stúlkna sem og efnahagslega þáttöku þeirra sem gæti gefið þeim aukið sjálfstæði.

Áhrif hamfarahlýnunar geta verið þau að aðgengi að hefðbundinni fæðu verði ótryggt og minnkað ásamt því að matvöruverð hækki þegar uppskera bregst. Þetta kemur niður á þeim sem minnst hafa á milli handanna og þeim sem sjá um fæðuöflun, matarinnkaup og eldamennsku heimilisins sem í flestum tilfellum, í Afríku sunnan Sahara, eru konur.

Ferðafrelsi kvenna er einnig takmarkað af samfélagslegum venjum og gerir það að verkum að þegar leita þarf út fyrir heimilið eða landareignina að vinnu til þess að tryggja innkomu, en slík þörf eykst þegar uppskera verður óáreiðanleg, eru það yfirleitt karlmenn sem sækja þá vinnu.

Ástæður þess eru meðal annars fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvaða hlutverk tilheyri konum, lægra menntunarstig þeirra sem hefur áhrif á þau störf sem þeim bjóðast utan heimilisins og almennt lægri laun. Konur sitja því eftir með fleiri verkefni, minna á milli handanna og takmarkaðan ákvörðunarrétt, sem ógnar fæðuöryggi kvenna og barna enn frekar.

Kynjuð áhrif loftslagsbreytinga eru enn greinilegri í umhverfi og aðstæðum þar sem ríkja átök, pólitískur óstöðugleiki og efnahagskrísur en slíkar aðstæður geta orðið tíðari ásamt því að erfiðara verður að koma í veg fyrir þær og leysa vegna hamfarahlýnunar.

Það fólk sem minnsta ábyrgð ber á hlýnun jarðar er það sem mun verða hvað mest fyrir barðinu á henni.

Það sem fram hefur komið getur orðið til þess að gjáin milli hins hnattræna norðurs og hnattræna suðurs verður stærri og gjáin milli þeirra ríkustu og fátækustu sömuleiðis. Karlar í hinu hnattræna norðri eru í meirihluta þeirra sem koma til með að taka ákvarðanir um næstu skref í viðbrögðum og aðgerðum tengdum hamfarahlýnun og því er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um þær birtingarmyndir sem hamfarahlýnun af mannavöldum getur haft.

Jafnrétti kynjanna þarf að gera að einni af lykilbreytum í umræðunni og hafa í huga við samningaviðræður og gerð stefnuskráa sem snúa að því að sporna gegn áhrifum hamfarahlýnunar. Að sama skapi er mikilvægt að sem fjölbreyttastur hópur, hvað varðar til dæmis búsetu, stétt, efnahagslega stöðu og kyngervi, fái sæti við borðið í þeim viðræðum.

Í fréttum af hagléli í Frakklandi sem gjöreyðilagði uppskeru bænda var tekið fram að franska ríkið myndi lýsa yfir neyðarástandi þar í landi til að tryggja að bændur fengju tap sitt bætt.

Ég tel það á ábyrgð okkar allra að lýsa yfir neyðarástandi fyrir alla þá sem ekki njóta sömu tryggingar, þeirra sem sambærilegt tjón þykir ekki fréttnæmt.

Fleiri greinar eftir Steinunni Bragadóttur.

Verk eftir Unu Hallgrímsdóttur á Uppskeru Listamarkaði.

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Ég yrki til móður jarðar

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Að virða fyrir sér virðingu

næsta grein
Mannmiðjukenningin


Lesa meira um...

Af kynjuðum áhrifum hamfarahlýnunar: Áhrif á konur í hnattrænu suðri